14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

1. mál, fjárlög 1982

Frsm. meiri hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Fjvn. kom saman til starfa hinn 1. okt. s. l. og átti viðtöl við fulltrúa um 60 sveitarfélaga áður en Alþingi var sett hinn 10. okt. Síðan hefur nefndin haldið 41 fund auk funda í undirnefndum sem hafa unnið að afgreiðslu einstakra málaflokka. Nefndinni hafa borist erindi sem taka til um 1000 efnisatriða, og hún hefur átt viðtöl við um 200 aðila frá því að hún hóf störf hinn 1. okt. Þrátt fyrir öll þessi fundarhöld og þann mikla tíma sem nefndin ver til afgreiðslu fjárlagafrv. skortir á að nægilegt ráðrúm gefist til að kanna einstök málefni til þeirrar hlítar sem nefndarmenn kysu, svo umfangsmikið er það svið sem fjárlagafrv. spannar. Þess má t. d. geta, að í núgildandi fjárlögum eru þær framkvæmdir sem ríki og sveitarfélög standa að í sameiningu og veita þarf fé til á fjárl. um 750, auk þeirra verkefna sem ríkið annast eitt. Forstöðumenn ríkisstofnana og hvers konar fétagssamtaka eiga jafnan margt vantalað við fjvn. þegar fjárlagafrv. hefur verið lagt fram og í viðræður fer mikill tími. En óhætt er að segja að eftir að sá háttur var tekinn upp, að viðtöl við sveitarstjórnarmenn fari fram fyrir þingsetningu hefur þó gefist mun lengri tími til að fjalla um einstök erindi, afla upplýsinga og meta og vega þau mál sem fyrir liggja. Að þessu sinni afgreiðir nefndin fyrir 2. umr. alla framkvæmdaflokka, B-hlutafyrirtæki og tekjuáætlun. Óafgreidd eru þá nokkur málefni, svo sem vegamál, byggingarmál Landspítala, framlög til landbúnaðar, málefni Háskóla Íslands og heimildagrein.

Í störfum sínum hefur nefndin notið mjög góðrar og mikilsverðrar aðstoðar Magnúsar Péturssonar, sem nýlega hefur tekið við starfi hagsýslustjóra, og starfsliðs hans og hins ágæta starfsmanns nefndarinnar, Magnúsar Ólafssonar, og þakka ég þeim fyrir hönd nefndarinnar ágæt störf fyrir nefndina. Ég flyt öllum samstarfsnefndarmönnum mínum, bæði stjórnarsinnum og stjórnarandstæðingum, þakkir fyrir mjög gott samstarf og umburðarlyndi í minn garð, en allir hafa samstarfsnefndarmenn mínir lagt sig fram um að störf nefndarinnar gætu gengið sem greiðast.

Ég hef getið þess áður í fjárlagaumr., að nefndin hafi auglýst að erindi skuli hafa borist fyrir tiltekinn tíma og að á því hafi verið nokkur misbrestur. Ég tel þó að verulega hafi áunnist í þessu efni, enda þótt nokkrir aðilar séu enn seint á ferð og þ. á m. sum ráðuneyti. Fer ekki hjá því, að það er undir hælinn lagt hvað verður um afgreiðslu slíkra erinda. Þegar viðkomandi aðilar ákveða með seinlæti sínu að sending erinda þoli bið langt umfram auglýstan tíma er hætt við að nefndin álykti á hliðstæðan hátt að afgreiðsla þeirra þoli þá einnig nokkra bið, t. d. eitt ár eða svo.

Við gerð fjárlagafrv. eru beiðnir ríkisstofnana og þeirra ýmsu aðila, sem leita eftir fjármunum úr ríkissjóði, metnar og mældur skammturinn. Það fer ekki hjá því, að nm. í fjvn. finni fyrir því, að á þeim standa öll spjót frá þeim sem hefur þótt sinn hlutur rýr, og æðioft og oftast verður hlutskipti nefndarinnar í augum umsækjenda að fara með hlutverk þess sem fæst ekki til að skil ja og meta þær brýnu þarfir sem „illgirni og skilningsleysi“ fjárlaga- og hagsýslustofnunar hefur bitnað á. Flestum finnst þeir fara í geitarhús að leita sér ullar þegar þeir reyna að bæta sinn hlut við afgreiðslu nefndarinnar á fjárlagafrv. Einkum sýnist ýmsum furðulegt, að nefndin skuli ekki skilja hversu lítið muni um þær fáu þúsundir eða millj. kr., sem viðkomandi biður um til viðbótar, þegar haft er í huga að fjárlagatalan er gríðarlega há. Að vísu er það svo, að sú tala er eins og allar aðrar safntölur m. a. byggð á því marga smáa sem gerir eitt stórt.

Sjálfsagt hafa ýmsir ástæðu til að hafa hátt vegna þess, hvernig með þá er farið við samningu fjárlagafrv., og því ekki ástæða til að undrast þó að þeir noti sér athvarf ríkisfjölmiðla til að lýsa skoðun sinni á gáfnafari þeirra, sem setja saman fjárlagafrv., og hefni þess þá í útvarpi sem hallast á í frv. En skyldi samt sem áður ekki vera orðið tímabært að huga að því, hver er stefnan í þjóðfélaginu með rekstrarútgjöldum ríkissjóðs, og lesa á þann mæli sem fjárlög eru í þeim efnum? Við höfum á undanförnum árum í mjög ríkum mæli notað verulegan hluta af afrakstri þjóðarbúsins til að byggja upp þjónustustofnanir og efla hvers kyns þjónustu og félagsleg réttindi. Í þeim efnum hefur markið verið sett hátt og fyrirmyndir sóttar til þeirra þjóða sem ríkastar eru og gera mestar kröfur. Það er engin aðstaða til þess á þessari stundu að fjalla rækilega um stöðu okkar í þessu efni nú, en örfá atriði má benda á.

Undirstaða allrar getu til að standa undir félagslegri þjónustu í landinu, hvort heldur er í skólamálum, heilbrigðismálum eða öðrum efnum, er verðmætasköpunin í þjóðfélaginu, undirstöðuframleiðslan, og því aðeins er unnt að auka sífellt við þjónustuþættina að verðmætaöflunin aukist að sama skapi eða í einhverju sé dregið úr þeirri sóun sem kann að eiga sér stað á ákveðnum sviðum, t. d. í verslun hér á höfuðborgarsvæðinu. Ef við leggjum fjármagnið fyrst og fremst í þjónustustofnanir, án þess að efla grundvallarframleiðsluna, veltur þessi sístækkandi yfirbygging fyrr eða síðar, hversu nauðsynlega og óhjákvæmilega sem menn telja hana. Hún stendur ekki ein sér. Það nægir ekki að tryggja fjármagn í uppbyggingu þjónustuaðstöðu, svo báglega sem flestum finnst það takast við afgreiðslu hverra fjárlaga. Á hitt verður einnig að líta, að þegar t. d. byggingu sjúkrahúss eða heilsugæslustöðvar er lokið jafngildir árlegur rekstrarkostnaður, sem við tekur, að jafnaði þriðjungi byggingarkostnaðar. Það jafngildir því að slík stofnun væri reist þriðja hvert ár um alla framtíð.

