13.11.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

51. mál, bygging útvarpshúss

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Lokaorð hæstv. menntmrh. valda því, að ég sé ekki ástæðu til að halda hér neina ræðu. Ég ætla þó, úr því ég kem í stólinn og er búinn að biðja um orðið, að harma það valdboð sem hann boðar. Það er tilgangslaust að vera að koma hér með tillögur. Ráðh. hefur vald og hann er búinn að segja að hann muni nota það hvernig sem málið annars er rætt hér á Alþ. eða hvaða ákvörðun sem hér kann að verða tekin nú.

Ég harma slíkar hótanir, tel þær ótímabærar hvenær sem þær koma fram.

Ég ætla að snúa ræðu minni svolítið við. Hv. þm. Árna Gunnarssyni vil ég segja það: Það á engin ríkisstofnun, hvaða afmæli sem hún á, skilið einhverja sérstaka afmælisgjöf. Þetta eru ópersónulegar stofnanir þjóðarinnar, hvaða hlutverki sem þær gegna. Aftur á móti ber að sjá starfsfólki fyrir viðunandi starfsskilyrðum hvenær og hvar sem er, án tillits til þess, hvað stofnanir eru gamlar eða hvenær þær eiga afmæli. Það eru margar stofnanir á vegum ríkisins í húsnæðisvanda. Stjórnarráðið sjálft er í húsnæðishraki og það hlýtur að eiga afmæli við og við.

Ég ætla ekki að beina orðum mínum til forseta á sama hátt og hv. þm. Árni Gunnarsson gerði og biðja hann um að skora á þá þm., sem ekki hafa tekið til máls, að koma hingað upp og tjá sig, hvort sem þeir eru með eða á móti. Menn verða að vera frjálsir að því, án þess að forseti skipti sér af því, hvenær þeir tala í málum og tala ekki í málum. En svona er málflutningur þeirra Alþfl.-manna þegar þeir fara á kostum, eins og einn þeirra segir oft.

Hitt vil ég gera að talsverðu atriði, að forseti beiti sér fyrir því, að þm. fái að kynna sér teikningar og sjái líkan og staðsetningu þessa útvarpshúss í skipulagi borgarinnar. Ég vildi þá gjarnan hafa umr. á eftir um málið, vegna þess að sem borgarfulltrúi verð ég að segja það, að þegar ég sé líkan af því voðalega bákni sem húsið er í því borgarhverfi þar sem það er, á að vera innan um aðrar stórbyggingar, þá óttast ég þann kostnað sem verði við þessa byggingu sem ég held að sé umfram þarfir Ríkisútvarpsins. Áður en ráðh. fer að beita því valdi sem hann telur sig hafa, vona ég því að þm. geri sér ferð til Þróunarstofnunar Reykjavíkurborgar og kynni sér teikningarnar, kynni sér húsið í útliti eins og það stendur í líkani þar.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, ræða mín er óþörf eftir hótanir hæstv. ráðh. En ég verð að lýsa furðu minni á því, úr því að ráðh. hefur svona mikinn áhuga á framgangi þessa gríðarlega stóra máls, sem öðru hvoru er í fréttum útvarps, útvarpsmennirnir sjálfir eru að minna á öðru hvoru, að hann skyldi ekki skrifa fyrr það bréf sem hann skrifaði eftir að frv. til fjárlaga var lagt fram, að hann skyldi ekki hafa augun opin fyrir því að tala við aðra ráðh. í ríkisstj. áður en fjárlagafrv. var lagt fram.