02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

97. mál, varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er ljóst, að ákvörðunin hefur ekki verið tekin enn þá um þennan varaflugvöll, en það liggur í augum uppi að það verður að taka hana fyrr en síðar. Menn hafa hér rakið þær röksemdir sem nauðsynlegt er að hafa í huga. Þó hefur ein gleymst. Hún er sú, að Sauðárkróksflugvöllur er nær Keflavíkurflugvelli en Húsavikurflugvöllur, þannig að það er talsvert kostnaðarminna að fljúga þangað til lendingar en að þurfa alla leið til Húsavíkur eða til Austurlands. Ég get ekki séð — hvort sem menn velta þessu lengur eða skemur fyrir sér- að niðurstaðan geti orðið önnur en er í bréfi þeirrar nefndar sem vitnað hefur verið til, nefndar Jóhannesar Snorrasonar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með tilliti til ofanritaðs er það sameiginleg skoðun nefndarinnar, að Sauðárkrókur sé hagstæðasta valið um varaflugvöll í millilandaflugi og mæti þeim kröfum sem gera verði til slíks flugvallar.“

Það er annað veðurkerfi, eins og menn vita, þarna fyrir norðan heldur en hér fyrir sunnan, og Sauðárkrókur kemur ákaflega vel út í því sambandi. Í samanburði nefndarinnar kemur það líka fram, að norðaustanátt er lakari á Húsavík heldur en á Sauðárkróki.