En þó að litið sé fram hjá því, hvað þessar framkvæmdir kalla síðar á rekstrarfé, mætti gæta að því, að ástæðan til þess að það þrengist um framkvæmdafé er m. a. sú stóraukna margvíslega félagslega þjónusta sem bæst hefur í útgjaldaþáttinn hjá ríkissjóði á undanförnum árum. Það eru ekki mörg ár síðan farið var að greiða tannlækningar úr ríkissjóði. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1982 nema þessar greiðslur 45.3 millj. kr. Sama er að segja um fæðingarorlof. Það er stutt síðan það kom til. En það kostar á næsta ári um 65.2 millj. kr. Ýmsum hefur þótt of lítið fjármagn fara til byggingar grunnskóla, sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Samtals er veitt til þessara framkvæmda í fjárlagafrv. 107.4 millj. kr. Þá upphæð mætti meira en tvöfalda fyrir þá fjármuni, sem nú er varið til þeirrar félagslegu þjónustu sem ég áðan nefndi og ekki var greidd fyrir nokkrum árum.

Framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna nam ekki háum upphæðum fyrir fáum árum. Í fjárlagafrv. nú nemur það 197.1 millj. kr. eða álíka upphæð og ætlað er í frv. samanlagt til hafnarframkvæmda, flugvallagerðar, byggingar dagvistunarheimila og íþróttamannvirkja. Stöðugildi á ríkisspítölum eru um 1830 og gætu jafngilt áhöfnum 110–120 togara. Jafnframt eykst þjónusta á heilsugæslustöðvum og nýjum sjúkrahúsum hvarvetna í landinu eins og að hefur verið stefnt. Allt þetta, sem hér hefur verið nefnt, eru bætt lífskjör. En á hvern veg reiknast það þegar borinn er saman kaupmáttur launa frá einu tímabili til annars?

Ég er ekki að benda á þessa rekstrarliði sérstaklega vegna þess að ég telji þá ekki eiga rétt á sér, heldur nefni ég þá til þess að mönnum sé ljóst að það eru takmörk fyrir því, hversu skip verður hlaðið án þess að menn stækki það, og það eru takmörk fyrir því, hve stóran hlut þjóðarteknanna við getum notað ár eftir ár til að auka þjónustuþáttinn og þá um leið þjónustuútgjöldin í framtíðinni án þess að raunverulegur verðmætisauki sé fyrir hendi. Ef við höldum áfram að hlaða lífsgæðapinklunum í skipið án þess að stækka það og bæta gæti svo farið, ef gáraði sjó, að við yrðum að kasta einhverju af þessum farmi útbyrðis, eins og þær þjóðir eru farnar að gera sem við tókum okkur helst til eftirdæmis þegar leitað var fyrirmynda um þær ströngustu kröfur sem fundust um þjónustugæðin. hví nefni ég þetta að svo miklu leyti sem unnt hefur verið þarna úti í Þórshamri að fylgjast með því, sem gerist hér í Kirkjustræti, ber ekki á öðru en í fullum gangi sé að venju framleiðsla á tillögum um bætt mannlíf með liprum greiðslum úr ríkissjóði. Á sama tíma sýnast þær tillögur vera merkastar í skattamálum að leggja niður tekjuskatt, en vegna þess að hann gegnir nokkru hlutverki til tekjujöfnunar, megi snarlega bæta úr því í staðinn með útborgun úr almannatryggingum.

Þetta teljast líklega orðnar nokkrar úrtölur og vissulega væri vænlegra, að ég tali nú ekki um skemmtilegra, að brjóta fremur heilann um nýja og aukna þjónustu sem almenningur nyti góðs af, en ríkið greiddi, og fá sagt frá þessum áhuga sínum og veglyndi í fjölmiðlum, heldur en stunda helst niðurskurð og neitanir.

Það er að sjálfsögðu svo, að þingmenn hafa einlægan áhuga á framgangi hagsmunamála þeirra sem höllustum fæti standa í þjóðfélaginu. Ég veit ekki hvaða hópa á helst að nefna: börn, gamalmenni, öryrkja, drykkjusjúklinga og fanga. En ég er á hinn bóginn ekki viss um að það sé heppilegt eða viðeigandi að þingmenn gerist framámenn í einstökum slíkum hagsmunahópum. Ég hef þá skoðun, að þingmenn þurfi að geta staðið algerlega óháðir og án beinna tengsla við einstaka aðila og samtök þegar gera þarf upp og meta innbyrðis við lagasetningar og við afgreiðslu fjárlaga þarfir, óskir og kröfur hinna einstöku hópa og samtaka. Þótt faðmur fjárveitingavaldsins, sem er Alþingi, sé stór rúmar hann því miður ekki allt sem hann þyrfti að umlykja. Ég held líka að það sé hvorki heppilegt né viðeigandi að þm. gerist beinir aðilar að hagsmunasamtökum og verði helstu forsvarsmenn félagasamtaka sem stefna að stofnun og rekstri atvinnufyrirtækja sem beinlínis eru byggð á þeim grundvelli að hljóta fjármagn frá ríkissjóði að láni eða sem bein framlög. Það þykir ekki við hæfi að bankastjórar sitji í stjórn fyrirtækja sem hafa viðskipti við bankann sem þeir stjórna. Þeir, sem með lagasetningu fara, þ. á m. fjárveitingar í fjárlögum, og ráða því, hvernig hagsmunakröfum félagssamtaka og fyrirtækja reiðir af, ættu á hliðstæðan hátt að standa persónulega utan við öll slík samtök. Það þykir náttúrlega lofsvert að þm. sýni áhuga á framgangi baráttumála góðra félagssamtaka með þátttöku í þeim, og eftir atfylgi þeirra er að sjálfsögðu sóst. En þegar að er gáð eru fleiri hliðar á því máli eins og öðrum. — Ýmsum kann að þykja að ég sé kominn nokkuð út fyrir það efni sem hér er á dagskrá, afgreiðslu fjárlagafrv., en það er ég vissulega ekki og e. t. v. nær því en margur hyggur.

Ég sný mér þá að því að gera grein fyrir þeim brtt., sem fjvn, flytur sameiginlega, og þeim till., sem meiri hl. n. flytur sérstaklega.

Nefndin hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu fjárlagafrv. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar skila séráliti og eins og venjulega hafa fulltrúar hennar í fjvn. fyrirvara um fylgi við einstakar tillögur, sem nefndin flytur sameiginlega, og hafa áskilið sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.

1. till., sem nefndin flytur sameiginlega, varðar Alþingi. Þar er gjaldfærður stofnkostnaður hækkaður um 3 millj. 280 þús. kr. til endurnýjunar á loftræstikerfi og símakerfi og til undirbúnings samkeppni um byggingar á lóð Alþingis.

