21.05.1981
Efri deild: 116. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4854 í B-deild Alþingistíðinda. (5136)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram hér við þessa umr., að vinnsla á skarkola er vaxandi atvinnugrein hér í höfuðborginni. Það hefur löngum verið haft á orði, að það væri nauðsynlegt að efla útgerð og fiskvinnslu og fjölbreytni atvinnulífs á Reykjavíkursvæðinu. Jafnframt hefur komið fram við meðferð þessa máls að þessar veiðar og vinnsla eru með arðbærustu veiðum, sem Íslendingar geta stundað um þessar mundir, og verið er að byggja upp mjög mikilvæga markaði fyrir þessa framleiðslugrein erlendis.

Þegar um slíkt er að ræða, þá held ég að það sé fyllilega réttlætanlegt að menn haldi inn á nýjar brautir í þessum efnum, sú harða afstaða, sem verið hefur hjá ýmsum gegn slíku, verði ekki látin hindra að þessi þróun fái að reyna sig.

Ég hef ekki haft tækifæri til þess að skoða nákvæmlega þá yfirlýsingu, sem hæstv. sjútvrh. hefur hér látið frá sér fara í dag, 21. maí, en ég vænti þess, að hún sé þess eðlis, ef ekki kemur annað fram frá hæstv. ráðh., að áframhaldandi starfsemi í þessari veiðigrein og vinnslugrein hér í landinu fái fyllilega að njóta sín. Annað væri óeðlilegt að mínum dómi miðað við nauðsyn þess að byggja upp fjölþættari markaði fyrir íslenskan sjávarútveg og hagnýta betur þá fiskveiðistofna sem Íslendingar hafa lítt nýtt til þessa.