14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

1. mál, fjárlög 1982

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég er einn þeirra þriggja sem standa að nál. 1. minni hl. fjvn. og get því farið fljótt yfir sögu varðandi það nál., enda hefur hv. þm. Lárus Jónsson gert glögga grein fyrir því sem í því nál. stendur. Ég tel samt ástæðu til þess við 2. umr. fjárlaga að gera grein fyrir nokkrum sjónarmiðum, sem hafa leitað á hugann í starfi í hv. fjvn., og vík ég þá fyrst að forsendum fjárlagafrv.

Verðbólgumarkmiðin, sem ríkisstj. setti fram í stjórnarsáttmálanum, voru 10–15% á árinu 1982, sem jafngildir því að verðbólgan færi niður í sama stig og í nágranna- og viðskiptalöndunum. Í fjárlagafrv. er markmiðið greinilega rýmkað og þar er reiknað með 25% verðbólgu á árinu 1982. Spá Þjóðhagsstofnunar er hins vegar á þá leið, að verðbólgan verði a. m. k. 55% á næsta ári nema ríkisstj. efni til efnahagsaðgerða sem gætu breytt þessari spá. Af þessari ástæðu er ekkert að marka þetta fjárlagafrv. nema viðhlítandi efnahagsaðgerðir verði gerðar, og þess vegna er eðlilegt að spurt sé í þessum umr. strax í upphafi hvort ríkisstj. hafi ákveðið slíkar aðgerðir og hvenær vænta megi að þær verði lagðar fyrir Alþingi og hvernig skilja beri orð hæstv. landbrh. þegar hann tilkynnti hér á hinu háa Alþingi að till. hæstv. ríkisstj. yrðu kynntar þingi og þjóð.

Undanfarna daga hafa hæstv. viðskrh. og hæstv. félmrh. innbyrðis deilt um það í blöðum og útvarpi, í hverju slíkar aðgerðir eigi að vera fólgnar, og eins um hitt, hvort þeir hafi staðið í vegi hvor fyrir öðrum þegar rætt hefur verið um efnahagsaðgerðir innan hæstv. ríkisstj. fyrr á þessu ári. Í þessum ágreiningi á milli ráðh. Alþb. og Framsfl. hefur komið fram, að hæstv. viðskrh. vill hefja svokallaða niðurtalningu eftir áramótin, þ. á m. niðurtalningu á verðbótum launa, og hann kennir hv. Alþb.-ráðh. um að hafa stöðvað niðurtalninguna á miðju yfirstandandi ári. Hæstv. félmrh. Svavar Gestsson er annarrar skoðunar. Hann sendir hæstv. viðskrh. og öðrum framsóknarmönnum tóninn og segir að ásakanir hæstv. viðskrh. eigi við engin rök að styðjast. Þannig er jólakærleikurinn að komast í hámark hjá hæstv. ríkisstj.

Hæstv. félmrh. bendir á að miðstjórn Alþb. hafi lýst yfir á fundi sínum, sem haldinn var nú um helgina, að efnahagsaðgerðir, sem snerti við kjarasamningum, komi ekki til greina að þessu sinni. Þessi yfirlýsing er ákaflega merkileg með tillíti til þess, að Alþb. hefur tíu sinnum — ég endurtek: hvorki meira né minna en tíu sinnum á yfirstandandi valdatímabili Alþb. frá 1978 hróflað við kjarasamningum. Síðast þegar ríkisstj. efndi til stórfelldra efnahagsaðgerða, þ. e. um síðustu áramót, þar sem skorin voru niður 7–9% af launum frá 1. mars, voru slíkar aðgerðir kallaðar „slétt skipti“.

Eins og sést á þessu er úr vöndu að ráða því að ef verðbólgan á að nást úr 55% á næsta ári í 25%, eins og frv. gerir ráð fyrir, verður að draga úr eftirspurninni. Efnahagssérfræðingar hafa látið þá skoðun í ljós, að slíkt verði ekki gert án þess að skerða ráðstöfunartekjur almennings annaðhvort með skattahækkunum eða launalækkunum. Í þessu sambandi er rétt að benda á að aðeins sumar skattahækkanir hafa ekki áhrif til verðlagshækkana, þ. e. hækkanir beinna skatta. Erfitt virðist þó fyrir hæstv. ríkisstj. að hrófla við beinu sköttunum umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., en þar er skattvísitalan enn í 150 stigum en þyrfti líklega að vera í 152 stigum ef skattbyrðin á ekki að hækka milli áranna 1981 og 1982.