Hjá forsrn. er till. um að hækka liðinn Öryggismálanefnd um 200 þús. kr. í 700 þús. kr. Hann var óbreyttur á fjárlagafrv. frá því sem hann er á fjárl. í ár. — Gjöf Jóns Sigurðssonar: Þar er lagt til að liðurinn hækki um 102 þús. kr. og verði 180 þús. kr., en það hefur verið ven ja að þessi fjárlagaupphæð miðaðist við jafngildi prófessorslauna við Háskólann.

Þá er liður hjá Þjóðhagsstofnun hækkaður um 65 þús. kr. Þar er um að ræða hækkun annarra rekstrargjalda um 130 þús. kr., en á móti koma sértekjur 65 þús. kr. Þar er um að ræða endurnýjun húsgagna og Seðlabanki Íslands greiðir helminginn.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum. Þar er lagt til að gjaldfærður stofnkostnaður hækki um 90 þús. kr. vegna útgjalda við líffræðirannsóknir á Þingvallavatni, en sértekjur frá Landsvirkjun hækka um helming, 45 þús. kr., svo að heildarhækkunin verður 45 þús. kr.

Flestar till. varða menntmrn. og nokkrar af þeim till. varða tilfærslu á launaupphæðum við ýmsa framhaldsskóla. Launagreiðslurnar hækka ekki í heild, en breyting er gerð innbyrðis vegna þess að nú er ljósara en við samningu frv. hver verður nemendafjöldi í hverjum skóla.

Raunvísindastofnun háskólans: Þar er gerð till. um að liðurinn Önnur rekstrargjöld hækki um 380 þús. kr. og verði ráðstafað á sérstök verkefni, þ. e. athugun á notkun vindorku til hitaframleiðslu og rannsóknir á orkunýtingu. Hliðstæð fjárveiting er í fjárl. í ár, en var ekki í fjárlagafrv.

Liðurinn Laun hjá Kennaraháskóla Íslands er hækkaður um 32 300 kr. Þar er um að ræða fjárveitingu til lektorsstöðu í sérkennslufræði frá 1. okt. 1982.

Launaliður hjá Æfinga- og tilraunaskóla er einnig hækkaður um 94 200 kr. Þar er um að ræða að ráða húsvörð við skólann.

Framlag til Íþróttakennaraskóla Íslands hækkar í fyrsta lagi um 150 þús. kr. vegna viðhalds sem hafði fallið niður við samningu frv., og gjaldfærður stofnkostnaður hækkar um 4 millj. kr. Er ætlunin að verja því fé til byggingar íþróttahúss. Er þá gert ráð fyrir að byggingarframkvæmdum verði hagað þannig, að útboð á næsta ári miðist við að íþróttahúsið verði steypt upp á tveimur árum.

Gjaldfærður stofnkostnaður hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja hækkar um 1 millj. kr. og verður 1 millj. 260 þús., og gjaldfærður stofnkostnaður hjá Fjölbrautaskólanum á Akranesi hækkar um 1.9 millj. og verður 3.4 millj.

Framhaldsskóli í Vestmannaeyjum: Þar hækkar gjaldfærður stofnkostnaður um 160 þús. og verður 400 þús.

Hjá Fjölbrautaskólanum á Selfossi hækkar gjaldfærður stofnkostnaður um 1 millj. 650 þús. og verður 2.3 millj.

Þá eru tillögur varðandi Námsgagnastofnun. Önnur rekstrargjöld eru hækkuð um 210 þús. kr. Þar er annars vegar um að ræða 200 þús. kr. vegna útgáfu námsgagna fyrir börn með sérþarfir og 10 þús. kr. á að verja til að vinna að mótun stefnu varðandi notkun myndbanda í skólum til að stuðla að samræmingu í tækjanotkun.

Liðurinn Iðnfræðsluráð er hækkaður um 300 þús. í 655 þús. kr. vegna útgáfu námsgagna fyrir fatlaða.

Gjaldfærður stofnkostnaður hjá Stýrimannaskólanum í Reykjavík er hækkaður um 235 þús. kr. og verður 500 þús. kr.

Liðurinn Iðnskólar almennt: Stofnkostnaður hækkar um 250 þús. kr., en sundurliðun á einstaka skóla kemur fram í brtt.

Gjaldfærður stofnkostnaður hjá Hótel- og veitingaskóla Íslands er hækkaður um 183 þús. kr. Skólinn er í leiguhúsnæði svo að hér er fyrst og fremst um tækjakaup að ræða.

Liðurinn Tónlistarskólar, stofnkostnaðarstyrkir er hækkaður um 120 þús. kr. og verður 320 þús., en á hinn bóginn er felldur niður liður sem heitir Tónlistarskólinn í Reykjavík og Tónmenntaskóli Reykjavíkur, byggingarstyrkur. Þessi liður var 38 þús. kr. og fellur niður. Stofnkostnaðarstyrkirnir til tónlistarskóla eru því í heild hækkaðir um 82 þús. kr., en að þessu sinni hefur fjvn. ekki skipt fjárhæðinni á einstaka skóla, heldur er gert ráð fyrir að menntmrn. annist skiptinguna og áfram verði við það miðað að styrkirnir séu einungis vegna stofnkostnaðar húsnæðis, en ekki til hljóðfærakaupa.

Viðhaldsliðir á sjómannaskólahúsinu eru hækkaðir um 734 þús. kr., en í frv. eru fyrir 600 þús. kr. sem eru ætlaðar til endurbóta og viðhalds á sjómannaskólahúsinu. Í heild er því gert ráð fyrir að til þess verði varið 1 millj. 334 þús. kr. á næsta ári, en á því er mikil þörf.

Héraðsskólar almennt: Gjaldfærður stofnkostnaður hækkar um 2 millj. 750 þús. kr. og verður 5 millj. 250 þús. kr. Sundurliðun á einstaka skóla kemur fram í brtt. Langstærsta upphæðin fer til Héraðsskólans að Eiðum.

Liðurinn Bygging grunnskóla og íbúða fyrir skólastjóra hækkar um 11 millj. 909 þús. kr. og verður 66 millj. 309 þús. kr., en sundurliðun á einstaka skóla kemur fram í brtt.

Liðurinn Stofnanir afbrigðilegra barna hækkar um 265 þús. kr. Það er hækkun til Öskjuhlíðarskólans til viðgerða á gluggum í húsinu, sem ekki er ýkjagamalt, en hefur þó lekið.

Heyrnleysingjaskólinn: Þar eru laun hækkuð um 75 þús. kr. og er það gert til að auka það kennslumagn sem gert er ráð fyrir.

Lánasjóður ísl. námsmanna hækkar um 127 þús. kr., launaliður á skrifstofu, og þá verður yfirfærslan í heild 117 251 800 kr.

Liðurinn Náms- og fræðimenn, framlög: Þar hækkar Starfsemi stúdenta um 1500 kr. og Menntastofnun Bandaríkjanna á Íslandi hækkar um 15 þús. kr. Styrkur til útgáfustarfa hækkar um 108 þús. kr., en þessari upphæð hefur fjvn. þegar skipt.

