22.10.1980
Efri deild: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að þrátta við hv. þm. um fjárlagatölur, enda ekki staður eða stund til þess. Það er gerð nægilega skýr grein fyrir þessu í athugasemdum með fjárlagafrv. fyrir árið 1981. Setningin, sem hv. þm. las upp, er út af fyrir sig alveg rétt, en hún segir ekki alla söguna. Það er töluverður munur á því, hver er áætlaður álagður skattur og hver er áætlaður innheimtur skattur. Þetta er það sem skýrir þann mismun sem er á málflutningi mínum og hans málflutningi.

En hvað snertir eignarskattinn er það alveg rétt, að hann hefur orðið allnokkru hærri en áætlað var í fjárlögum. Hitt kemur svo á móti, að verðlagsþróun á þessu ári hefur orðið allmiklu hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 1980. Það kemur að vísu ekki að sök varðandi óbeinu skattana, sem eru liðlega 80% af tekjum ríkisins, vegna þess að óbeinir skattar hækka venjulega nokkurn veginn í hlutfalli við verðlagsþróunina og heildarveltu fjármuna í þjóðfélaginu. Því hefur ríkið haldið nokkurn veginn sínu á þeim vígstöðvum. En það kom sér hins vegar vel að eignarskatturinn reyndist heldur hærri en áætlað var, vegna þess að það þurfti bersýnilega að brúa þarna ákveðið bil sem stafar af því að verðlagsþróunin er örari, hækkanir meiri en fjárlögin gerðu ráð fyrir. (Gripið fram í: Er ráðh. að tala um skattborgarana?) Ég er ósköp einfaldlega að tala um að þetta dæmi, sem hv. þm. er að tala um, kemur allt nokkurn veginn út á sléttu í fullu samræmi við það sem fjárlög gerðu ráð fyrir.

En varðandi svo hitt atriðið, að ég sem fjmrh. eigi að taka mig til og ákveða að enginn skattur verði lagður á börn vegna þess að það sé svo mikið til í kassanum, þá er ég ansi hræddur um að einhver mundi vefengja heimild fjmrh. til að gera slíkt. Alþingi hefur ákveðið hvernig skuli lagðir á skattar á þessu ári og fjmrh. er alls ekki heimilt að víkja frá þeirri ákvörðun Alþingis. Ég er viss um að ég mundi taka mér ærið miklu meira vald í hendur en ég hef ef ég færi að breyta út af ákvörðunum Alþingis sem hv. 3. þm. Norðurl. e., Lárus Jónsson, hefur margoft tekið þátt í að taka. Ætli hv. þm. Lárus Jónsson beri ekki drjúgum meiri ábyrgð á skattlagningu á börn en þó hv. fyrirspyrjandi, að því leyti að hann sat hér á þingi vorið 1978 þegar skattalögin voru afgreidd og var helsti ráðgjafi þáv. fjmrh., sem átti upptökin að þessari reglu. — Eins og ég segi er mesti misskilningur að fjmrh. geti ákveðið, kannske upp á eindæmi, að hætta við að framkvæma það sem Alþ. hefur ákveðið. Fjmrh. leggja raunar ekki skatta á þjóðina, heldur eru skattar lagðir á þjóðina af skattstofum og ríkisskattstjóra í samræmi við lög, en undir eftirliti fjmrh., sem er nokkuð annað mál, og ákvörðunin er að sjálfsögðu tekin af Alþ. hverju sinni.