20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Spurt er hvort alþm. megi gera ráð fyrir því, áður en þeir fara heim í jólaleyfi, að þeir fái að sjá á borðum sínum till. ríkisstj. í sambandi við þær ráðstafanir sem hún telur nauðsynlegt að gera vegna myntbreytingarinnar sem fram á að fara um áramót. Í stefnuræðu minni á Alþ. 23. okt. s.l. er komist svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú breyting á íslenskri krónu, sem verður nú um næstu áramót, er í meginatriðum formbreyting, en hefur einnig raunverulegt gildi. Hún á í fyrsta lagi að auka traust manna á krónunni. Þegar hver króna verður hundrað sinnum meira virði en nú, þá er hún komin í hóp annarra gjaldmiðla á Norðurlöndum. En þessi hugarfarsáhrif geta því aðeins orðið að gagni, að aðrar ráðstafanir fylgi sem sannfæri almenning um að alvara sé á ferðum til þess að treysta gildi krónunnar og veita verðbólgunni viðnám. Samfara þessari breytingu hefur ríkisstj. í huga margháttaðar efnahagsaðgerðir.

Gagnger athugun og endurskoðun er nú hafin á þeirri víðtæku sjálfvirkni sem nú á sér stað ýmist samkv. lögum, samningum eða venjum um verðlag, vexti, kaupgjald, lán og önnur atriði er verulegu skipta um þróun efnahagsmála. Þessi sjálfvirkni og víxlhækkanir eiga sinn mikla þátt í verðþenslunni. Um þessi mál verður haft samráð við þau samtök, sem hlut eiga að máli.

Þetta var úr stefnuræðunni 23. okt. Rækileg könnun fer nú fram á hugmyndum og till. um aðgerðir í efnahagsmálum. Útreikninga þarf að gera og áætlanir. Á þessu stigi er ekki vitað hvenær þessum undirbúningi lýkur og því er ekki unnt að gefa yfirlýsingu um það sem fsp. felur í sér.