Fullorðinsfræðsla: Heimilisiðnaðarskólinn hækkar um 8400 kr. og verður 35 þús. kr. Þar kemur inn nýr liður: Félagsmálanámskeið 40 þús. kr. Þessi liður var í fjárl. 1981, en ekki í fjárlagafrv.

Þjóðminjasafn Íslands: Yfirfærslur til sveitarfélaga hækka um 50 þús. kr. Fjvn. hefur þegar skipt þeirri upphæð. Nýr liður kemur inn: Sjóminjasafn Íslands, Hafnarfirði, 600 þús kr. Þessi liður er í fjárl. 1981, en hefur fallið niður í fjárlagafrv.

Lagt er til að viðhaldsliður hjá Safnahúsinu við Hverfisgötu hækki um 103 þús. kr. og verði 133 þús. kr. Liðurinn Náttúruverndarráð hækkar um 275 þús. kr. og verður 392 400 kr. Hér er um að ræða fjárveitingu til greiðslu kostnaðar við endurbætur á prestssetrinu að Skútustöðum.

Byggingarsjóður Þjóðarbókhlöðu hækkar um 2 millj. kr. og verður 12 millj. Þar er um að ræða yfirfærslu til B-hluta sem séð verður fyrir með lántöku.

Liðurinn Listir, framlög hækka í heild um 575 þús. kr. í 15 100 800 kr.

Liðurinn Óperustarfsemi. Þar er textanum breytt og liðurinn nefndur Íslenska óperan og hækkar um 300 þús. kr. Það eru 300 þús. kr. fyrir í fjárlagafrv. og gert verður ráð fyrir að af þessum 600 þús. kr. verði 300 þús. kr. rekstrarstyrkur, en 300 þús. kr. verði vegna stofnkostnaðar.

Myndlistarskólar, styrkur: Textanum verði breytt og heiti liðurinn Myndlistarskólar og námskeið og hækki um 220 þús. kr. í 820 þús. kr. Þar af eru 200 þús. kr. ætlaðar vegna flutnings Myndlistaskólans í Reykjavík í nýtt húsnæði. Liðurinn Listasöfn hækkar um 25 þús. kr. í 175 þús. kr. Listir og menningarmál almennt hækka um 30 þús. kr. í 250 þús. Hér er um að ræða lið sem menntmrn. ráðstafar.

Liðurinn Ýmis vísindaleg starfsemi. Þar hækkar Surtseyjarfélagið um 7000 kr., Íslensk málnefnd um 50 þús. kr. vegna lausráðins starfsmanns, Íslenska stærðfræðifélagið um 3000 kr. og Hið íslenska náttúrufræðifélag um 1000 kr.

Íþróttasjóður: Rekstrarstyrkir hækka um 35 þús. kr., verða 700 þús. kr., og framlag til byggingar íþróttamannvirkja hækkar um 1 millj. 117 þús. kr. og verður 10 millj. 117 þús. kr. Sundurliðun á einstök mannvirki kemur fram í brtt.

Liðurinn Æskulýðsmál hækkar í heild um 175 500 kr. í 1 703 500. Þar af hækkar Æskulýðsráð ríkisins um 16 þús. kr., Æskulýðssamband Íslands um 2 þús. kr., Ungmennasamband Íslands um 137 þús. kr., Bandalag ísl. skáta um 11 þús. kr., Bandalag ísl. skáta vegna Úlfljótsvatns um 2 þús. kr., Bandalag ísl. farfugla um 500 kr., Íslenskir ungtemplarar um 3 þús. kr., KFUM, starfsemi í Vatnaskógi um 2 þús. kr. og KFUK, starfsemi í Vindáshlíð um 2 þús. kr. Hér er fyrst og fremst um að ræða að hækka þessa liði til samræmis við breytingar á verðlagi.

Liðurinn Ýmis íþróttamál hækkar í heild um 473 þús. kr. Íþróttasamband Íslands hækkar um 400 þús. kr. Íþróttamál fatlaðra: Liðurinn hækkar um 50 þús. kr. í 250 þús. Alþjóðaskákmót, styrkir hækkar um 8 þús. kr. Gerð er tillaga um nýjan lið: Skákskólinn á Kirkjubæjarklaustri 15 þús. kr.

Liðurinn Ýmislegt í menntmrn. hækkar í heild um 1 millj. 82 þús. kr. Þar er um að ræða aðallega hækkanir á liðum til samræmis við verðlag. Náttúrugripasafn Akureyrar hækkar um 7 þús. kr., verður 27 þús. kr. Náttúrugripasafn Neskaupstaðar hækkar um 3 þús. kr., verður 12 bús. Náttúrugripasafn Vestmannaeyja hækkar um 6 þús. kr., verður 15 þús. kr. Reykholtsstaður hækkar um 40 þús. kr., verður 100 þús. kr. Geysir í Haukadal, umbætur hækka um 3 þús. kr., verður 10 þús. kr. Hús Guðmundar Böðvarssonar hækkar um 6 þús. kr., verður 21 þús. kr. Liðurinn Dýrasafn hækkar um 2 þús. kr., verður 4 þús. kr. Safnahús á Blönduósi hækkar um 2 þús. kr., verður 13 þús. kr. Safnahús á Sauðárkróki hækkar um 2000 kr., verður 13 þús. kr. Safnahús á Húsavík hækkar um 2000 kr., verður 13 þús. kr. Safnahús í Borgarnesi hækkar um 10 þús. kr. og verður 30 þús. kr. Og Safnastofnun Austurlands hækkar um 300 þús. kr., verður 400 þús. kr. Í till. nr. 28 á þskj. 161 varðandi þennan lið er prentvilla. Þar stendur 4 millj. kr., en á að vera 400 þús. kr. Svo rausnarleg er fjvn. ekki. — Bandalag ísl. skáta, hjálparsveitir: Liðurinn hækkar um 200 þús. kr. Dýraverndunarfélag Íslands hækkar um 2 þús. kr. Fuglaverndunarfélag Íslands hækkar um 200 þús. kr. Kvenfélagasamband Íslands hækkar um 60 þús. kr., verður 150 þús. kr., en á móti falla niður framlög til nokkurra landsfjórðungssambanda kvenna. Kvenréttindafélag Íslands hækkar um 3 þús. kr., verður 8 þús. kr., en eins og ég áðan sagði falla niður nokkrir liðir. Samband norðlenskra kvenna, 1000 kr., fellur niður, og Samband norðlenskra kvenna vegna námskeiða í heimilisgarðræki, 500 kr., fellur niður. Samband austfirskra kvenna: Liðurinn fellur niður, 1000 kr. Samband vestfirskra kvenna, 1000 kr., fellur niður. En í stað þeirra liða kemur þeim mun meiri hækkun á liðnum Kvenfélagasamband Íslands. Landakotsskóli: Rekstrarstyrkur hækkar um 50 þús. kr., verður 130 þús. kr. Hlíðardalsskóli: Rekstrarstyrkur hækkar um 200 þús. kr., verður 300 þús. kr. Samband ísl. náttúruverndarfélaga hækkar um 2 þús. kr., verður 5 þús. kr. Liðurinn Nemendaskipti hækkar um 5 þús. kr. og verður 13 þús. kr. Liðurinn Ýmis framlög hækkar um 100 þús. kr. og verður 400 þús. kr., en hér er um að ræða lið sem menntmrn. ráðstafar. Liðurinn Hljóðbókasafn hækkar um 140 þús. kr. og verður 220 þús. kr. Byggðasafn að Reykjum hækkar um 5 þús. kr., verður 16 þús. kr. Náttúrugripasafn á Selfossi hækkar um 4 þús. kr., verður 13 þús. kr.

