25.05.1981
Efri deild: 123. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 5001 í B-deild Alþingistíðinda. (5349)

320. mál, raforkuver

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það hefur reyndar komið hér skýrt fram í máli þeirra tveggja hv. alþm. sem skipa minni hl. iðnn. auk mín, skýrar en jafnvel áður við þá umfjöllun sem fram fór í iðnn. þessarar deildar, hve mikið stefnuleysi felst í því frv. sem hér er til afgreiðslu. Þær umr., sem fram fóru í n., og þær upplýsingar, sem þar komu fram, voru að því leyti ákaflega mikilvægar og staðfestu þessa skoðun. Ég ætla þess vegna ekki að ræða sérstaklega um frv. til langs tíma, en aftur á móti beina fsp. til hæstv. iðnrh. um næstu skref í þessum málum. Það er í rauninni alveg augljóst mál, að þótt hér sé talað um stefnu til 10–15 ára hefur ríkisstj. engan veginn verið tilbúin til þess að móta þá stefnu. Og það kemur fram í frv. eða grg. þess, að um málið eigi að fjalla aftur í haust. Þá ætlar ríkisstj. væntanlega að verða búin að gera ákveðnar ráðstafanir til þess að auðvelda a. m. k. sjálfri sér að ákveða framvindu þessa stóra málaflokks.

Nú held ég að ég muni það rétt, ég hef ekki farið yfir það nú, að hæstv. landbrh. hafi sagt frá því hér í útvarpsumr., sem fram fóru á dögunum, hvaða fjármagni ætti að verja norður við Blöndu í framkvæmdir þar og við hönnun á þessu ári. Ef þetta er rétt eftir tekið hjá mér er væntanlega búið að gera um það tillögur, hvernig þessu fjármagni, þessum 5 gömlu milljörðum, verði varið. Ég vildi mjög leita eftir svörum við því hjá hæstv. iðnrh., hvernig sú skipting fjármagnsins verður.

Þá er ákaflega mikilvægt að fram komi svör við því, sem ég reyndar beindi til ráðh. við fyrri umr. og talað er um á bls. 6 í því frv. til l. er fjallar um raforkuver, þar sem talað er um að verkum eigi þannig að haga á þessu sumri varðandi Blönduvirkjun og varðandi virkjun í Fljótsdal að hægt verði að taka ákvörðun á næsta hausti. Það verður ekki annað séð en að þarna sé á ferðinni einhver skoðun og þá væntanlega sú, að það eigi að draga fram á haustið að ákveða hvort þessara orkuvera verði tekið á undan. Inn í þetta fléttast svo önnur spurning, sem hefur reyndar fengist svar við í umfjöllun í iðnn. Ed. Alþingis, þar sem þeir sérfræðingar, sem skýrðu þessi mál fyrir n., sögðu alveg berum orðum að ef ekki yrði um orkufrekan iðnað að ræða, heldur einungis þá aukningu sem hér innanlands þarf til hinna almennu nota, þá dygðu þennan áratug þær endurbætur í orkuveitukerfinu sem eru bundnar við vatnsveiturnar á Þjórsársvæðinu. Það er mjög mikilvægt að hér verði skýrt hvaða þætti þær framkvæmdir eiga að þjóna og með hvaða hætti menn hyggjast taka ákvarðanir á næsta hausti um þessi tvö orkuver, í Blöndu og í Fljótsdal, sem samkv. grg. frv. eru aðgreindar frá öðrum fyrirheitum í þeim efnum.

Til viðbótar við þetta legg ég mikla áherslu á það, sem ég reyndar gerði við fyrri umr. og kom fram í máli tveggja ráðh., bæði hæstv. viðskrh. og hæstv. iðnrh., að fá svör við þeirri spurningu minni, í hverju boðskapur þeirra um breiða samstöðu hér á Alþingi eigi að felast. Er þetta aðeins það sem hentar þessum hæstv. ráðherrum að setja fram við þessa umr., við þær aðstæður að málefnastaða þeirra hefur verið með þeim hætti að nánast hefur enginn maður vitað lengst af hvort frv. ríkisstj. um raforkuver næði fram að ganga? Eða er mönnum farið að verða það ljóst, að þessi mál verði ekki til lykta leidd með nokkrum almennilegum hætti hér á Alþingi nema fleiri verði til kvaddir en einungis þeir sem styðja núv. ríkisstj.? Ég óska mjög eindregið skýringar á því, hvað í þessum orðum felst og hvaða fyrirheit eiga þeim að fylgja. Ég orðlengi þetta svo ekki frekar að þessu sinni, en vænti þess að fá svör við spurningum mínum.