Í öðru lagi er það augljóst, að bein launalækkun, sem kölluð var „kauprán“ árið 1978, en hlaut við upphaf þessa árs nýtt og fallegt nafn, þ. e. „slétt skipti“, og kemur ekki til greina að álíti Alþb., eins og áður sagði. Í þessu felst stefnubreyting Alþb., sem hefur haldið því fram og það er í raun inntak hugtaksins „slétt skipti“, að lægri nafnlaun eða peningalaun, eins og Þjóðviljinn kallar launin, leiði til minni verðbólgu án þess að kaupmátturinn skerðist, en það sé hann sem sé aðalatriðið.

Af því, sem hér hefur verið talið, sést best að mikill ágreiningur virðist vera innan hæstv. ríkisstj. um þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru við upphaf næsta árs ef verðbólgustigið á að fara niður í það sem frv. gerir ráð fyrir, og er þá ekki minnst á verðbólgustig stjórnarsáttmálans, enda virðist það plagg vera lítt til þess fallið að veifa því á hinu háa Alþingi eða meðal kjósenda eins og sakir standa.

Það er athyglisvert, að ágreiningur innan hæstv. ríkisstj. virðist einnig taka til fiskverðsákvörðunar um áramótin og síðast í morgun, — ég ætti kannske heldur að segja í gærmorgun því að klukkan er nú farin að ganga tvö — lýsti Svavar Gestsson, hæstv. félmrh., yfir að hægt væri að ákveða fiskverð óbreytt, en samt að láta sjómenn hafa 17.5% kjarabætur með því að taka olíugjald og stofnfjársjóðinn frá útgerðinni og færa hann til sjómanna. Slíkar og þvílíkar tillögur, sem koma frá ráðh., sýna glöggt hve lítinn skilning ráðamenn þjóðarinnar hafa á atvinnurekstri um þessar mundir.

Rétt er að minna á, að olíugjaldið var hækkað úr 2.5% í 7.5% af núv. ríkisstj. Fiskverð á erlendum mörkuðum hefur hækkað um 42% á yfirstandandi ári og olían hefur hækkað um 60%. Ef ætlun hæstv. ráðh. er að greiða 7.5% til útgerðarinnar úr ríkissjóði er rétt að það komi fram að það hefði kostað ríkissjóð 150 millj. á yfirstandandi ári og ef sömu aðferð hefði verið beitt við stofnfjársjóðinn hefði slíkt kostað 200 millj. á sama tíma, en það mun jafngilda 500 nýjum millj. á næsta ári. Þessar tölur sýna svo ekki verður um villst hvers konar ráðherrarugl er hér á ferðinni, en þetta gefur hins vegar tilefni til þess, að hæstv. fjmrh. sé spurður að því til hvers eigi að nota þær 140 millj. kr. sem teknar eru frá í fjárlagafrv. til efnahagsaðgerða. Hafi ríkisstj. einhverja hugmynd um það eða hafi hún sett sér eitthvert mark í þeim efnum er full ástæða til að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að koma hér við lok þessarar umr. og gera hv. Alþingi grein fyrir skoðun sinni og skoðun hæstv. ríkisstj. í þeim efnum. En ég tel, eins og ástandið er á kærleiksheimili hæstv. ríkisstj., að honum vefjist tunga um tönn, því að eins og ég hef lýst áður í minni ræðu koma þeir sér illa saman um hvað gerst hefur á liðnum tímum, hvað þá muni gerast á komandi tíð, hæstv. viðskrh. og hæstv. félmrh., sem eru á hverjum morgni í útvarpsþáttum til að skemmta almenningi með mismunandi einkennilegum viðhorfum frá stjórnarheimilinu.

Þá sný ég mér næst að nýjum aðferðum við gerð fjárlaga.

Við 2. umr. fjárlaga undanfarin tvö ár hef ég rætt nokkuð nýjar aðgerðir við gerð fjárlaga. sjálfsagt hafa þær ræður farið fyrir ofan garð og neðan hjá hv. þm., en nýlega var samt á hinu háa Alþingi rifjuð upp hugmyndin um svokallaða „núllgrunnsáætlanagerð“ og „sólseturslöggjöf“. Reyndar gerðist það af sérkennilegu tilefni því að þessar hugmyndir voru teknar upp í ræðu formanns þingflokks Alþb. sem sérstök dæmi þess, að bandarísk hugarfarsmengun ætti sér stað á Íslandi og að henni væri unnið með skipulegum hætti á vegum Menningarstofnunar Bandaríkjanna á Íslandi.

Í fyrsta lagi skal það tekið fram, að hv. fjvn. samþykkti á s. l. ári samhljóða að gera tilraun með núllgrunnsáætlanagerð. Í samráði við fjárlaga- og hagsýslustofnun var efnt til þessarar tilraunar í samstarfi við Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins. Enn hafa ekki fengist haldbærar niðurstöður né heldur hefur verið gefin skýrsla til hv. fjvn. um þetta efni, en vonandi er hennar ekki langt að bíða. Það var að sjálfsögðu hugmyndin með þessari tilraun að kanna hvort hægt væri að beita nýjum aðferðum við fjárlagagerð. Ef niðurstaðan verður að slíkt sé hægt er það staðfesting á því að tilraunin hafi verið þess virði að til hennar var stofnað.