Hjá utanrrn. er ekki um neinar hækkanir að ræða, heldur einungis breytingar á liðum innbyrðis. Í stað textans Alþjóðalandbúnaðarþróunarsjóðurinn, IFAO, 100 þús. kr. kemur Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, og verður 30 þús. kr. Á hinn bóginn hækkar liðurinn Alþjóðamatvælabirgðasjóðurinn, IEFR, í 100 þús. kr. úr 30 þús. kr., svo að hér er ekki um neina heildarhækkun að ræða.

Hjá landbrn. kemur nýr liður inn á Búnaðarfélag Íslands: Landþurrkun 166 þús. kr. Þessi liður var áður á landgræðsluáætlun, en færist nú til Búnaðarfélagsins og hækkar úr 125 þús. kr. í 166 þús. kr.

Rannsóknastofnun landbúnaðarins: Þar kemur inn nýr liður: Tilraunabú, óskipt 1.2 millj. kr. Þessi liður er í fjárlögum ársins 1981 900 þús. kr., en ekki í fjárlagafrv. fyrir árið 1982. Auk þess er lagt til að veittar verði 130 þús. kr. til að byggja bifreiða- og vélaskýli við Korpu.

Liðurinn Skógræki ríkisins hækkar um 200 þús. kr. í 904 þús. kr. Þessi hækkun kemur til í samhengi við endurskoðun á landgræðslu- og landverndaráætlun fyrir næstu 5 ár.

Næsta till. er einnig í samhengi við endurskoðun landgræðslu- og landverndaráætlunar, þ. e. Landgræðsla ríkisins. Þar hækkar liðurinn samtals um 1 millj. 540 þús. kr. Laun hækka um 140 þús. kr. þar sem gert er ráð fyrir ráðningu gróðureftirlitsmanns, en gjaldfallinn stofnkostnaður hækkar um 1.4 millj. kr. Við endurskoðun landgræðslu- og landverndaráætlunar fyrir næstu 5 ár, sem sérstök nefnd, sem þingflokkarnir tilnefndu menn í, hefur unnið að, varð samkomulag um að auk þess að hækka fjárveitingu til landgræðslu- og landverndaráætlunar um 33% frá fjárlögum ársins í ár, en á það skortir í frv., væru framlög til Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins einnig færð til jafngildis við framlög til þessara stofnana eins og þau voru áður en fyrri landgræðsluáætlun kom til. Niðurstaðan varð sú, að lagt er til að framlög til Skógræktar ríkisins hækki um 200 þús. kr., eins og ég áðan nefndi, og til Landgræðslu ríkisins um 1 millj. 540 þús. kr.

Liðurinn Yfirdýralæknir, dýralæknisbústaðir, byggingarframkvæmdir hækkar um 220 þús. kr., verður 750 þús. kr.

Eins og ég áðan sagði hefur nefnd, sem hefur fjallað um endurskoðun á landgræðslu- og landverndaráætlun, fjallað um það mál. Í samræmi við tillögur hennar er lagt til að liðurinn Landgræðslu- og landverndaráætlun hækki um 1 millj. 932 þús. kr., en þessar breytingar fela í sér að framlag til áætlunarinnar hækkar um 33% frá núgildandi fjárlögum, eins og ég áðan sagði, og þar að auki hækki framlag til fyrirhleðslna sérstaklega um 700 þús. kr. og inn komi nýr liður: Sjóvarnargarðar 500 þús. kr. Er það í samræmi við þær tillögur sem nefnd hefur unnið að og nú hafa verið lagðar fram sem þskj. á Alþingi varðandi nýja landgræðslu- og landverndaráætlun.

Bændaskólinn á Hvanneyri: Það er gerð till. um að liðurinn Gjaldfærður stofnkostnaður hækki um 250 þús. kr. til þess að hefja framkvæmdir við byggingu rannsóknarhúss. Liðurinn Garðyrkjuskóli íslands, viðhald hækki um 70 þús. kr., en sértekjur lækki hins vegar um 300 þús. kr. Heildarkostnaðarauki af þessu er því 370 þús. kr.

Sjútvrn.: Þar er lagt til að framlag til Hafrannsóknastofnunar hækki samtals um 681 þús. kr. á þann veg, að laun lækka um 1 215 100 kr., önnur rekstrargjöld hækka um 636 100 kr. og gjaldfærður stofnkostnaður hækkar um 1 millj. 260 þús. kr. Hér er sú brtt. gerð, að í stað þess að Hafþór verði gerður út í 9 mánuði verði skipið gert út í 6 mánuði á næsta ári. Þá verða önnur rekstrargjöld hækkuð vegna hækkana á olíuverði. Framlagið til stofnunarinnar hækkar þá í heild um 681 þús. kr. vegna þess að jafnframt er lagt til að keyptur verið sérstakur tækjabúnaður til magnmælinga á stofnstærð uppsjávarfisks sem kostar 1 millj. 260 þús. kr.

Þá er lagt til að gerð verði breyting á texta sem er svo orðaður í fjárlagafrv.: Fiskleit, vinnslutilraunir og markaðsöflun. Í staðinn komi: Fiskleit, markaðsöflun og tilraunir í útgerð og fiskvinnslu. Hér er gert ráð fyrir heldur rýmri heimildum til notkunar á þessu fjármagni.

Liðurinn Ýmislegt á sviði sjávarútvegs: Lagt er til að framlagið hækki um 50 þús. kr. Þar er um að ræða nýjan lið: Tækninámskeið, en það eru námskeið um notkun örtölva í fjarskipta- og fiskleitartækjum.

Skrifstofa Rannsóknastofnana atvinnuveganna. Sértekjur eru lækkaðar um 300 þús. kr. í 200 þús. kr., en hér er um að ræða leiðréttingu á villu í fjárlagafrv.

Liðurinn Almannavarnir ríkisins hækkar um 422 þús. kr. Hér er um að ræða útgjöld við uppsetningu fjarskipta- og viðvörunarkerfis fyrir Vestfirði, Breiðafjörð og Austfirði.

Sjómælingar Íslands: Laun eru hækkuð um 111 þús. kr. vegna lausráðningar starfsmanns til að vinna að gerð fiskikorta í samræmi við samþykkta þáltill. frá Alþingi.

