24.11.1980
Neðri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Stefán Valgeirsson beindi til mín fsp. varðandi orðalag í framsöguræðu minni, þar sem ég lét þess getið, að ákvörðun Framleiðsluráðs landbúnaðarins um að færa kjarnfóðurgjaldið í 33.3% hefði verið staðfest til bráðabirgða. Tillaga Framleiðsluráðs, sem staðfest var, var með því orðalagi að tillaga væri gerð um þetta gjald í þessu horfi og með þeim skömmtunarkvótatakmörkunum, sem þar eru, fyrst um sinn. E.t.v. hefði verið nákvæmara að orða þetta í framsöguræðu minni þannig að segja að þessi breyting hefði verið staðfest fyrst um sinn. Þannig liggur í því máli og ekki neitt annað liggur þar á bak við. Ég tel að það séu engin tengsl á milli þessara orða í framsöguræðu minni og þeirra orða sem ég viðhafði á aðalfundi Stéttarsambands bænda s.l. haust. Það, sem ég átti við þar, sem sumir hafa kannske tekið með öðrum hætti, var að ég óskaði eftir því að skilja framkvæmd á þeim leiðum, sem farnar yrðu í meðferð þessara mála, og láta skýra fyrir mér áður en reglur yrðu staðfestar. Það tel ég mér skylt og eðlilegt að taka fram.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar þær reglur sem nú eru viðhafðar við kjarnfóðurgjald og kjarnfóðurkvótakerfi sem í gangi er, en ljóst er að það er erfitt í framkvæmd og er vonandi að finnist greiðari leiðir í því en enn hefur verið hægt að koma auga á.

Ég vil svo segja að þessar umr. eru ekkert mjög langar, en þær hafa tekið þrjá fundi og ekki ástæða til þess að lengja þær mjög. Ég vil segja í sambandi við síðustu ræðu hv. þm. Steinþórs Gestssonar að á því tímabili sem hann vitnaði til í ræðu minni, tíu fyrstu mánuði síðasta verðlagsárs, varð 2.1% samdráttur í mjólkurframleiðslunni, ekki 2.1% aukning eins og hann taldi sig hafa heyrt eftir mér.

Ég vil einnig segja það varðandi þann árstíma sem skatturinn var lagður á, að ég taldi einmitt að það væri á heppilegum tíma. S.l. vetur var lítill heyforði til. Þá var fóður af svo skornum skammti í landinu eftir hið harða ár 1979 að það var ekkert um það að tefla að leggja kjarnfóðurgjald á og bændur þurftu að komast fram úr þeim vetri áður en farið væri að skattleggja kjarnfóður. En þegar vetri lauk og árgæskan s.l. vor og s.l. sumar tók við var ástandið með allt öðrum hætti og þannig að það var af þeim ástæðum og ýmsum fleiri, sem ég þarf ekki að endurtaka, nauðsynlegt að stíga þetta skref. Hvort það átti að vera 200% eða einhver önnur prósentutala, sem skatturinn var ákveðinn, má auðvitað deila um. Það lágu hins vegar tillögur fyrir um 200% sem ég féllst á, og jafnvel þó 200% gjald legðist á fóður var samt hagstætt að gefa kjarnfóður hámjólka kúm, og það getur hv. þm. Steinþór Gestsson reiknað út, miðað við það verð sem þá var í gildi. Sú heimild, sem var í lögum um 100% álagningu kjarnfóðurgjalds, var háð svo miklum takmörkunum í framkvæmd samkvæmt lögunum að það var varla talið framkvæmanlegt. Þess vegna var sú leið ófær að grípa til með skyndilegum hætti, eins og nauðsynlegt var að gera á þessari stundu.