24.11.1980
Neðri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

70. mál, tollskrá

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Mér er fullljóst að röksemdir fyrir þessu frv. stafa af manneskjulegum hvötum einum saman, og ekki eitt augnablik dreg ég í efa þær hvatir. Þær einar liggja hér að baki. Ég vil hins vegar beina því mjög til þeirrar n., sem fær þetta mál til umfjöllunar, að undanþágum eins og þeim, sem hér er verið að leggja til, fylgir mikil misnotkunarhætta. Þessa misnotkunarhættu skulum við ekki vanmeta.

Þetta er aðeins ábending til þeirrar n. sem fær málið til meðferðar. Siðað þjóðfélag reynir að búa svo vel að öryrkjum sem frekast er kostur. Engu að síður vitum við að í kjölfar þess getur siglt annað og verra fólk sem reynir að nota sér þau fríðindi sem verið er að leggja til. Þetta segi ég um leið og ég viðurkenni og veit að að baki flutningi hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur og annarra þeirra sem á þetta plagg hafa skrifað, býr góður vilji einn. Það er ekki við þau að sakast, ekki heldur við það fólk sem er svo óhamingjusamt að búa við örorku af einhverju tagi. En þessu fylgir mikil misnotkunarhætta. Þetta vil ég biðja hv. n., sem tekur málið til athugunar, að taka til greina.