Fangamál: Ýmis kostnaður hækkar um 480 þús. kr. og fer á tvo liði, annars vegar liðinn Fangahjálp, sem hækkar um 154 þús. kr. í 200 þús. kr., og til nýs liðar, sem nefndur er Vistun kvenfanga, 326 þús. kr.

Nokkrir liðir, sem heyra undir þjóðkirkjuna, eru hækkaðir. Lagt er til að liðurinn Alþjóðasamvinna hækki um 78 þús. kr., Skálholtsstaður hækki um 50 þús. kr., verði 150 þús. kr., Hallgrímskirkja hækki um 500 þús. kr., verði 750 þús. kr., Útgáfustarfsemi hækki um 5 þús. kr., verði 10 þús. kr., liðurinn Hólar í Hjaltadal hækki um 20 þús. kr., verði 120 þús. kr., það er vegna hitaveituframkvæmda, liðurinn Embættisbústaðir, viðhald hækki um 1 millj. 739 þús. kr. og verði 4 millj. kr. og að endingu að liðurinn Útihús á prestssetrum hækki um 36 þús. kr. og verði 100 þús. kr.

Þá er komið að félmrn. Þar er lagt til að framlag til Erfðafjársjóðs hækki um 832 þús. kr. vegna hækkunar erfðafjárskatts í nýrri tekjuáætlun.

Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra: Lagt er til að liðurinn hækki um 1 millj. 410 þús. kr. og hækka þá framlög frá árinu í ár um 40%, en í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að þau hækkuðu um 33%.

Framkvæmd laga um aðstoð við þroskahefta: Gert er ráð fyrir að hækka þann lið um 1 millj. kr. og hann verði 6 millj. 174 þús. kr.

Liðurinn Vinnumál: Kjararannsóknarnefnd hækki um 140 þús. kr. vegna stofnkostnaðar við sérstaka könnun á kjörum sjómanna.

Liðurinn Ýmis framlög: Þar hækki einstök atriði sem hér segir: Félag heyrnarlausra hækki um 70 þús. kr. til þess að gera félaginu unnt að ráða prest í hálft starf. Heyrnarhjálp hækkar um 13 þús. kr. Geðverndarfélag Íslands hækkar um 50 500 kr., en niður fellur byggingarstyrkur 35 þús. kr. Mæðrastyrksnefnd hækkar um 4 þús. kr. í 14 þús. kr. Rauði kross Íslands hækkar um 6 þús. kr. SÍBS hækkar um 13 þús. kr. Sjálfsbjörg, landsamband fatlaðra hækkar um 215 þús. kr., en niður fellur liður til byggingarframkvæmda 15 þús. kr. Slysavarnarfélag Íslands hækkar um 390 þús. kr. í 1 millj. 360 þús. kr. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hækkar um 80 þús. kr. í 308 þús. kr. Og liðurinn Sjómannastofur hækkar um 42 þús. kr. í 148 þús. kr., en fjvn. mun síðan skipta þessari fjárhæð á einstakar sjómannastofur. Liðurinn Öryrkjabandalag Íslands hækkar um 24 þús. kr. í 84 þús. kr. og liðurinn Ferlinefnd fatlaðra hækkar um 15 þús kr. í 25 þús. kr. Blindrafélagið hækkar um 60 þús. kr. í 150 þús. kr. Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra hækkar um 2500 kr. í 10 þús. kr. Þroskahjálp, landssamtök hækkar um 19 þús. kr. í 50 þús. kr. Foreldrafélag barna með sérþarfir hækkar um 4 þús. kr. í 14 þús. kr. Náttúrulækningafélag Íslands hækkar um 20 þús. kr. í 70 þús. kr. Blindravinafélagið hækkar um 5 þús. kr. í 17 þús. kr. Og liðurinn Alþjóðaár fatlaðra hækkar um 100 þús. kr. í 200 þús. kr., en þó að alþjóðaári fatlaðra ljúki um næstu áramót er hér verið að veita fé til þess að hægt verði að fara út á land með sýningu sem haldin var hér í Reykjavík í ár. Samtök aldraðra hækka um 140 þús. kr. í 940 þús. kr. Og gerð er till. um nýjan lið: Gigtarfélagið 50 þús. kr., og annan nýjan lið: Íþróttasamband fatlaðra vegna endurhæfingar 70 þús. kr., en hér er um að ræða útgjöld vegna starfsmanns í hálfu starfi.

Hjá heilbr.- og trmrn. er gert ráð fyrir að hækka framlög til Tryggingastofnunar ríkisins um 66 millj. 900 þús. kr., en hér er um að ræða endurmat á útgjöldum lífeyristrygginga, hækkun um 1.6 millj., og útgjöldum sjúkratrygginga um 65.3 millj. kr. í samræmi við reynslutölur í ár. Liðurinn Ríkisspítalar, skrifstofa: Önnur rekstrargjöld hækka um 50 þús. kr. Rannsóknastofa háskólans: Önnur rekstrargjöld hækka um 200 þús. kr. Blóðbankinn: Önnur rekstrargjöld hækka um 200 þús. kr.

Liðurinn Heyrnar- og talmeinastöð: Laun hækka um 150 þús. kr. og önnur rekstrargjöld um 750 þús. kr. í 2 millj. 920 þús. kr., en þörf fyrir þjónustu þessarar stofnunar hefur reynst verulega meiri en gert var ráð fyrir við samningu fjárlagafrv.

Landspítalinn: Önnur rekstrargjöld hækka um 3 millj. kr. og gjaldfærður stofnkostnaður hækkar um 685 þús. kr., en hér er um að ræða hækkun á framlagi til byggingar dagheimilis Sumargjafar. Að öðru leyti bíða málefni Landspítalans, byggingarframkvæmdir, 3. umr. Liðurinn Landspítalinn, kvennadeild: Önnur rekstrargjöld hækka um 2.4 millj. kr. Kleppsspítalinn: Önnur rekstrargjöld hækka um 1 millj. 240 þús. kr. Vífilsstaðaspítali: Önnur rekstrargjöld hækka um 460 þús. kr. Kristneshæli: Önnur rekstrargjöld hækka um 700 þús. kr. Kópavogshæli: Önnur rekstrargjöld hækka um 400 þús. kr. Vistheimilið að Gunnarsholti: Þar hækka önnur rekstrargjöld um 350 þús. kr.

Þá er liðurinn Sjúkrahús og læknisbústaðir. Þar er gert ráð fyrir að liðurinn hækki í heild um 11 millj. 390 þús. kr. í 84.141.200 kr. Þar af hækkar liðurinn Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða annarra en ríkissjúkrahúsa um 10.3 millj. kr., en sundurliðun kemur fram í brtt. Í sambandi við þessa afgreiðslu vil ég taka fram, að gert er ráð fyrir að við 3. umr. komi fram till. frá fjvn. um sérstaka heimild þar sem ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast lán sem Akureyrarbær kynni að taka vegna byggingarframkvæmda við fjórðungssjúkrahúsið þar. Enn fremur er í sambandi við framkvæmdir við sjúkrahúsið á Ísafirði við það miðað af hálfu fjvn., að á næsta ári verði heimilað að panta röntgentæki í sjúkrahúsið þannig að það tæki komi til greiðslu á árinu 1983. Framlag til sjúkrahúss Franciscusarreglunnar í Stykkishólmi hækkar um 350 þús. kr. í 1.5 millj. kr. DAS, Hrafnista, Hafnarfirði, byggingarstyrkur hækkar um 520 þús. í 1 millj. 820 þús. kr. Hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi hækkar um 220 þús. kr. í 1 millj. kr.

