10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að þessari till. til þál. á þskj. 9, um aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni, verði vísað til utanrmn. og þar fái hún venjulega meðferð og komi þá til baka með þeim orðabreytingum sem þarf að gera til þess að þingheimur geti sameinast um till., ef talið er rétt af meiri hlutanum að taka þátt í Alþjóðaorkustofnuninni. Að sjálfsögðu verða að koma inn í till. þau skilyrði sem kröfuhörðustu þm. gera til þess að Ísland gerist þarna aðili.

Þessar umr. hafa gengið vítt og breitt um stjórnmál almennt, en ég ætla að reyna að halda mig að efninu og skal koma að þeim hugmyndum og þeirri tillögu sem ég lagði fram á sínum tíma í utanrmn. Ég vil taka það strax fram, að þar fóru fram umr. um tillöguna og enginn var á móti þeirri málsmeðferð sem tillagan fékk, þó ekki hafi hugmyndin náð fram að ganga. Það fór aldrei fram nein atkvgr. í utanrmn., enda ekki til þess ætlast. Þó að menn lýstu afstöðu sinni til tillögunnar var þar ekki atkvgr.

Ég sé hér, með leyfi forseta, að Ísland hefur greitt atkv. með þeirri tillögu að stofna til IEG. Hér segir: „Á árunum næst á undan“ — ég gríp þarna inn í grg. — „hafði athygli ríkjanna innan OECD í vaxandi mæli beinst að hinu ótrygga ástandi í olíuviðskiptum í veröldinni. Árið 1971 var í ráði OECD samþykkt tillaga þar sem aðildarríki stofnunarinnar voru hvött til að ná sem fyrst því marki að eiga 90 daga olíubirgðir. Ísland greiddi atkv. með þeirri tillögu. Árið 1972 samþykkti ráð OECD ákvörðun um neyðaráætlanir og ráðstafanir og úthlutun olíubirgða á neyðartíma á svæði stofnunarinnar í Evrópu. Ísland greiddi einnig atkv. með þessari tillögu.“

Síðan heldur áfram: „Þegar á reyndi kom hins vegar í ljós að þetta viðbúnaðarkerfi OECD-ríkjanna dugði ekki.“ Ég vil halda því fram, að hvort sem um OECD eða alþjóðastofnanir er að ræða koma þær ráðstafanir, sem ráð eða nefndir á vegum þessara stofnana gera, ekki til með að duga nokkurn skapaðan hlut ef ófriður brýst út.

En það segir líka hér, með leyfi forseta, og gríp ég þá inn í grg.: „Grundvöllur Alþjóðaorkustofnunarinnar er Samningur um alþjóðaorkuáætlun sem greinist í tíu meginþætti: 1. Neyðarbirgðir olíu. 2. Takmörkun á eftirspurn eftir olíu á neyðartímum. 3. Úthlutun á olíu á neyðartímum. 4. Framkvæmd neyðarráðstafana. 5. Upplýsingamiðlun um alþjóðlega olíumarkaðinn. 6. Aðstaða til samráðs við olíufélög. 7. Langtímasamstarf í orkumálum. 8. Tengsl við olíuframleiðslu- og notkunarlönd. 9. Ákvæði um stjórnun og almenn atriði. 10. Lokaákvæði.

Viðauki: Neyðarbirgðir af olíu.

Samkv. fyrsta kafla samningsins skulu aðildarríka eiga a. m. k. 90 daga neyðarbirgðir af olíu. Miðað við það, sem var árið 1979, hefur Ísland 54 daga birgðir til að ná þessu marki.“

Það má segja að það ríki hér neyðarástand í birgðasöfnun alla tíð. Nú skal ég koma að því sem ég er að stefna að.

Við verslum á nákvæmlega sama hátt með þessa vörutegund og aðrar vörutegundir. Frá því 1962 hef ég staðið í uppbyggingu á tollvörugeymslu og hún er orðin staðreynd. Hún er viðurkennd. Hún er ekki bara viðurkennd hér innanlands. Hún er viðurkennd af erlendum framleiðendum. Erlendir framleiðendur eiga margir hverjir sínar vörur hér á landi, og eina tryggingin, sem þeir hafa fyrir því að varan seljist, er að hún er til á staðnum á þeirra kostnað. — Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hæstv. viðskrh. beini athygli sinni að því að hlusta á ræðumenn sem tala til hans fyrst og fremst um að koma á þeim viðskiptamáta sem er viðurkenndur um heim allan, að olíuframleiðslulöndin eða þau erlend olíufélög, sem hér hafa markaði, hafi birgðir sínar íslensku þjóðinni að kostnaðarlausu í tollvörugeymslu eða í fríhöfn hér á landi og Ísland fjárfesti ekki í dropa af olíu nema því sem þarf til daglegrar notkunar og tekið er af olíutönkum hinna erlendu framleiðsluríkja hér. Nú gerist það þannig að við erum með dýra fjárfestingu að óþörfu. Ef Ísland setur olíufélögunum skilyrði um að þau hafi aðgang að íslenskum markaði gegn því að þau hafi hér olíubirgðir, þá fullnægja þau þeim skilyrðum.

