20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

106. mál, efnahagsráðstafanir

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í þessum umr. hafa talað fjórir hv. þm. Alþfl. Þeir hafa ekki spurst fyrir um það, heldur fullyrt allir að ríkisstj. ætli sér að skerða gerða samninga við verkalýðssamtökin, og þeir hafa ætlað að rifna af vandlætingu yfir þessu sem þeir þannig búa sér til. Mér finnst ástæða til þess í sambandi við þessar ræður hv. Alþfl.-manna að minna á það, að þegar þáv. formaður þeirra, hv. þm. Benedikt Gröndal, lagði fram drög að málefnasamningi í lok jan. s.l. var m.a. kafli þar um launa- og kjaramál. Þar segir m.a.:

„Á árinu 1980 skulu ekki gerðir launasamningar, sem fela í sér neina hækkun á grunnkaupi.“ Enn fremur: „Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 13/1979, svonefndra Ólafslaga, um greiðslur verðbóta á laun, skulu verðbætur ekki hækka umfram 5% í hvert sinn 1. mars, 1. júní, 1. sept. og 1. des.“

Þetta er yfirlýst stefna Alþfl, og allra þeirra fjögurra hv. þm. sem hér hafa talað: að banna frekari verðbætur en þarna er greint, m.ö.o. skerða samninga og ganga gegn þessum ákvæðum um verðbætur í lögum. Þá er spurningin þessi, ef mér leyfist nú einu sinni í þessum umr. að bera fram eina fsp., og hún er þá til hv. þm. Karvels Pálmasonar: Er það ekki alveg ljóst, að í framboðsræðu sinni til forseta Alþýðusambands Íslands muni hann undirstrika skýrt og skorinort þessa stefnu sína og Alþfl., að verðbætur skuli skertar þannig að þær verði alls ekki meiri en 5%?