27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

57. mál, takmörkun aðgangs erlendra herskipa og herflugvéla að landhelgi Íslands

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa stuðningi við meginefni þess máls sem hér er til umr.

Málið kemur væntanlega til hv. utanrmn., þar sem ég á sæti, og þar verður um það fjallað og skal ég þess vegna ekki eyða löngum tíma í að ræða það efnislega við fyrri hluta umr. Ég bendi aðeins á að gert er ráð fyrir að reglugerð verði þá fyrst gefin út þegar væntanlegur hafréttarsáttmáli hefur verið undirritaður. Ég er ekki viss um að svo lengi þurfi að bíða og kannske má huga að því að setja lög um þetta efni eða bæta frekari ákvæðum um það inn í þá löggjöf sem þegar er fyrir hendi. En allt kemur þetta sem sagt til skoðunar og aðalatriðið er að hér er þetta mál vakið upp og ekki fyrr en efni standa til og ég er flm. þakklátur fyrir að gera það. Við eigum báðir sæti í utanrmn. og munum þar ræða málið og án efa hafa samflot um afgreiðslu þess, hvert sem formið verður það sem hann leggur til eða þetta verður framkvæmt með einhverjum öðrum hætti og kannske eitthvað fyrr en vera mundi ef beðið yrði eftir endanlegum hafréttarsáttmála, sem vonandi sér þó dagsins ljós fyrr en síðar.

En umr. um þetta gefur mér tilefni til að minnast á að enn er talsvert ógert í landhelgismálum okkar, þótt gífurlegir sigrar hafi þar unnist, og á ég þá sérstaklega við hafsbotnsréttindin suður af landinu. Það mál ætla ég ekki að ræða ítarlega nú, en aðeins greina frá því, að ég hef ítrekað á utanríkismálanefndarfundum tekið það mál upp og óskað aðgerða í því efni sem þegar hafa nokkrar orðið. En það er enginn efi á því að við eigum þar tilkall til réttinda ekki síður en Færeyingar, Írar og Bretar, sem allir gera tilkall til hafsbotnsins á þessu svæði, og þar þarf mjög vel að gæta íslenskra réttinda.

Það má aðeins geta þess hér, að ef t.d. miðlína væri látin ráða skiptingu milli Íslands og Færeyja mundi í Íslands hlut falla allur Hatton-bankinn og eiginlega langleiðina yfir að Rockall-svæðinu. Það er þegar búið að samþykkja hér á hinu háa Alþingi samstarf við Færeyinga í þessu efni og nokkrir fundir hafa verið með þeim og þegar munu hafa verið sendar svokallaðar „nótur“ til Breta og Íra um þetta mál. Málið er sem sagt á hreyfingu, en það þarf, held ég, að hafa enn þá hraðari gang á þessum málum og reyna að fá einhverja niðurstöðu, a.m.k. að því er varðar samstarfið við Færeyinga, fyrir fund hafréttarráðstefnunnar, sem hefst snemma á næsta ári þannig að þetta mál kemur væntanlega til umr. á Alþ. áður en langt líður. — En ég taldi eðlilegt að vekja á þessu athygli nú, því að öll eru þessi mál nátengd.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér um varnarliðið eða friðlýsingu, en gjarnan má á það benda að Norðurlandaþjóðir eru nú ýmist búnar að helga sér eða eru um það bil að helga sér bæði hafsbotn og yfirráðarétt yfir miklum hafsvæðum, sem nánast loka okkar hafsvæðum. Það er örlítið sund að vísu á milli Jan-Mayen-lögsögu og Noregs, en mest af þessu hafsvæði er þegar undir norrænum yfirráðum. Vissulega hljóta viðhorfin að breytast eftir því sem samvinna þessara ríkja eykst einmitt í hafréttarmálum og margrætt er að við eigum að hafa sem nánasta samvinnu við Færeyinga og Grænlendinga til þess að tryggja ekki bara fiskveiðar, heldur öll önnur réttindi á þessu hafsvæði, og þess vegna alveg sjálfsagt að við ræðum öfgalaust um allar hugmyndir, þ. á m. um það, hve langt sé unnt að ganga í friðlýsingu. Það er kannske ekki tímabært að gera það einmitt núna, en það mætti segja mér að síðar í vetur yrði þetta mál- öll þessi mál — í brennidepli, og við eigum að sjálfsögðu að leitast við að ná sem víðtækastri samstöðu.