23.05.1981
Efri deild: 122. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4960 í B-deild Alþingistíðinda. (5306)

320. mál, raforkuver

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það verður ekki of oft ítrekað, að forsendurnar fyrir því að leggja í stórvirkjanir eru tryggur, öruggur og hagkvæmur markaður. Fram hjá þessu hefur í raun og sannleika verið gengið að öllu leyti í þeim tillögum sem hæstv. iðnrh. hefur lagt fram. Við Alþfl.-menn höfum lagt mjög ríka áherslu á það, að til þess að ná árangri á þessu sviði þurfi áformin að því er varðar virkjanir og að því er varðar orkufrekan iðnað að fylgjast að og undirbúningur undir hvort .veggja að vera á sama stigi. Það hefur áreiðanlega hamlað framgangi þessa máls, að hæstv. iðnrh. og ríkisstj. hafa ekki treyst sér til þess að marka hér neina stefnu sem hald sé í.

Hæstv. iðnrh. hefur gert mikið úr því, að mál væru vel undirbúin í hans rn., og hann hefur minnt á að það hafa verið samdar skýrslur t. d. um magnesíumframleiðslu og um kísiljárnsframleiðslu. Ég hef blaðað nokkuð í þessum skýrslum og ég verð að segja að það er heldur mögur ákvarðanataka sem í þessari skýrslugerð felst. Ég skal að vísu viðurkenna að ef það að taka upp nýja tegund af stafsetningu telst vera mikið afrek, þá má segja að kísiljárnsskýrslan sé af því tagi þar sem ufsilon er látið koma fyrir á hinum ólíklegustu stöðum í íslenskri tungu. Það var nú kannske það sem vakti ekki síst athygli mína í sambandi við þá skýrslu. Ég held að það sé óhætt að segja varðandi stöðu mála í kísiljárnsframleiðslunni, a. m. k. að því er birst hefur okkur í þessari skýrslugerð, að það verði að teljast ákaflega skammt á veg komið.

Það hefur líka af hálfu hæstv. iðnrh. verið vitnað í skýrslu sem nefnist Magnesíumframleiðsla — forsendu athugun. Það er komið víða við í þessari skýrslu. En það er athyglisvert, að það er heildarniðurstaða skýrslunnar að það þurfi að koma upp viðbragðsstöðu. Þetta er nýyrði, að ég trúi, í sambandi við það, hvernig menn taka á þessum málum, en hugsunin er mjög góð. Ég tel að það, sem þarna er verið að tala um, eigi við í verulegum mæli um þann orkufreka iðnað sem við þurfum að ráðast í, þ. e. að menn þurfi að vera til þess búnir að geta tekið þeim álitlegu verkefnum sem berast. En þó að hér sé lagt til að vera í viðbragðsstöðu eða koma upp viðbragðsstöðu, eins og það er nefnt, þá held ég að þessi skýrsla gefi ekki tilefni til þess að álíta að svo sé í sambandi við magnesíumframleiðslu.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar nm þessa skýrslu, en þar er margt nýyrða, svo sem varðandi starfsemisaðstöðu, forsendur, sambýlisforsendur og markaðsinnkomu, sem hefði í sjálfu sér verið ástæða til þess að fjalla efnislega um.

