22.05.1981
Efri deild: 119. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4871 í B-deild Alþingistíðinda. (5169)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Ég tel mjög þýðingarmikið að ljúka þessu máli fyrir þinglok, sem mér sýnist nú vera full vissa fyrir.

Ég tel ekki ástæðu til að fara hér í umræður um efnisinnihald þessa frv. né tilefni þess að nauðsynlegt var að setja brbl. 23. júní s. l. Ég vil aðeins taka fram að það var gert í samráði við ýmsa af forustumönnum bændasamtakanna, enda hafa bændasamtökin lýst yfir fylgi við þessar aðgerðir.

Ég vil einnig taka það fram með tilliti til orða hv. síðasta ræðumanns, að þær stjórnunaraðgerðir, sem gripið hefur verið til og nauðsynlegt hefur verið að gripa til, eru af því sprottnar að markaðsaðstæður hafa breyst, markaðir hafa brugðist og verðlagsþróun hefur gert þær nauðsynlegar. Það er ekki gert með tilliti til neinnar stefnu Alþfl., heldur einungis af þessum sökum.

Það er einnig margyfirlýst að þrátt fyrir þá nauðsyn, sem var á að draga saman mjólkurframleiðsluna þannig að hún væri nokkurn veginn við hæfi innlends markaðar, þá tel ég nauðsynlegt að halda uppi sauðfjárframleiðslu umfram innanlandsneyslu til þess að verja hagsmuni og tekjumöguleika til sveita þannig að byggðinni verði haldið.

Ég tel ekki ástæðu til að skipta að þessu sinni orðum við hv. þm. Egil Jónsson um þessi mál, við höfum gert það fyrr. Ég bendi aðeins enn á það sem hann segir um mun á stefnu Sjálfstfl. — sem hann kallar — og því frv., sem hér er á ferðinni, að í stefnutillögu þm. Sjálfstfl., sem hv. þm. Egill Jónsson er 1. flm. að, er tvítekið sem aðalleið í þeirri till. að beita kjarnfóðurgjaldi. Frekar þarf naumast vitna við um málflutning hv. þm., og ég tel ekki ástæðu til að fjalla um hann í fleiri orðum.

Ég endurtek þakklæti mitt til hv. nefndar.