09.12.1981
Efri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

134. mál, Flutningsráð ríkisstofnana

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það má margt gott segja um þá hugsun sem býr að baki þessu frv. En ég ætla ekki að fara mjög út í almenna greinargerð um það efni. Þetta var kannað á sínum tíma og sett upp sérstök nefnd, eins og sjálfsagt kemur fram í grg. frv., til að kanna hvort ekki væri rétt að vinna að flutningi ríkisstofnana. En ég vil segja það um þetta frv. og form þess, að mér hrýs svolítið hugur við að fara að setja upp þetta sérstaka flutningsráð og held að það gæti orðið dálítið óeðlilegt bákn í þessu sambandi og með þeim öngum sem því er ætlað að hafa. Þess vegna held ég að það þurfi að leita annarra leiða og reyna að gera þetta með einfaldari hætti. Þá er að vísu sú leið til, sem hér hefur verið bent á, að setja þetta undir Framkvæmdastofnun ríkisins. Ekki get ég vel fellt mig við þá hugsun. Ég hygg að hún hafi sitthvað á sinni könnu og muni hafa um sinn. (Gripið fram í.) Ja, vafalaust á hún langt hf fyrir höndum þó að nafni hennar mætti breyta að ósekju. Ég held fyrir mitt leyti að það gæti verið einfaldast að skipa þessum málum undir forsrn. og fara ekki að setja upp neinn sérstakan aðila til þess að hafa hönd í bagga með þessum málum. En það kemur til athugunar.

Ég átti ákaflega lítið erindi hér í pontuna. Ég ætla þó áður en ég kem að því erindi að víkja að því sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson vék að, flutningi síldarverksmiðjanna eða starfsstöðva þeirra, ekki verksmiðjanna sjálfra, frá Siglufirði. Ég hef alltaf verið andvígur öllum flutningi þaðan og ég er tilbúinn að styðja að því, að haldið verði fast við lög, ef slíkt kemur til kasta ríkisstj. Ég hef ekki orðið var við að þetta mál væri þar til umfjöllunar. En einfaldast væri sjálfsagt, þar sem hér er um skýr lagaákvæði að tefla, að þm. kjördæmisins skrifuðu viðkomandi ráðh. og bentu honum á þetta lagaákvæði. Þá ætti ekki að vera nein fyrirstaða á því að farið verði eftir lögum.

En það, sem ég vildi leyfa mér að benda hv. allshn. á, sem fær þetta mál til meðferðar, er hvort hún mundi ekki telja að það væri rétt að orða 6. gr. svo:

„Flutningsráði er heimilt að ráða starfsfólk til þess að annast tiltekin verkefni.“

Það ber tvennt til, að mér finnst þetta orð, starfskraftar, ekki sérstaklega fallegt og annað það, að mér er ekki alveg ljós greinarmunurinn á sérstökum starfskröftum og almennum starfskröftum. Þetta var nú erindi mitt, að benda hv. nefnd á það að rétt væri að hagræða þessu orðalagi.