Ég gat þess hér í upphafi, að það væri alger forsenda fyrir því að tala um virkjun í stórum stíl að gera sér grein fyrir að þá þarf að fylgjast að orkufrekur iðnaður og virkjanirnar sjálfar. Sannleikurinn er auðvitað sá, að án uppbyggingar á orkufrekum iðnaði eru allar vangaveltur um stórfelld virkjunaráform út í hött. Þá er líka harla tilgangslaust að vera að tala um röðun, vegna þess að ef ekki er ætlunin að reisa og reka iðjuver, sem byggja framleiðslu sína á stórnotkun raforku, er engin ástæða til stórfelldra virkjunarframkvæmda. Hitt vona ég að öllum sé nú að verða ljóst, að virkjun orkunnar er álitlegasti valkosturinn sem Íslendingar eiga til þess að nýta orkufrek iðnaðartækifæri og fjölga starfstækifærum á Íslandi og treysta þar með lífskjörin. En það, sem um er að ræða, þýðir í rauninni að það verður að taka upp algerlega nýja stefnu í þessum málum. Við Alþfl.-menn höfum talið, að ein meginforsenda þess, að það mætti takast, væri að Alþingi mótaði nýja stefnu að því er varðaði sölu raforku til orkufreks iðnaðar og létti þeirri byrði af hæstv. iðnrh., — byrði sem hann og ríkisstj. hafa sannað að þau ráða ekki við að axla og hafa hvorki getu né áhuga á að leysa af hendi. Þess vegna höfum við lagt til að það yrði valin á Alþingi sérstök orkusölunefnd sem miðaði störf sín við að sala til orkufreks iðnaðar a. m. k. fjórfaldaðist á næstu tveimur áratugum og sérstaklega yrði unnið að því, að fljótlega risi eitt nýtt orkuver á Austurlandi, annað á Norðurlandi og eitt á suðvesturhorni landsins, auk stækkana á þeim orkuverum sem fyrir eru. Það er líka skoðun okkar Alþfl.-manna að virkjanaundirbúningur og framkvæmdir eigi að vera á hendi eins aðila, Landsvirkjunar, sem öll sveitarfélög landsins eigi þess kost að gerast aðilar að.

En það var þetta með viðbragðsstöðuna sem getið var um í magnesíumskýrslunni. Þó að það sé nýyrði að því er mér finnst í þessu samhengi, þá teljum við að til þess að geta nýtt þau tækifæri, sem bjóðast, og til þess að tryggja samfelldar virkjunarframkvæmdir eigi að kappkosta það á hverjum tíma, að fyrir hendi séu fullhannaðir virkjunarvalkostir umfram þær virkjanir sem unnið er að hverju sinni eða eru í rekstri. Með þeim hætti ætti að vera unnt að nýta þau tækifæri sem gefast.

Við Alþfl.-menn höfum líka talið að það ætti að tímasetja og raða þeim framkvæmdum sem efst eru á baugi. Ég hef áður gert grein fyrir því, að við teljum að nýjar virkjanir eða viðbætur við eldri orkuver á Tungnaár-Þjórsársvæðinu upp á allt að 250 mw. ættu að vera nærtækasta verkefnið og nr. 1. Síðan ætti nr. 2 að ráðast í Blönduvirkjun og í þriðja lagi Fljótsdalsvirkjun. Við teljum að tímasetningarnar ættu að vera með þeim hætti, að þær framkvæmdir, sem hér um ræðir á Þjórsár-Tungnaársvæðinu, ættu að geta hafið raforkuframleiðslu á árunum 1983–1985 í áföngum, Blönduvirkjun 1986 og Fljótsdalsvirkjun ætti að geta hafið orkuframleiðslu í áföngum á árunum 1987–1989. Með því að setja stefnuna svona hefðu þeir aðilar, sem sjá um orkusöluna, fasta viðmiðun varðandi það, hvernig þeir héldu á málum. Frá þessari stefnu væri svo ekki vikið nema það kæmi í ljós að ekki tækjust samningar um hagkvæma sölu á þeirri orku sem þannig fengist. Auðvitað verður líka að hafa þann fyrirvara í þessu sambandi, að ef ekki nást samningar um virkjun Blöndu samkv. tilhögun eitt, sem svo er nefnd, eða jafnhagkvæmri tilhögun fyrir mitt sumar, þá yrði Blönduvirkjun frestað, en Fljótsdalsvirkjun hraðað að sama skapi. Með því að ganga frá stefnunni með þessum hætti væri öllum ljóst, hvernig þeir ættu að standa að þessum málum, og gætu snúið sér að því að framkvæma verkin í stað þess að eyða kröftunum í lítilsnýta togstreitu og skýrslugerð, eins og nú hefur verið gert. Eins og hv. deild er ljóst er það t. d. svo, að virkjunaraðilar vita ekkert að hverju þeir eiga að vinna í raun og sannleika og á hvað þeir eiga að leggja sérstaka áherslu. Orkuspárnefnd veit ekki hvernig hún á að spá fyrir um orkusöluna. Þannig hangir þetta allt í algerri óvissu eins og nú er.

