27.11.1980
Sameinað þing: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

132. mál, bætt nýting sjávarafla

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Hér er hreyft stóru máli. Mér hefði fundist að þetta mál hefði þurft að vera hér svolítið lengur á borðum okkar svo að við hefðum verið betur búin undir að ræða það. Og vitaskuld hefði verið æskilegt að hæstv. sjútvrh. hefði verið hér og við hefðum heyrt skoðun hans á þessu mikilsverða máli. Ég hef frétt að ástæðan til þess, að málið er tekið á dagskrá nú sé sú, að 1. flm. er að hverfa héðan af þingi. Það er því eðlilegt að það komi til umræðu nú.

Ég vil ekki taka undir það að taka þennan eina þátt þessara mála undan til umræðu, gæði fiskafla og gæði framleiðslu. Ég hefði talið að þessi till. hefði þurft að vera miklu víðtækari og að þarna hefði líka verið tekið til athugunar hvernig bæta mætti þann afla sem að landi berst. Ég vil ekki gera lítið úr því sem gera þarf í sambandi við verkunina sjálfa. Eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Valdimar Indriðason, benti á eru ýmsir þættir þar sem þarf að laga. En ég vil líka benda á það, að í sambandi við aflann, sem kemur að landi, eru margir þættir sem nauðsynlegt er að taka til alvarlegrar athugunar og gera betrumbætur á. Ég hefði talið eðlilegra að þessi till. hefði náð yfir það einnig.

Það er kannske ekki rétt að vera að rifja upp það sem frsm. sagði, að það væri viðburður að skemmdur fiskur kæmi að landi. Ég tel að það sé allt of algengt að slíkt eigi sér stað, að skemmdur fiskur berist á land, bæði frá togurum og bátum. Við þurfum ekki annað en hugsa aðeins til síðasta sumars. Við vitum að rétt fyrir lokunardagana þá átti það sér stað, að mjög mikill togarafiskur barst að landi og sumir togarafarmar voru mjög skemmdir. Mér er t.d. kunnugt um einn togara sem þá kom með afla að landi sem ekki hafði tekist að slægja fyrr en rétt áður en hann kom í heimahöfn. Það þarf ekkert að segja manni að við slíkar aðstæður sé verið að koma með úrvalshráefni að landi. Þarna eru ýmis vandamál sem þarf að skoða. Það er ekki hægt að sakfella einn eða neinn í þessu efni, en ég held að þetta séu atriði sem eigi ekki að breiða yfir, heldur þurfi að athuga.

Fyrir nokkrum dögum var sýnd mynd í sjónvarpi um línuveiðar. Það er viðurkennt, að línufiskur sé einhver allra besti fiskur sem að landi berst. Ég varð því aldeilis hissa að sjá það sem sjónvarpsmyndavélarnar mynduðu um borð. Það var dregið og dregið, en það var ekki snert á því að blóðga fiskinn. Það var komin full stía af óblóðguðum fiski. Við vitum að nákvæmlega þetta sama gerist á meginhluta togaraflotans. Það tekst ekki að sinna þessum sjálfsagða þætti, að blóðga fiskinn áður en gengið er til slægingar, og vegna þess er verulegur hluti fisksins skemmdur. Ég er ekki að dæma einn eða neinn fyrir þetta, en það eru þarna ákveðnir þættir sem þarf að leita lagfæringar á.

Hitt er rétt, og ég get að vissu leyti tekið undir það, að skipulagning á löndun sé þannig að vissar fiskvinnslustöðvar taki allt of mikinn fisk til sín og þar eigi sér stað skemmdir í vinnslu. Og á móti því verður ekki borið, að það sé verið að vinna allt að því átta daga gamlan fisk. Maður hefur heyrt að þar sem einn togari er t.d. verði fiskurinn varla nokkurn tíma yngri vegna þess að það er reynt að láta vinnuna ná saman, fiskurinn verði ekki búinn fyrr en næsti farmur togarans kemur og sjaldan er styttri tími en átta dagar á milli landana. Vitaskuld er sú skipulagning allt annað en ákjósanleg.

Það hefur hvarflað að mörgum, að sú þróun, sem orðið hefur í freðfiskssölu á Bandaríkjamarkaði, sú sölutregða eða þau þyngsli, sem þar hafa átt sér stað fyrri hluta ársins í ár, hafi kannske m.a. verið því að kenna, að við höfum ekki verið að bjóða þar eins góða vöru og við höfum gert undanfarin ár, og þetta þurfi að íhuga. Þetta hefur einnig verið nefnt af ráðamönnum, jafnvel ráðherrum, að þarna sé þörf á athugun.

Ég lýsi stuðningi mínum við þessa till., en mér finnst hún ná of skammt, það séu fleiri þættir sem þurfi að skoða, — ef eigi að rannsaka þá hlið málsins sem að vinnslunni snýr, þurfi jöfnum höndum að rannsaka meðferð fisksins á veiðitíma eða meðan hann er í skipunum. Ég held að það sé ekki mikið hægt að gera upp á milli netafisks og togarafisks varðandi gæði. Ef hugað er vel að netaveiðum skila netin mjög góðum fiski, en þar kemur aftur það til, að bræla getur spillt aflanum. Ég tel samt að það hafi oft og tíðum verið gert of mikið úr því, hvað netafiskur sé lélegt hráefni, og ég held að með ákveðinni stjórnun sé hægt að taka þar í taumana og fá miklu betra hráefni en hingað til hafa gengið sögur af.

Ég hef t.d. heyrt að sumir netabátar hagi sér þannig að vera jafnvel með allt að tvo veiðarfæraganga í sjó. Slíkt er náttúrlega algerlega vítavert og væri rannsóknarvert. Könnun á þess háttar atvikum þyrfti einmitt að falla inn í tillögu eins og þessa, því að þetta þarf að stöðva. Á sama máta tel ég að þurfi að koma í veg fyrir að togarar leyfi sér, þegar allt að því er komið fullfermi — og það á sér kannske stað fyrst og fremst þegar keppni er um að ná síðustu fiskunum í land fyrir lokunardaga-þá leyfi þeir sér að bæta við allgóðum slatta, sem stundum getur orðið í bestu togun 50–60 tonn. Það þarf að koma í veg fyrir að slíkt eigi sér stað, að verið sé með vafasömum aðferðum að skemma mjög mikið af hráefni sem í hendur þeirra berst.

Ég held að þetta sé allt samtvinnað mál og æskilegt væri að í þeirri nefnd, sem þetta fær til meðferðar, yrði kannað hvort ekki væri hægt að breikka grunninn undir þessari tillögu þannig að fiskverkunin og fiskveiðarnar í heild væru kannaðar og til þess væri kjörin nefnd sem rannsakaði betri meðferð í fiskvinnslu og fiskveiðum.