02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

342. mál, kaupmáttur tímakaups verkamanna

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það eru athyglisverðar umræður sem verða hér vegna fsp. frá hv. fyrirspyrjanda. Það kom fram í ræðu hæstv. félmrh., að árið 1977 hefðu viðskiptakjörin verið mjög góð, síðar versnuðu þau, en þrátt fyrir það, þegar sú ríkisstj. sem þá starfaði, ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, reyndi að bregðast við, þá var búið til slagorðið „kosningar eru kjarabarátta.“ Nú átti að verja launin hvað sem tautaði og raulaði. Þeir sömu aðilar og tóku síðan við völdum eftir kosningarnar 1978, meðal annarra hæstv. félmrh., settu síðan í lög 1979 að taka skyldi tillit til viðskiptakjara og nokkurra annarra atriða sem hæstv. ráðh. lýsti mjög vel og hann er stuðningsmaður við.

Nú hafa nýlega farið fram kjarasamningar og það er öllum ljóst að í kjarasamningum er aðeins því skipt sem til skiptanna er. Verði farið fram á meira í slíkum samningum gerist það eingöngu með þeim hætti að verðbólgan er látin ná endum saman. Þjóðhagsstofnun, sú stofnun sem hæstv. ráðh. minntist á í máli sínu, hefur reiknað út og sent frá sér yfirlýsingu um að verðlag komi til með að hækka um 70% frá áramótum núna til næstu áramóta. Á sama tíma stendur hæstv. félmrh. að því hér á hv. Alþ. að leggja fram fjárlög og í verðlagsforsendum þeirra fjárlaga segir að verðbólgan verði 42%.

Nú spyr ég hæstv. félmrh.: Væri ekki nær að hann kæmi hér og segði við okkur þm. og þjóðina, hvernig hann ætlar að koma þessu heim og saman og talaði á því mannamáli sem menn skilja hér í landinu? Það er sannarlega kominn tími til þess, að hann horfi fram á veginn, en horfi ekki alltaf um öxl.

Ég vil benda á að það hefur líklega aldrei verið fundið upp betra slagorð en „kosningar eru kjarabarátta“ vegna þess að kjör fólksins í landinu eru mörkuð með stjórnarstefnu. Hæstv. ríkisstj., sem hér situr nú, hefur með aðgerðaleysi í stóriðjumálum orðið til þess að kjörin eru rýrð. Hún hefur með aðgerðum sínum í togarakaupamálum orðið til þess að kjörin rýrna og versna. Svo kemur hæstv. ráðh. hér upp í ræðustól og talar um eitthvað sem hefur gerst einhvern tíma og einhvern tíma. Hvernig væri að hann kæmi sér að efninu?