08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Pálmi lónsson):

Herra forseti. Ég ítreka það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að ég mun ekki fara út í almennar efnahagsumræður við þessar umr. utan dagskrár. Ég tel ekki tilefni til þess, enda þótt út af fyrir sig sé ærin ástæða til að ræða efnahagsmál á Alþingi. Það mun verða gert í annan tíma.

Hér hefur hv. 1. þm. Vestf. til að mynda sagt að ég hafi svarað af nokkru steigurlæti eða jafnvel hroka þegar ég svaraði fyrri fsp. hv. 1. þm. Reykv., sem var um hverjar væru fyrirætlanir ríkisstj. er snerta þinghaldið fyrir jól eða jólaleyfi. Ég sagði að ákvarðanir hefðu ekki verið teknar, en ríkisstj. teldi æskilegt að jólaleyfi gæti hafist fyrir helgina 19.–20. des., en ella að loknum fundum á mánudag 21. des. Er það steigurlæti eða ber það vott um hroka að láta það í ljós, sem ríkisstj. telur æskilegt í þessum efnum, og jafnframt að láta það koma fram, að hún hefur ekki tekið neinar ákvarðanir? Vitaskuld á að taka slíkar ákvarðanir í samráði við forseta Alþingis og eðlilegt að það sé gert í samráði við fulltrúa þingflokkanna. Það sagði ég einnig í minni fyrri ræðu.

Hér var sagt af sama ræðumanni að ráðherrar væru erlendis a. m. k. þrír til sjö í senn. Það er rétt að þrír ráðh. eru erlendis nú. Ég veit ekki hvort þessi hv. þm. getur nefnt dæmi þess, að sjö ráðh. úr þessari ríkisstj. hafi verið erlendis í senn. Það væri æskilegt að hann nefndi þá dæmi um það þó seinna verði. Hitt er a. m. k. ljóst, að það er alls ekki regla að einhver ráðh. sé erlendis, enda þótt það hafi gilt um allar ríkisstjórnir og einnig þessa að ráðh. þurfi ýmsum erindum að sinna erlendis og verði ekki undan því vikist.

Ég ætla ekki að ræða sérstaklega ræðu Ólafs G. Einarssonar. Væri ekki unnt að gera það án þess að ræða efnahagsmál almennt. En hér hefur verið nokkuð að því vikið, eins og raunar kom fram t. a. m. hjá síðasta ræðumanni, hv. fyrirspyrjanda, að Alþingi og stjórnarandstaðan mundu ekki þola það að verða send heim ef ætti að gera einhverjar ráðstafanir í efnahagsmálum á þeim tíma sem jólaleyfi stendur. Er þá vitnað til þeirra aðgerða sem ríkisstj. greip til um áramót í fyrra. Það hefur raunar verið sagt að nú standi ríkisstj. í sömu sporum hvað snertir útlit í efnahagsmálum. Það sagði hv. þm. Sighvatur Björgvinsson. Ég skal ekki fara út í það mörgum orðum, en ég tel, að verulegur árangar hafi orðið í baráttu við verðbólguna, og skal ekki útlista það nánar. Það er öllum kunnugt.

En hvað snertir tillögur um efnahagsmál, hvort þær skuli lagðar fyrir Alþingi eða afgreiddar áður en þær koma til kasta Alþingis, eins og hér var nefnt, vil ég aðeins segja að allar tillögur ríkisstj., sem varða löggjafaratriði, eru vitaskuld lagðar fyrir Alþingi. Ég er ekki á nokkurn hátt að gefa í skyn að núv. ríkisstj. muni grípa til þess að setja brbl. í þinghléi. En það liggur jafnframt ljóst fyrir, að hvorki þessi ríkisstj. né nokkur önnur mun afsala sér rétti til slíkra ákvarðana ef til þess liggja nauðsynlegar orsakir. Ég minni á að um áramótin síðustu, þegar sett voru brbl. og kynntar efnahagsráðstafanir, var það gert í tengslum við myntbreytingu. Það var gert á þeim tíma vegna þess að nauðsynlegt var að tengja það myntbreytingunni eins nákvæmlega og mögulegt var. Ég tel líka að það hafi verið hyggilegt og ég tel að þær efnahagsráðstafanir hafi skilað verulegum árangri. Án þess að fara frekar út í efnahagsmál og þann árangur, sem af þeim efnahagsráðstöfunum spratt minni ég aðeins á að um þetta leyti á síðasta ári var spáð 70–80% verðbólgu á yfirstandandi ári. Sumir, jafnvel einstakir þm., tóku munninn nokkru fyllri og töldu útlit fyrir allt að 100% verðbólgu. En verðbólgan verður í kringum 40%. Nú er spáð 50–55% verðbólgu. Það er þó verulegur munur á því útliti, sem nú er hvað þetta snertir, og því sem þá var. Við stöndum að því leyti alls ekki í sömu sporum.

Ég ætla ekki að lengja þessa ræðu. Ég vil aðeins ítreka það, að ríkisstj. mun kynna Alþingi og þjóðinni tillögur sínar og aðgerðir í efnahagsmálum þegar þær liggja fyrir. Ég heyrði að hv. þm. Ólafur G. Einarsson sneri út úr þessu orðalagi eins og fleiru í minni ræðu og þarf ég ekki að svara því. En engin ríkisstj. mun kynna efnahagsúrræði í fyrirspurnartíma utan dagskrár á Alþingi. Það mundi hún gera við önnur tækifæri. Og svo er einnig um þessa ríkisstj.