08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

348. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Mig langar að koma á framfæri nokkrum upplýsingum varðandi það mál sem hér er á dagskrá eða alla vega upplýsingum sem snerta það mál náið og styðja að sjálfsögðu þann málstað sem komið hefur fram hjá hv. fyrirspyrjanda.

Eins og allir þm. vita er lagt orkujöfnunargjald á landsins lýð. Í ár er ráðgert að orkujöfnunargjald skili 130 millj. kr. í ríkissjóð. Síðan er það notað til þess að standa undir greiðslum til orkumála. Á næsta ári er gert ráð fyrir að um það bil 190 millj. komi til innheimtu af sama gjaldi. Ef litið er á útgjöld til orkumála, eins og beinar fjárveitingar til Orkusjóðs að frádregnu verðjöfnunargjaldi, þá eru það 47.5 mill j. sem fara í þann þátt á yfirstandandi ári, og gert ráð fyrir sömu upphæð í fjárlögum næsta árs. Krafla hefur horfið úr þessu dæmi, en 36.5 millj. runnið til fjármagnskostnaðar vegna Kröflu. Félagslegar framkvæmdir RARIK, en það er afborgun af lánum vegna rekstrartaps RARIK sem ríkissjóður hefur tekið á sig, voru á yfirstandandi ári um 10 millj., verða 5 millj. á næsta ári. Olíustyrkir, sem hér er verið að ræða um, eru 30 millj. á þessu ári, þrátt fyrir þær 50 sem áttu að renna til verkefnisins, og áfram er gert ráð fyrir 30 á næsta ári. Ýmislegt annað, sem snertir orkumálin, er gert ráð fyrir að verði 6.3 millj. á næsta ári, en voru 2 millj. 650 þús. á yfirstandandi ári. Niðurstaðan af þessu reikningsdæmi og þessum samanburði þýðir það, að af orkujöfnunargjaldinu renna á næsta ári væntanlega um 100 millj. kr. beint í ríkissjóð. Þjóðin er skattlögð til þess að jafna orkuverð, Skatturinn er tekinn í ríkissjóð og notaður til allt, allt annarra hluta. Þetta er það, sem hefur gerst í þessu máli. Þetta er það sem er óyggjandi. Og þetta er það sem hlýtur að standa eftir að þessum umr. loknum, þar sem bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar hafa beint spjótum sínum að hæstv. ríkisstj.