20.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

13. mál, orlofsbúðir fyrir almenning

Flm.(Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins færa þeim þm., sem hér hafa tekið til máls, þakkir fyrir þann stuðning sem þeir hafa lýst við þetta mál. Það er ánægjuefni að við skulum vera, menn úr þremur flokkum sem hér hafa tekið til máls, sammála um þetta atriði, þó svo að við séum ekki sammála um ýmislegt annað í þeim málflutningi og þeirri stefnu sem minn flokkur hefur haft uppi í þessu máli.

Varðandi upplýsingar um ríkisjarðir eða jarðeignir í eigu ríkisins og tekjur af þeim vil ég aðeins taka það fram, að ég held að það séu tvö ár eða þrjú — sennilega þrjú ár síðan þm. lagði fram fsp. um þessi mál hér á hinu háa Alþingi. Sá þm. var Gunnlaugur Stefánsson sem þá sat á þingi fyrir Alþfl. Hann fékk aldrei svar við þessari fsp. Ég var að vísu ekki ráðh. mjög lengi, aðeins í fimm mánuði. Engu að síður óskaði ég á þeim tíma eftir að fá upplýst sem fjmrh. hvaða jarðeignir hér væri um að tefla og hvaða leigugjöld væru greidd fyrir þær jarðeignir, sem leigur væru greiddar af, og hverjir hefðu þær á leigu. Mér auðnaðist ekki heldur að fá svar við þessari spurningu minni. Hins vegar er mér kunnugt um að nú stendur yfir af hálfu landbrn. samantekt á skrá yfir hverjar þessar jarðeignir eru, hverjir hafi þær á leigu og hvað greitt sé fyrir leiguna. Ég tel sjálfsagt að fjmrn. fái upplýsingar um þetta eins og aðrar ríkiseignir og ríkistekjur. Þess vegna hef ég beint þessari fsp. minni til hæstv. fjmrh. og vonast satt að segja til þess, að unnt verði að fá einhver svör við henni á þessum vetri, sem mér tókst ekki fyrir tveimur árum og öðrum þm. Alþfl. tókst ekki heldur fyrir þremur árum.

Það er auðvitað mál sem þarf að taka til sérstakrar athugunar, að það er ekki æskilegt að jarðeignir og fasteignir ríkissjóðs skuli vera í umsjá fjölmargra ráðuneyta og stofnana ríkisins þannig að enginn aðili í ríkiskerfinu viti raunverulega hverjar þessar fasteignir og jarðeignir séu, hverjir hafi þær á leigu og hvaða leigugjöld séu greidd fyrir. Þarna á ég ekki aðeins við, síður en svo, bújarðir sem eru leigðar bændum. Þarna á ég einnig við ýmis hlunnindi, sem leigð eru einstaklingum, og ýmsar húseignir ríkissjóðs sem leigðar eru hinum og þessum án þess að nokkrar samræmdar reglur séu settar um afgjöld fyrir þessar eignir.

Þó svo að mér hafi ekki auðnast — á þeim skamma tíma sem ég hafði aðstöðu til að fylgja slíkri spurningu eftir — að fá upplýst hverjar væru jarðeignir ríkissjóðs, hverjir hefðu þær á leigu og hvaða leigugjöld þeir greiddu, þá vannst mér þó tími til þess að hafa nokkuð sannar fregnir af því, að varðandi þær jarðeignir og hlunnindi, sem um væri að tala, væri leigu e. t. v. ekki sem best fyrir komið. En ég vil taka sérstaklega fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að þar á ég ekki við þær jarðir ríkissjóðs og stofnana ríkisins og hlunnindi sem hafa verið leigð bændum til búskapar.