22.05.1981
Efri deild: 120. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4883 í B-deild Alþingistíðinda. (5194)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þau brbl., sem hér er verið að fjalla um, voru sett fyrir tæpu ári. Þeir vísu lögfræðingar, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson vitnaði í áðan, hafa allan þann tíma ekki séð neina ástæðu til þess að vekja athygli stjórnvalda eða Alþingis á því, að með þeim lögum hafi verið framið stjórnarskrárbrot. Þótt Verslunarráð Íslands hafi skyndilega í dag sent Alþingi bréf um það efni sé ég ekki ástæðu til að breyta fyrri afstöðu minni til þessa máls. Við búum enn þá í réttarríki, þar sem Hæstiréttur Íslands sker úr um það hvað er stjórnarskrárbrot eða ekki stjórnarskrárbrot, en ekki Verslunarráð Íslands. Vona ég að Hæstiréttur gegni áfram því hlutverki, en ekki þróist hér það þjóðskipulag þar sem þm. koma upp eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og telji að Verslunarráð Íslands sé orðinn einhver löggildur úrskurðaraðili um það, hvað sé stjórnarskrárbrot og hvað ekki, og segi þess vegna já.