Annað vil ég benda á. Ég stjórna litlu skipafélagi. Við höfum enga samninga. Við höfum boðið út olíukaup. Við höfum fengið lækkandi verð vegna þess að við höfum boðið út til allra olíufélaganna. Við höfum reynt að ná samkomulagi við önnur farmskipafélög um sameiginlegt útboð á olíu fyrir skipafélögin, sem er gríðarlega miklu meira magn en við notum sjálfir. Við vitum að við getum fengið enn þá betri og hagkvæmari innkaup ef við gerum það. Við höfum hugsað um að reyna að ná samkomulagi við fiskiskipflotann líka og taka saman heildarmagn, sem Ísland notar bæði til farmskipa- og fiskiskipaflotans, og bjóða það út í einu lagi. Þá væri hægt að lækka olíuverðið um stóran prósentuhluta. en það fæst ekkert samstarf frekar en samkomulag innan ríkisstj. um að gera þetta á þann hátt sem er hagkvæmastur fyrir alla aðila. Við rífumst innbyrðis, félögin rífast innbyrðis. Það er ekki samkomulag á neinu sviði neins staðar. Það er dýrt að geta hvergi komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut.

Við gerðum tilraunir — og þá tala ég um það skipafélag sem ég stjórna — um breytingar á tryggingamarkaðinum. Það varð til þess að við lækkuðum tryggingar okkar um 200–400 þús. dollara á ári eftir því hvað við erum með mörg skip í gangi í einu á hverju tímabili um sig. Það munar líka um það. Það sýnir hvað er hægt að ná miklum árangri ef allir sameinast um tryggingamarkaðinn. — Það er ekki þar með sagt að þetta bitni á íslensku olíufélögunum vegna þess að þau fá sínar birgðir eins og er frá sama framleiðandanum.

Það er eins og það sé gersamlega útilokað að fá íslenska hugsun til að ná fram fyrir tærnar. Við getum hugsað um það sem snertir okkar næsta nágrenni, en þegar við þurfum að fara að hugsa hátt og eiga samstarf við aðrar þjóðir erum við eitthvað alveg sérstakt. Þá þolum við ekki samskipti við aðra menn eða höfum ekki hæfileika, vil ég segja, til að hugsa þannig. Og þá kem ég að því sem ég var beðinn um að segja frá, þeirri hugmynd sem ég var með í utanrmn. Það er engin hugmynd. Ég skal rekja gang málsins eins og ég man. Það væri kannske betra að taka þetta mál sérstaklega á dagskrá þegar ég og viðskrh. höfum gögn fyrir framan okkur þannig að ekkert fari milli mála að rétt sé farið með, en ég ætla að reyna að fara eftir minni.

Ég er staddur erlendis, í London, og franskur aðili, sem ég þekki, hringir til mín og spyr hvort ég vilji taka á móti manni sem er búsettur að vísu í Englandi, en búsettur víðar, — þetta er maður sem heimurinn allur er starfsvöllur fyrir, — og ég játa því. Maðurinn kemur — og hvert er erindið? Erindið sjálft í upphafi er það alvarlegasta. Hann hafði sem fulltrúi olíuframleiðsluríkjanna reynt að ná sambandi við tvo forustumenn olíunefnda á vegum ríkisins, en ekki tekist að ná sambandi við þessa aðila. Hann var ekki að biðja mig um neitt annað en að koma á sambandi við opinbera aðila því honum hefði ekki tekist að fá samband við tvo formenn olíunefnda.

Ég fór heim að loknu erindi mínu í London. — Ég tek það fram að það var ekki á vegum Alþingis. Ég hef aldrei farið út á vegum Alþingis eða annarra opinberra aðila.— Þegar ég kom heim bað ég um viðtal við forsrh., utanrrh. og viðskrh. og bað þá þessa hæstv. ráðh. að taka á móti þessum manni og hlusta á erindi hans. Í millitíðinni hafði ég kynnt erindið í utanrmn. Maðurinn kom, var hér í nokkra daga og gerði sitt tilboð. Hann átti viðræður við viðskrh. og gerði tilboð, fyrst munnlega, en síðan skriflega, átti viðræður við ráðuneytisstjóra, beið hér eftir einhvers konar svari, en fékk ekki. Hann fór til baka og síðan leið nokkur tími þangað til svar barst. Svarið var þá frá viðskrn., að Ísland sæi ekki ástæðu til að fylgja þessu máli eftir. En erindið var einvörðungu það, að íslenska ríkisstjórnin tæki upp beint samband við Saudi-Arabíu og önnur olíuframleiðslulönd um þá möguleika sem hann gat um. Hverjir voru svo þessir möguleikar? Nú fer ég eftir minni, en ég á þetta í bréfi heima.

