02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

97. mál, varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að mér þykir ómaklega vegið að fyrirsvarsmönnum flugmála. Ég held að þeir hafi unnið gott verk á undanförnum árum, og þeim hefur orðið mikið úr þeim peningum sem til ráðstöfunar hafa verið. Það er náttúrlega ekki hægt að ætlast til þess af þeim, að þeir skipti um hraun í Aðaldalnum, það er svo mikið verk. Þess vegna verður náttúrlega eitthvað meyrara fyrir bragðið undir þeim flugvelli heldur en á Sauðárkróki. Flugmálastjórn hefur tæknileg skilyrði til að vita hvað hún er að gera.

Ég held að það sé alveg tvímælalaust, að það er nauðsyn á varaflugvelli. Fyrrverandi flugráðsmaður sagði hér áðan að í 98% tilfella væri þetta í lagi. En ef eitt eða tvö prósent tilfella skortir á, þá er ekki hægt að segja að um fullt öryggi sé að ræða. Þegar flugvél leggur af stað frá Ameríku verður hún að hafa eldsneytisbirgðir ekki einasta til Keflavíkur, heldur til næsta varaflugvallar, ef Keflavíkurflugvöllur skyldi lokast áður en hún nái þar lendingu.

Ég held að það liggi ljóst fyrir, að því fé, sem varið hefur verið til hins ágæta flugvallar á Sauðárkróki, hefur verið vel varið. Einungis vantar herslumuninn til að fullgera hann, og það er langskynsamlegasta ráðið.