21.05.1981
Efri deild: 116. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4853 í B-deild Alþingistíðinda. (5133)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Hér er fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. lög nr. 42 13. maí 1977 og lög nr. 67 30. maí 1979, nál. frá sjútvn.

Nefndin hefur rætt frv. á fundi sínum og fengið til viðtals um þetta mál fulltrúa frá sjútvrn. og Hafrannsóknastofnun. Nefndin hefur orðið sammála um að standa að samþykkt frv. óbreytts eftir að sjútvrn. hefur með bréfi staðfest ákveðnar reglur sem gilda skulu um skarkolaveiðar í Faxaflóa.

Bréf sjútvrn. er birt hér sem fskj. og þykir mér ástæða til þess að aðeins fara yfir það:

Sjútvrh. staðfestir, að eftirgreindar reglur muni gilda um skarkolaveiðar í Faxaflóa, verði staðfest frv. til l. um breyt. á lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. lög nr. 42 13. maí 1977 og lög nr. 67 30. maí 1979 (mál 174).

1. Heildarafli skarkola fari ekki yfir 1500 lestir, en veiðarnar stöðvaðar fyrr, telji Hafrannsóknastofnunin ástæðu til þess vegna ástands stofnsins.

2. Aldrei stundi veiðarnar fleiri en sex bátar samtímis og löndun skarkolaafla verði í mesta lagi bundin við þrjár vinnslustöðvar.

3. Veiðar skulu í fyrsta lagi hefjast 15. júlí.

4. Veiðisvæði verði hin sömu og tilraunaveiðarnar fóru fram á sumarið 1980 og ekki rýmkuð nema að undangengnum tilraunum undir eftirliti Hafrannsóknastofnunarinnar samkv. tillögum stofnunarinnar.

5. Gerðar verði frekari tilraunir með 170 mm möskva í dragnót og samanburður fenginn á afla úr þeirri nót og nót með 155 mm möskva, sem verði lágmarksmöskvastærð við veiðarnar.

6. Hlutur bolfisks fari ekki yfir 15% af heildarvikuafla hvers báts. Afli umfram 15% verði gerður upptækur samkv. lögum nr. 32 1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla.

7. Eftirlit með þessum veiðum verði með svipuðum hætti og var sumarið 1980 og brot á þeim reglum, sem um veiðarnar gilda, varði fyrirvaralausri sviptingu leyfis.

Ofangreindar reglur munu gilda um veiðarnar og ekki vikið frá þeim nema í samráði við sjútvn. Alþingis. Reglur þessar verða skoðaðar fyrir vertíð hverju sinni með hliðsjón af fenginni reynslu frá árinu áður. Enn fremur gætu tilraunir í sumar með 170 mm möskva leitt til þess, að 170 mm möskvi yrði alfarið tekinn upp í dragnót sumarið 1982.“

Undir þetta rita Steingrímur Hermannsson, Jón B. Jónasson.

Ég vil þakka nefndarmönnum fyrir að hafa reynt að seilast til samkomulags, og ég þakka nefndarmönnum fyrir það, að það tókst að ná samkomulagi. Það var heitt í kolunum, eins og þeir segja í neðra, þegar þetta mál var þar til umr., og ég vona, að hér verði friðsamlegri umr. Ég þakka einnig sjútvrh. fyrir það sem hann hefur lagt af mörkum til að þetta samkomulag gæti tekist.

En undir nál. rita Stefán Guðmundsson, Kjartan Jóhannsson, Guðmundur Karlsson, Geir Gunnarsson, Guðmundur Bjarnason og Egill Jónsson.