02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

342. mál, kaupmáttur tímakaups verkamanna

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég biðst forláts á því, að ég hef valið skakkan ráðherra til að svara fsp. minni. En ástæðan fyrir því, að ég taldi að félmrh. væri réttur aðili til að svara þessu, er sú, að launa- og kjaramál eru að sjálfsögðu mjög nátengd ráðherrasviði hans.

Ég þakka hæstv. ráðh. svörin, en í þeim kom mjög glöggt fram að áður en kjarasamningar voru gerðir nú á dögunum var kaupmáttur kauptaxta verkamanna orðinn nánast hliðstæður því, sem hann var fyrir „sólstöðusamninga,“ og hann var kominn um 10% niður fyrir það kaupmáttarstig sem samið var um í „sólstöðusamningunum.“ Það hafði gerst á þessu tímabili, eins og fram kom í svari ráðh. þegar hann svaraði hver hefði orðið hækkun framfærsluvísitölu, að það var jafngott að eiga 28 íslenska aura í „sólstöðusamningunum“ 1977 og er að eiga eina krónu núna. Þannig hefur verðbólgan geisað áfram.

Hæstv. ráðh. sagði að tekist hefði að hífa kaupmáttinn upp í kjarasamningunum í haust, en eins og menn vita og birt hefur verið opinberlega í blöðum gerir Þjóðhagsstofnun ráð fyrir að kaupmátturinn rýrni á næsta ári eigi minna en 5–6%.

Ég vil taka undir það með hæstv. ráðh. að það er mergur málsins núna að varðveita kaupmátt launa. Það þýðir náttúrlega að gera verður ráðstafanir í efnahagsmálum þannig að hægt sé að koma í veg fyrir þá óðaverðbólgu sem hér geisar. En hæstv. ráðh. lét ekki svo lítið að upplýsa okkur og það hefur ekki verið hægt að fá upplýsingar um það hér á hinu háa Alþingi, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að gera þetta. Niðurtalningin er enn á stefnuskrá hennar og það eina sem við fáum að vita um ráðstafanir hennar og stefnu í efnahagsmálum, en hún hefur gefist eins og raun ber vitni og Þjóðhagsstofnun spáir hvorki meira né minna en 70% verðbólgu á næsta ári frá upphafi árs til ársloka að óbreyttri stefnu í efnahagsmálum.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. En það eru mjög athyglisverðar upplýsingar sem hér hafa komið fram. Meginefni þeirra er að það hefur orðið veruleg kjararýrnun á þessu tímabili og nú eru slagorðin „kosningar eru kjarabarátta“ og „samningana í gildi“ dauð.