Ýmis heilbrigðismál: Þar er lagt til að tekinn verði upp nýr liður: Hjarta- og æðaverndarfélag Reykjavíkur, tækjakaup 250 þús. kr. Liðurinn Hjartavernd hækkar um 400 þús. kr. og Krabbameinsfélag Íslands um 500 þús. kr. Liðurinn Kostnaður samkv. farsótta- og sóttvarnarlögum og lögum um ónæmisaðgerðir hækkar um 200 þús. kr. vegna berklavarna. Í fjárlagafrv. hefur verið felld niður fjárveiting til embættis berklayfirlæknis, en talið er óráðlegt annað en ætla fé í einhverjum mæli til að sinna berklavörnum.

Liðurinn Sjúkraflug hækkar úr 300 þús. kr. í 450 þús. kr. og skiptist þannig, að veitt er til flugfélagsins Arna, Ísafirði 150 þús. kr., til Flugfélags Norðurlands 100 þús. kr., til Flugfélags Austurlands 120 þús. kr., til Eyjaflugs 50 þús. kr. og óráðstafað er af liðnum 30 þús. kr.

Liðurinn Félag astmasjúklinga hækkar um 1000 kr. Liðurinn Exem- og psoriasissjúklingar hækkar um 1000 kr. Tekinn er upp nýr liður: Vegna brjóstkrabbaleitar 70 þús. kr. Enn fremur er tekinn upp að nýju liður sem heitir Starfslaun Ófeigs J. Ófeigssonar 50 þús. kr., en þessi liður hefur verið á fjárl., en féll niður í frv.

Liðurinn Ýmis framlög hækkar um 30 þús. kr. í 130 þús. og liðurinn Mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum, sem er 500 þús. kr., hækkar um 1 millj., en gert er ráð fyrir að ákveðin heimild varðandi þetta mál í 6. gr. falli niður og mun það þá koma fram við 3. umr.

Gæsluvistarsjóður: Viðfangsefni sem heyra til Gæsluvistarsjóði er lagt til að hækki sem hér segir: Bláa bandið um 7 þús. kr. í 24 þús. kr., Vernd, félagssamtök um 6 þús. kr. í 21 þús. kr. og Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið hækki um 40 þús. kr., en hér er einungis verið að hækka þessa liði til samræmis við verðlagsbreytingar.

Liðurinn Bindindisstarfsemi: Þar er lagt til að tekinn verði upp nýr liður: Stórstúka Íslands 150 þús. kr., en þessi liður féll niður við gerð fjárlagafrv.

Á liðnum fjmrn. eru aðeins brtt. um uppbætur á lífeyri. Það eru tvær tillögur. Önnur er um uppbætur á lífeyri, sem hækkar um 170 þús. kr., vegna lífeyris til starfsmanna stjórnmálaflokkanna. Liðurinn Styrktarfé og eftirlaun, sem er í tveimur liðum, hækki í heild um 308 700 kr., en þessi liður er óbreyttur í fjárlagafrv. frá því sem hann er í fjárl. í ár.

Samgrn: Vegagerð ríkisins: Þar er gert ráð fyrir að framlag til einstaklinga og samtaka hækki um 70 þús. kr., en sá liður er óbreyttur í fjárlagafrv. frá fjárlögum. Hér er um að ræða styrk til að halda uppi gistingu og byggð og fjvn. hefur skipt þessum lið á einstaka aðila.

Vita- og hafnamálastofnun, aðalskrifstofa: Gjaldfallinn stofnkostnaður er hækkaður um 450 þús. kr., en hér er um að ræða fjárveitingu til að endurbyggja og breyta þaki á húseign stofnunarinnar við Seljaveg.

Hafnarmál: Liðurinn Hafnarmannvirki og lendingarbætur hækkar um 8 millj. kr. í 48 millj. 850 þús. kr. Liðurinn Ferjubryggjur hækkar um 585 þús. kr., verður 1.3 millj. kr. Hér er annars vegar um að ræða lánagreiðslur 1 millj. kr. og viðhaldskostnað 300 þús. kr. Hafnarbótasjóður: Liðurinn hækkar um 885 þús. kr. í framhaldi af hækkun á liðnum Hafnarmannvirki og lendingarbætur. Sjóvarnargarðar: Þar hækkar liðurinn um 80 þús. kr. og verður 835 þús. kr., en auk þess eru á liðnum Landgræðsla og landverndaráætlun 500 þús. kr. til sjóvarnargarða. Liðurinn Landshöfn Keflavík Njarðvík, framkvæmdir hækkar um 500 þús. kr. í 2 millj. og hafnarframkvæmdir vegna skipaiðnaðar hækka um 500 þús. kr. í 15.5 millj. kr.

Hjá Siglingamálastofnun ríkisins hækka laun um 121300 kr., önnur rekstrargjöld um 280 þús. kr. og gjaldfærður stofnkostnaður um 800 þús. kr. Það er vegna flutnings stofnunarinnar í nýtt hús og til tækjakaupa.

Sjóslysanefnd: Yfirfærslur hækka um 20 þús. kr. Það er til kynningar á notkun öryggisnets. Þessi liður var einnig í fjárlögum ársins í ár.

Framlag til framkvæmda við flugvelli hækkar um 2 millj. 24 þús. kr. í 33.1 millj. kr., en skipting á einstaka framkvæmdaþætti kemur fram í brtt. nefndarinnar.

Flugbjörgunarsveitir: Gerð er till. um að liðurinn hækki um 130 þús. kr. í 200 þús. kr. vegna lögboðinnar endurnýjunar á fjarskiptabúnaði.

Landmælingar Íslands: Gert er ráð fyrir að liðurinn hækki um 374 þús. kr., gjaldfærður stofnkostnaður. Þar er um að ræða tæki til kortagerðar.

Iðnrn.: Iðntæknistofnun Íslands: Þar er gert ráð fyrir að heildarhækkun verði 350 þús. kr., þ. e. laun hækki um 300 þús. kr, og önnur rekstrargjöld um 200 þús. kr., en á móti komi hækkun sértekna um 150 þús. kr. Hér er um að ræða framlag vegna verkefna ráðinna starfsmanna við trétækni- og trefjaiðnað.

Liðurinn Jöfnunargjald: Lagt er til að liðurinn hækki um 3 millj. 66 þús. kr. og nemur þessi útgjaldaliður þá 2/3 hlutum af innkomnu jöfnunargjaldi.

