24.11.1980
Neðri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum lýsa stuðningi mínum við þetta frv. sem hér er til meðferðar.

Ég tel að í frv. felist nauðsynleg leiðrétting á lögum sem þróuðust illa hér í Alþingi á 100. löggjafarþingi 1979. Hæstv. þáv. landbrh., Steingrímur Hermannsson, lagði fram frv. til framleiðsluráðslaga, samið af nefnd bænda. Það frv. hafði hlotið mjög vandlegan undirbúning og við töldum að það ætti meirihlutafylgi að fagna hér á Alþingi. En annað kom í ljós. Hv. fyrrv. þm. Lúðvík Jósepsson snerist gegn málinu, hæstv. núv. landbrh. hafði ýmislegt við það að athuga og þannig fór að landbn. deildarinnar breytti þessu frv., breytti því að mínu mati til óbóta, og úr því varð önnur lagasetning en bændur báðu um.

Vandi landbúnaðarins er að sjálfsögðu líka vandi þjóðfélagsins. Þessi vandi hefur ekki skapast nema að litlu leyti fyrir tilverknað bænda. 1972 var stjfrv. til framleiðsluráðslaga í undirbúningi og þar var ákvæði um fóðurbætisskatt. Þetta frv. var stöðvað, m.a. fyrir tilverknað Samtaka frjálslyndra og vinstri manna sem þá voru aðilar að ríkisstj. Þegar menn hófust handa aftur 1978 var vandinn orðinn margfaldur og bændastéttin illa sett. En bændastéttin er enn illa sett með framleiðsluráðslög sem illmögulegt er að framkvæma. Það kvótakerfi, sem við búum við, var gert flóknara en ástæða var til, og ég tel að stórbændasjónarmið hafi ráðið of miklu um þá aðferð sem endanlega var ákveðin um þennan kvóta. Það er t.d. miklu flóknara að miða við framleiðslumagn. Svona mætti lengi telja. Og smábændum og frumbýlingum tókst ekki að hlífa eins og óskir landbn. og þingheims þó stóðu til, vil ég álíta. Það er rétt ómögulegt að framfylgja þessum kvótareglum þannig að nokkurt réttlæti verði á og kvótakerfið er lítið skárra en verðjöfnunargjald, sem þó er versti kosturinn af öllum. Ég held að fóðurbætisskatturinn sé skásta leiðin af þeim sem menn hafa verið að fikra sig áfram með. Hann gefur líka tækifæri til nauðsynlegs sveigjanleika, t.d. hvað varðar tíðarfar og framleiðslumagn.

Þegar þessum skatti var skellt á í sumar snöggdró úr mjólkurframleiðslu, kannske óþarflega snöggt sums staðar. Hv. þm. Steinþór Gestsson komst svo að orði í ræðu, sem hann flutti um þetta mál á síðasta fundi, að þessu gjaldi hefði verið skellt á án nokkurrar viðvörunar. Ég sé nú ekki að það hefði verið heppilegt að gefa út einhverja orðsendingu um það, að bráðum kæmi fóðurbætisskattur, og gefa mönnum tækifæri til að hamstra. Ég held að það hafi tekist mjög vel að koma þessum fóðurbætisskatti á þannig að menn hefðu ekki tækifæri til að birgja sig upp. Það urðu ekki um þetta mál blaðaskrif fyrr en það datt yfir. Það held ég að hafi verið rétt aðferð og heppileg að vera ekki að gefa þeim aðilum, sem fjársterkir voru og höfðu úr miklu að spila, tækifæri til að birgja sig sérstaklega upp. Ég tel að það sé engin frágangssök að flytja mjólk á milli landshluta, en svo horfir að við þurfum að gera það í vetur.

Hvað sauðfjárframleiðsluna varðar er fóðurbætisskattur ekki eins áhrifaríkur til að draga úr framleiðstu. Sauðfjárframleiðslan er ekki heldur eins varasöm, þó að um nokkra offramleiðslu verði að ræða, og mjólkurframleiðslan. Það er ekki eins hættulegt þó að sauðfjárframleiðslan fari eitthvað fram yfir notkun á Íslandi.

Varðandi hagsmuni sauðfjárbænda er hægt að taka fleiri atriði til athugunar, t.d. sláturkostnað, sem ég held að sé óhjákvæmilegt að fara að gefa meiri gaum að en við höfum gert. Við höfum gert miklar kröfur um aðstöðu til slátrunar sauðfjár og við viljum vandaða og hreina vöru, en mjög mikill kostnaður er slíku samfara. Það safnast hreint ótrúlegur kostnaður á slátrunina, t.d. dýralæknisskoðun, sem er orðin mjög dýr, o.s.frv., o.s.frv.

Verstu erfiðleikar bænda stafa þó kannske ekki af offramleiðslunni. Ég held að það brjálæðislega vaxtakerfi, sem við búum við, snerti enga heiftarlegar en bændur, og ég sé ekki hvernig mögulegt er fyrir allmarga af fátækari bændum eða skuldugri bændum að reka búskap með þessu vaxtakerfi, því að krónurnar velta hægt í búskapnum og það tekur tímann sinn að ávaxta fjármagn í landbúnaði.

Ég held að þetta frv. sé góð tilraun til að klóra í bakkann. Ég held að það sé nauðsynleg endurbót gallaðrar löggjafar. Ég styð þetta frv. og treysti því, að það verði samþ. óbreytt á Alþingi.