Þeir buðu að Ísland gæti hugsanlega fengið 15–20 þús. tunnur af olíu á dag, kvóta. Þetta er þó nokkuð meira en Ísland þarf á að halda. Það, sem var umfram Íslands þörf, gat Ísland látið hreinsa í þeirri olíuhreinsunarstöð sem íslenskir aðilar sjálfir völdu á meginlandinu. Ef einhverjir erfiðleikar voru á því að koma í verð eða selja það umframmagn sem Ísland átti þá eftir í annaðhvort hreinsaðri olíu eða bensíni eða öðrum efnum þá buðust þeir til að skuldbinda sig til að sjá um að Ísland yrði ekki fyrir tjóni, þeir mundu útvega markað fyrir það. Þetta buðu þeir vegna þess að þeir voru að úthluta kvótum, en ekki bara það, heldur buðu þeir líka að láta fara hér fram könnun á sinn kostnað á því, hvort rétt væri að staðsetja hér olíuhreinsunarstöð sem væri svo stór að hún tæki við af þeim olíuhreinsunarstöðvum sem nú eru í Evrópu og eru gamaldags, úreltar, og fást ekki endurnýjaðar vegna þess að byggð er komin svo nálægt þeim að viðkomandi lög leyfa ekki endurnýjun. Þeir vildu flytja héðan út bæði til Evrópu og til Bandaríkjanna á sinn kostnað. Allar frumkannanir voru á kostnað þessara aðila. Þetta er staðfest í bréfi sem hæstv. viðskrh. hefur. Staðsetning yrði í samráði við og að sjálfsögðu undir eftirliti íslenskra aðila. Öll fjármögnun yrði á vegum þessara olíuframleiðsluríkja. Eignaraðild gat verið í ákvörðunarvaldi íslenskra aðila, hvort Íslendingar ættu eitthvað í þessari stóru hreinsunarstöð eða ekki neitt og allt þar á milli. Ef Ísland vildi eiga stöðina alla eða að einhverju leyti buðust þeir til að útvega langtímalán. Þeir gerðu meira. Ef úr þessu yrði vildu þeir tryggja Íslandi með samningum til 15 ára ódýrari olíuvörur en eru á heimsmarkaðinum hverju sinni.

Ég ætla ekki að halda þessari upptalningu áfram lengur. Það tók vikutíma eða svo fyrir Ísland að hafna því að hefja viðræður. Hér var ekki verið að tala um að ganga til samninga, heldur hefja viðræður við þessa aðila. Það var meira að segja dregið í efa að þessi maður væri með heimild til að bjóða þetta. Það er sett í gang athugun í London hvort þessi maður væri heiðarlegur eða ekki. Slík meðferð er ekki Íslandi sæmandi.

Ég hélt að þetta mál væri að komast á eitthvert athugunarsvið þegar ég las í blöðum nokkru seinna að Ísland hefði tekið upp beint stjórnmálasamband við Saudi-Arabíu. Mér þætti vænt um að fram kæmi í þessum umr. hvort Ísland hefði í huga að taka upp þessar viðræður beint, taka upp þráðinn þar sem hann var slitinn þegar þetta tilboð barst.

Þetta er í stórum dráttum það sem kom fyrir utanrmn., þetta er í stórum dráttum það sem kom fyrir ríkisstj. og þetta er það boð sem hér kom til umræðu áðan og ég sé enga ástæðu til að leyna því. Það var ekki lagt fram sem trúnaðarmál við ríkisstj., og ég er ekki hér að upplýsa það sem kom fyrir utanrmn. vegna þess að málið kom ekki fyrir utanrmn. á því stigi sem ég er að tala um hér. Hitt er annað mál, að ég sagði utanrmn.-mönnum frá málinu.

Ég tel að hér hafi verið mikil mistök á ferð. Það er með eindæmum hvað íslensk hugsun nær skammt. Ég ætlaði að fara að segja að hún næði ekki út fyrir þessa veggi, en við eigum að vera hvað færastir að láta hugann reika og grípa tækifærin þegar þau gefast.

