20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það eru tvær aths. að gefnu tilefni.

Hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Ragnar Grímsson, komst svo að orði í Þjóðviljanum hinn 15. ágúst s.l., þegar hann var að skýra niðurstöður efnahagsmálanefndarinnar, en þar átti hann sæti, — hann sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þótt innan nefndarinnar hafi komið fram mismunandi áherslur á einstök atriði, þá tel ég að þessi hugmyndaskrá geti orðið grundvöllur að heilsteyptri stefnu í efnahagsmálum sem feli í sér víðtækar aðgerðir gegn verðbólgu á næstu misserum, verulegar breytingar á rekstrargrundvelli atvinnuveganna, nýskipan bankakerfisins, afurðalánum og uppstokkun vaxtamálanna.“

Svo mörg voru þau orð, og nú spyr ég: Hvað dvelur Orminn langa? Hvar eru aðgerðirnar? Hvenær er þeirra að vænta? Hvað hefur breyst? Eða er þetta blaður eins og svo oft hjá þessum hv. þm.?

Mig langar til að spyrja hæstv. félmrh., sem ég hef þrásinnis hér í ræðustóli, bæði á síðasta þingi og eins á þessu þingi, spurt og hvatt til að koma hér upp í ræðustólinn og skýra frá hugmyndum sínum um hvernig hann ætli að koma verðbólgunni niður án þess að skerða gildandi kjarasamninga. Hann hefur ævinlega skorast undan þessum umr., aldrei fengist til að taka þátt í þeim. Nú spyr ég hann: Er hann reiðubúinn til þess að setja ráðherrastól sinn að veði, að ef væntanlegar efnahagsaðgerðir skerða að einhverju gerða kjarasamninga, þá sé hann reiðubúinn til þess að fara úr ríkisstj.? Ég spyr. Já eða nei? Er hæstv. félmrh. á þessari stundu reiðubúinn til þess að svara því játandi, að hann muni yfirgefa ríkisstj., fara úr ráðherrastólnum, ef þær efnahagsráðstafanir, sem ríkisstj. Gunnars Thoroddsens beitir sér fyrir nú, skerða á einhvern hátt nýgerða kjarasamninga? (EKJ: Það er hann áreiðanlega ekki.) Svar hans sýnir að það, sem hann sagði áðan, var sagt í áróðursskyni, það var sagt gegn betri vitund, vegna þess að þessi hæstv. ráðh., sem hvatti til Alþingis götunnar meðan hann var ritstjóri Þjóðviljans, er þegar farinn að leggja á ráðin um það, hvernig hann geti dulbúið aðgerðir gegn launafólkinu í landinu, hvernig hann geti brugðist þeim mönnum sem sömdu í frjálsum samningum við ríkisstj. um mánaðamótin ágúst–sept. Skemmdarverk, ef þau hafa verið unnin og tafið samninga við opinbera starfsmenn, þá voru þau skemmdarverk unnin innan ríkisstj., en ekki fyrir utan hana.