Liðurinn Iðnráð og önnur starfsemi á sviði iðnaðar: Gert er ráð fyrir að liðurinn orðist þannig að hér sé aðeins nefnt Iðnráð, en ekki önnur starfsemi á sviði iðnaðar. Þessi upphæð er varla til skiptanna, en liðurinn hækki um 35 þús. kr. og verði 70 þús. kr. Enn fremur er lagt til að liðurinn Byggingarþjónustan hækki um 70 þús. kr. og verði 200 þús. kr.

Orkustofnun: Þar er gert ráð fyrir að liðurinn hækki um 500 þús. kr., önnur rekstrargjöld vegna húsaleigukostnaðar. Þessi upphæð kemur þá aftur til tekna á liðnum Ýmsar fasteignir ríkissjóðs. Enn fremur hækki önnur rekstrargjöld um 3.5 millj. kr. Þetta er heildarhækkun um 4 millj. kr., annars vegar vegna þessa húsaleigukostnaðar og síðan 3.5 millj. kr. til rannsókna á háhitasvæðum á Reykjanesskaga og Þeistareykjum.

Þá er lagt til að tekinn verði upp nýr liður: Rafmagnsveitur ríkisins. 7 millj. 750 þús. kr. Sú breyting er gerð á framlagi ríkissjóðs til Rafmagnsveitna ríkisins vegna félagslegs þáttar í framkvæmdum, að greiðsla á 5 millj. kr. vöxtum og afborgunum af lánum verði felld niður, en í staðinn kemur beint framlag til Rafmagnsveitnanna, 7 millj. 750 þús. kr., þannig að heildarhækkunin verði 2 millj. 750 þús. kr. og í samræmi við það verði breyting á liðnum Ýmis lán ríkissjóðs hjá fjárlaga- og hagsýslustofnun, vextir lækki um 1.5 millj. kr. og lánahreyfingar út lækki um 3.5 millj. kr.

Á þskj. 182 flytur meiri hl. fjvn. brtt. um fjárhagsáætlanir B-hluta fyrirtækja sem hafa verið endurskoðaðar síðan fjárlagafrv. var lagt fram.

Ný rekstrar- og fjárfestingaráætlun Ríkisútvarps, hljóðvarps og sjónvarps, byggist á áætluðu verðlagi 1982 í samræmi við forsendur fjárlagafrv. Hækkun á gjaldskrá fyrir auglýsingar hjá stofnuninni á árinu 1981 hefur skilað verulegri raungildisaukningu tekna. Rekstraráætlun fyrir árið 1982 miðast við að gjaldskrá fyrir auglýsingar hækki um 18% 1. febr., 18%. 1. júní og 18% 1. nóv. og að afnotagjald útvarps og sjónvarps hækki um 15% á fyrri árshelmingi og aftur um 15% á síðari árshelmingi.

Rekstraráætlun fyrir Áburðarverksmiðju ríkisins hefur verið endurskoðuð. Útgjaldaáætlun fyrirtækisins hefur með tilliti til kaupa á aðföngum verið hækkuð í samræmi við verðlags- og gengisforsendur og aðrir liðir breytast á hliðstæðan hátt.

Í endurskoðaðri áætlun um fjárfestingu Pósts og síma er gert ráð fyrir að almenn fjárfesting nemi alls 63 millj. kr. og á því byggt, að samþykkt verði í fjárlögum heimild til að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af sjálfvirkum símstöðvum. Mun till. um slíka heimild verða flutt við 3. umr. Fjárfesting við lagningu sjálfvirks síma í sveitum samkv. lögum nr. 32/1981 er áætluð 34.2 millj. kr. á næsta ári. Sú útgjaldatala er miðuð við eftirgjöf aðflutningsgjalda og söluskatts, eins og gert er ráð fyrir í lögunum. Samkvæmt þessu er um að ræða mjög verulega aukningu framkvæmda Pósts og síma á næsta ári. Lántökur, vörukaupalán til framkvæmda, hækka um 4.2 millj. kr. og nema alls 41.2 millj. kr. Tekjuáætlun fyrirtækisins er við það miðuð að gjaldskrá hækki um 10% 1. febr., 6% 1. maí, 5% 1. ágúst, og 5% 1. nóv.

Í brtt. meiri hl. fjvn. varðandi Skipaútgerð ríkisins er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til fyrirtækisins verði óbreytt frá því sem greinir í fjárlagafrv. eða 23 millj. 250 þús. kr. Gjalda- og tekjuáætlun hefur verið endurskoðuð og er áætlunin sett fram á verðlagi næsta árs í samræmi við forsendur fjárlagafrv. og gert ráð fyrir eftirtöldum gjaldskrárhækkunum á árinu 1982: 9% 1. febr., 5% 1. maí, 4% 1. ágúst og 3% 1. nóv.

Þá hefur rekstrar- og fjárfestingaráætlun Rafmagnsveitna ríkisins verið endurskoðuð miðað við áætlað verðlag næsta árs í samræmi við forsendur fjárlagafrv. Áætluð framlög úr ríkissjóði nema um 7 millj. 750 þús. kr. og er ætlað til þess að standa undir afborgunum og vöxtum tveggja tiltekinna lána sem fyrirtækið hefur tekið. Á árinu 1981 hefur myndast verulegur rekstrarhalli og er í rekstraráætlun fyrir næsta ár gert ráð fyrir 15.9% hækkun gjaldskrár fyrirtækisins um næstkomandi áramót og síðan 7% hækkun 1. febr., 6% 1. maí, 5% 1. ágúst og 3% hækkun 1. nóv.

Þá flytur meiri hl. fjvn. einnig brtt. við tekjuhlið fjárlagafrv. í samræmi við endurmat Þjóðhagsstofnunar á tekjuáætlun frv. Endurskoðun Þjóðhagsstofnunar er gerð á grundvelli innheimtutalna fyrstu tíu mánuði ársins 1981, en meginforsendur um breytingar verðlags, launa, gengis og þjóðarútgjalda eru hins vegar óbreyttar frá fjárlagafrv. Samkvæmt þessari áætlun er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs árið 1982 hækki um 149 millj. kr. frá áætlun fjárlagafrv. eða úr 7 milljörðum 799.3 millj. kr. í 7 milljarða 948.3 millj. kr. Helstu breytingar eru: Aðflutningsgjöld hækka um 47.4 millj. kr., innflutningsgjald af bensíni hækkar um 14.2 millj., söluskattur og orkujöfnunargjald um 27.5%, rekstrarhagnaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins um 10 millj., stimpilgjald um 17 millj., gjald á ferðalög til útlanda um 10 millj. og annað um 22.9 millj. Þjóðhagsstofnun tekur fram að ástæður til þessara hækkana megi fyrst og fremst rekja til gleggri vitneskju um innheimtuþróun tekna á árinu 1981, en meginforsendur eru óbreyttar.

Verði brtt. þær, sem fjvn. öll og meiri hl. fjvn. flytja við þessa umr., samþykktar hækka rekstrarútgjöld ríkissjóðs um 175 279 200 kr. og verða 7 823 488 200 kr., en tekjur 7 milljarðar 948 millj. 300 þús. kr., eins og ég áður sagði.