21.10.1981
Efri deild: 5. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

28. mál, almannatryggingar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hlýt að taka til máls um þingmál það sem hér um ræðir og form. Alþfl. o. fl. hafa lagt fram. Ég get tekið heils hugar undir með hv. þm. Helga Seljan þar sem hann ber lof á framtak flm. þessa frv.

Ég átti sæti í endurkoðunarnefnd almannatryggingalaganna, þeirri sem þáv. heilbr.- og trmrh., Magnús H. Magnússon, skipaði og ég starfaði í þeirri nefnd sumarið 1979, svo lengi sem hún starfaði. Einmitt þetta atriði sem varðar sjúkraflutningana, kostnaðarhluta einstaklinga af sjúkraflugi og sókn til lækna, var meðal þeirra mála sem endurskoðunarnefndin hafði skráð hjá sér og ætlunin var af hálfu nefndarinnar að flytja till. um breytingu í réttlætisátt.

Mér er ekki kunnugt hvort sú endurskoðunarnefnd almannatryggingalaganna sem nú hefur verið skipuð, er komin þar áleiðis í störfum sínum að hafa tekið þetta mál til sérstakrar athugunar. En hitt er mér kunnugt um að öll gögn, sem safnað hafði verið af hinni fyrri endurskoðunarnefndinni, liggja frammi til reiðu fyrir þá endurskoðunarnefnd sem nú situr að störfum. Ég vænti þess, að rekið verði eftir því að endurskoðunarnefndin, sem nú starfar, skili áliti um einstakar greinar tryggingalaganna og að ekki verði eftir því beðið, að lagt verði fram heildarfrumvarp að nýjum lögum um almannatryggingar á Íslandi, heldur brugðið á það ráð að gripa á þeim málum þar sem þörfin er brýnust fyrir leiðréttingar.

Ég tel að nauðsynlegt sé að auka nokkru við þetta ágæta frv., sem hér er um að ræða, til úrbóta á einstökum atriðum, hliðstæðum við þau sem hv. frsm. gerði prýðilega grein fyrir í framsöguræðu sinni, svo sem ákvæðum um úrbætur til handa „ambulance“-sjúklingum úti á landi, sem eiga um langan veg að sækja nokkuð reglulega til sérfræðinga eða sérstakrar „ambulance“-þjónustu á sjúkrahúsum, þar sem ákvæði í núgildandi lögum kveður á um að einungis skuli greitt fargjald með áætlunarbíl til þess að sækja slíka þjónustu. Tökum sem dæmi um það, hversu óralangt er liðið síðan kveðið var á um slíkt í lögum, að á fjölmörgum þeirra leiða, þar sem þá gengu áætlunarbílar, ganga nú engir áætlunarbílar. Einnig er vert að vekja athygli á því, að af landfræðilegum ástæðum geta ekki gengið áætlunarbílar frá heimili sumra þessara sjúklinga til sjúkrahúsa þar sem slíkrar þjónustu er að vænta, „ambulance“-þjónustu. Mikið skortir á það t. d. að áætlunarbíll stansi í hæfilegri fjarlægð frá húshlaði þeirra Grímseyinga og Hríseyinga, og eigum við þá óupptaldar Breiðafjarðareyjar. Svo slæmt er þetta, að þegar „ambulance“-sjúklingur í Bárðardal, sem þarf að sækja vikulega inn til Akureyrar, óskar fjárhagslegs stuðnings — hann verður ýmist að aka eigin bíl þegar fært er eða leigja sér snjóbíl þegar ófært er venjulegum bílum ellegar þá leita á náðir granna síns um flutning, ef hann á sjálfur ekki ökutæki og getur ekki ekið, — þegar hann leitar fjárhagslegs stuðnings samkv. lögum, þá fær hann greitt það sem kostað hefði fargjald með áætlunarbíl, ef áætlunarbíll hefði gengið samkv. kílómetrataxta sem kveður á um það, með hvaða hætti greiða skuli slík gjöld.

Hvað sem því líður, hvort sem við fáum núna ríkisstjórnarfrv. um þetta atriði í almannatryggingalögin eða ekki, þá tel ég feng að þessu frv. Raunar tel ég ákaflega þýðingarmikið fyrir hv. alþm. að flutt séu og rædd mál af þessu tagi, sem lúta að jafnrétti landsmanna gagnvart lögunum og lúta að þeim ágöllum á löggjöf sem hamla framkvæmd slíks réttlætis. Ég tel slíkar umr. ákaflega þýðingarmiklar fyrir hv. alþm., að þeir kynni sér ítarlega og geri sér ljósa grein fyrir því, hvernig ástatt er um rétt umbjóðenda þeirra á þessum sviðum.

Það er ljóst mál, að við höfum frá upphafi rekið almannatryggingar í þessu strjálbýla landi, þar sem tiltölulega fátt fólk verður að deila með sér þungum byrðum á sviði heilsugæslu, heilbrigðismála og trygginga, — við höfum frá upphafi rekið almannatryggingarnar svo sem spönn fyrir ofan örbirgðarmörkin. Við höfum allan þennan tíma orðið að taka mið af því, hversu litið fé við höfum undir höndum. En því fer víðs fjarri að allar bráðnauðsynlegar breytingar á tryggingalöggjöfinni og framkvæmd hennar þurfi að kosta of fjár. Við stöndum andspænis þörf fyrir breytingar á tryggingalöggjöfinni sem kosta tiltölulega litið fé. Í öðru lagi stöndum við andspænis brýnni þörf, mjög brýnni þörf fyrir breytingar sem kosta ekki of fjár, kosta nokkuð, kalla á aukna skattheimtu, en kosta ekki of fjár. Síðan í þriðja lagi blasir við okkur þörf fyrir breytingar á tryggingalöggjöfinni sem kosta mjög mikið fé. Það mun sennilega verða allmörg ár enn þá svo um fjárhag þessarar þjóðar, að við tökum nokkurt tillit til þess arna þegar við röðum þessum verkefnum, þessum nauðsynlegu breytingum í forgangsröð. Og við megum umfram alla muni ekki láta hjá líða að breyta lagaákvæðum og reglugerðum þar sem bætt framkvæmd almannatryggingalaganna á þessu sviði getur komið í veg fyrir framhald á stórkostlegu óréttlæti fyrir þegnana.