Ég tók eftir því, að hæstv. iðnrh. talaði um og taldi hér áðan að nú væri aldeilis mörkuð skýr stefna af hálfu Alþingis með því lagafrv. sem hann mælti fyrir. Ég tel að svo sé alls ekki. Ég tel að hér sé allt í þoku, forsendurnar til að vinna eftir séu ekkert skýrari en þær voru áður og það skorti fullkomlega á að ganga frá málum þannig að þeir aðilar, sem að þessum málum vinna, geti snúið sér að þeim af þrótti.

Ég drap aðeins á það hér áðan líka, að hæstv. iðnrh. talaði oft um vönduð vinnubrögð. Ég felli það hins vegar ekki undir vönduð vinnubrögð að senda Alþingi hvert stórmálið á fætur öðru, þegar fáeinir dagar eru eftir, og ætla Alþingi að afgreiða málin á færibandi. Ég er ekki heldur að öllu leyti sáttur við ýmsar þær skýrslur sem hafa komið frá iðnrn. að því leytinu, að þær séu svo aðgengilegar og skýrar sem nauðsynlegt er og æskilegt er. En hvað sem því líður tel ég, að það eigi að vera hluti af eðlilegum og góðum vinnubrögðum að ætla Alþingi nægan tíma til þess að fjalla um málið með eðlilegum hætti, og á það hefur sannarlega skort nú á þessu þingi þegar framkvæmdin hefur verið sú að demba hér inn a. m. k. einum fjórum málum frá iðnrn. á seinustu dögum þingsins og ætlast til þess, að þau séu afgreidd umræðulítið og athugunarlítið. Ég held að það væri ástæða til þess fyrir hæstv. iðnrh. að endurskoða mat sitt á því, hvað góður undirbúningur og góð vinnubrögð séu.

Ég hef hér rakið í nokkru máli hver við Alþfl.-menn teljum að stefnan eigi að vera í raforkumálunum og í málefnum orkufreks iðnaðar og hvernig að þeim málum eigi að standa. Það verður að segjast að frv. ríkisstj. um þessi efni er hins vegar allt öðru marki brennt. Ég skal ekki fara út í efnisatriði þess að neinu marki hér og nú, enda gerði hv. þm. Þorvaldur Garðar það mjög nákvæmlega. En ég verð að segja að í gegnum það samningamakk, sem sumir hafa nefnt hrossakaup, sem hafa átt sér stað hér í þinginu að undanförnu, hefur mönnum tekist að búa til setningar sem alls ekki merkja það sem þeir vilja láta þær merkja, og menn eru síðan á harðahlaupum með skýringar á því í nál., að það, sem í lagafrv. stendur, sé alls ekki það sem þar sé, heldur eigi það að þýða eitthvað allt annað. Mér finnast þessi hrossakaup nokkuð dýru verði keypt þegar sú lagasetning, sem menn ætla að setja hér, á að vera af því tagi, að það, sem í henni stendur, sé ekki að marka, heldur verði að taka það til baka í nál. og útskýringum sem þar koma fram. Þetta finnst mér ekki heldur bera vitni um neitt sérlega vönduð vinnubrögð.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara ofan í efnisþætti þessa frv. núna frekar en svona né heldur að fara ofan í þetta mál að öðru leyti, heldur mun ég gera það við 2. umr. þess hér í þessari hv. deild.