Nú vil ég segja frá öðru sams konar máli sem sýnir allt að því sömu meðferð mála. Hingað til lands hafa komið í níu ár ákveðnir verslunaraðilar til veiða í Norðurá. Ég hef kynnst þessum mönnum, þekki þá nokkuð vel. Þá, sem skipta máli í því sem ég ætla að segja, þekki ég hvað best. Ég var beðinn um að koma nýlega sem heiðursborgari Nizza í fjarveru borgarstjórans og vera viðstaddur stofnun samtaka ákveðinna stórmarkaða í Evrópu. Þeir eru nú um 50. Þar er annað fyrirtæki rekið af öðrum kunningjum mínum. Þeir hafa í sínu umráðasviði um 400 stórmarkaði. Ég gerði tilraun til að fá þessa aðila til að kaupa íslenskar afurðir, sem ekki þekkjast í þeirra verslunum sem eru dreifðar vítt og breitt um Evrópu. Það átti að vera eins konar vinargreiði við mig að þeir keyptu íslenskar afurðir í þessar verslanir eða alla vega ætluðu þeir að athuga gæði og verð. Ég var úti í október og gerði tilraun til að fá ráðamenn héðan til að ræða við þessa menn á staðnum. Það var ekki hægt þá. Ég gerði tilraun til að fá hina erlendu menn til að koma hingað. Þeir lofuðu að koma hingað og voru búnir að tímasetja komu sína 3.–4. des. Ég var búinn að gera ráðstafanir til að opinberir aðilar hefðu á einhverjum einum stað í Reykjavík allar þær vörutegundir og upplýsingar um verð sem við gætum hugsað okkur að flytja út, niðursuðuvörur, ullarvörur o. fl. Hvað skeður? Þetta er ekki tilbúið. Það er ekki gengið frá neinu af því sem ætlast var til að gengið yrði frá. Ég fæ tímatöflu á blaði þar sem er tímasett heimsókn þessara manna hingað og þangað, manna sem eiga að vera hér í 24 tíma, og er þá aðallega talað um að heimsækja stórhringa sem þessir aðilar skipta ekki við vegna þess að viðskiptahættir hafa breyst, en við drögumst aftur úr. Það er orðið þannig að þeir, sem hafa sambönd, persónuleg eða önnur, við stóraðila erlendis sem geta komið afurðum okkar í verð og á markaði, hafa ekki aðgang að þeim sem ráða hér heima fyrir. Af hverju er það? Hvernig stendur á þessari framkomu? Málin eru ekki einu sinni könnuð. Gerum við okkur ekki grein fyrir því, hvort sem við erum í rn. eða ekki rn., að til þess að hér megi ríkja sú velmegun, sem allt okkar líf byggist á, þurfum við að koma vörunum í verð? Við erum fastir í gömlu kerfi sem nýju kerfin erlendis versla ekki við. Er það eitthvað fráleitt, þegar við erum að tala um stóriðju og gríðarlega dýr mannvirki í þeim málum og erum að leita að einhverjum til að kaupa okkar orku, að hugsa sér að til séu stórhuga erlendir menn sem séu á leiðinni með t. d. eins orkufrekan iðnað og er í olíumálum, það stóran að við erum hræddir við að hugsa til þess, hræddir við að tala við þessa menn af því að þeir eru að tala um Ísland? Ísland er hlutlausasta landið, sem þeir finna í Evrópu og öruggasta svæðið landfræðilega til þess að hafa á hinar stóru nýju olíuhreinsunarstöðvar og til að selja bæði til austurs og vesturs. Við erum svo litlir að við þorum ekki að tala við stórhuga menn.

Formaður Sjálfstfl. sagði áðan að það ætti að leita fleiri leiða en hingað til hefðu verið valdar eða verið á okkar valdi. Það er einmitt það sem ég hef verið að tala um. Það eru aðrar á borð við þessa. En við erum hræddir við þær þegar þær bjóðast. Þó rætt sé um smærri stöð en olíuhreinsunarstöðina sem ég talaði um erum við smeykir. Það kom fram hjá hæstv. félmrh. að 20% af öllum okkar afla fari í olíukaup fyrir veiðiflotann. En það er staðreynd að unnt er að bjóða út alla þessa olíu í einu innkaupi og hún getur lækkað verulega í verði. Af hverju kemur ekki forusta um þetta einhvers staðar frá? Síðan er hægt að ganga í opinbera sjóði og segja: Nú er olían þetta og þetta dýr. Nú verður ríkisstj. að borga. — Og ríkisstj. borgar.

Ég ætla ekki að hafa þennan lestur miklu lengri, en ef með þarf, virðulegi forseti, mun ég óska eftir að fá að koma upp utan dagskrár, ef tilefni gefst til, og kynna betur þetta olíumál, þetta tilboð og lesa þá þau bréf sem ég hef og hæstv. viðskrh. hefur að hluta — alla vega hefur hann tilboðið — og kynna þingheimi þá beint með bréfunum þannig að ekkert fari á milli mála að ég fer með rétt mál.