Í öðru lagi hefur verið lítið rætt um „sólsetursaðferðina“ eða „sólseturslöggjöfina“ svokölluðu, en í henni felst að gert er ráð fyrir að lögbundin verkefni taki aðeins ákveðinn tíma og falli síðan niður, t. d. eftir 4–5 ár, og komi þá til endurskoðunar löggjafans. Það er þó glætu í þessu máli að sjá því að í einu stjórnarfrv., þ. e. frv. um iðnráðgjafa, mun þessi aðferð vera notuð. Er það þakkarvert og vissulega athyglisvert í þokkabót að ráðh. úr þingflokki hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar skuli ríða á vaðið með þessa nýjung sem formaður þingflokks Alþb. telur vera dæmi um bandaríska hugarfarsmengun.

Í fyrsta tölublaði Fjármálatíðinda árið 1981 birtist grein eftir Kirstínu Pálsdóttur Flygenring um áætlanagerð frá núllgrunni. Grein þessi er að stofni til prófritgerð Kirstínar og er full ástæða til að þm. kynni sér einfalda núllgrunnstækni, en víkur síðan að „sólarlagsaðferðinni“ og fleiri atriðum sem til úrbóta eru. Ég hygg ómaksins vert að lesa smákafla úr þessari ritgerð við afgreiðslu fjárlaga og hefst hér lesturinn, með leyfi forseta: „Bandaríkjamenn hafa löngum verið hugkvæmir á sviði áætlanagerðar. Sólarlagsaðferðin er ein þeirra aðferða, sem fram hafa komið þar vestra, og á hún ýmislegt skylt við núllgrunnstækni.

Þessi aðferð hefur mest verið notuð innan opinbera geirans. Hún felur í stuttu máli í sér að veita má fé til ákveðinna verkefna tiltekinn árafjölda — oft á tíðum 5–6 ár. Eftir það er árangurinn metinn og tekin ákvörðun um, hvort halda skuli áfram fjárveitingu. Þyki árangurinn minni en ætlast var til, „gengur sólin til viðar“, þ. e. verkefnið er lagt niður. Annars er fjárveitingaleyfið framlengt um önnur 6 ár.

Hugsanlega gætu Íslendingar beitt svipuðum aðferðum við hin illræmdu lögbundnu framlög.“

Í næsta kafla, sem heitir: Regluleg endurskoðun grunnsins, segir Kirstín, með leyfi forseta:

„Aðrar hugmyndir ganga enn lengra en sólarlagsaðferðin. Samkv. þeim ber að endurskoða allan fjárlagagrunninn með reglubundnu millibili. Þess á milli á að beita hefðbundnum áætlunaraðferðum. Þessi endurskoðun þarf ekki að gerast öll samtímis og má fara misört fram, allt eftir eðli fjárveitingar.

Þetta er nokkurs konar sameining á núllgrunnstækni og hefðbundnum aðferðum. Ætti þetta að kalla fram kosti beggja aðferðanna.

Hér á Íslandi gæti þetta hentað vel. Margir gallar núllgrunnsáætlanagerðar sniðast af, svo sem árleg pappírsvinna og mjög snöggar breytingar á mannafla. Þetta ætti líka að vera vel framkvæmanlegt við þær verðbólguaðstæður sem hér ríkja. Kosturinn væri að mat fengist á árangri fjárveitinga og markmið stofnana yrðu endurskoðuð. Það ætti aftur að leiða til betri stefnumótunar og hagkvæmari rekstrar.

Pólitíska hliðin: Það er ríkisstjórnarinnar að setja fram þá meginstefnu sem fylgja skal við samningu fjárlaga. Æskilegt er að sú stefnumótun sé eins skýr og unnt er. Það auðveldar gerð fjárbeiðna innan stofnana svo og alla aðra vinnu við fjárlögin. Þetta hefur líka þau áhrif, að höfuðmarkmið stjórnarsamstarfsins verða greinilegri en ella.

Sú spurning hlýtur að vakna meðal þeirra, sem veitt hafa athygli refskák stjórnmálanna, hvort nýjar aðferðir séu yfirleitt til bóta. Skiptir ekki pólitísk togstreita það miklu máli í fjárlagagerðinni og ræður ráðstöfun gæðanna burt séð frá öllum vinnuaðferðum?

Þótt svo væri, þá er samt hagur að nýjum aðferðum. Með reglulegri endurskoðun grunnsins ætti a. m. k. að vera bitist um gagnlegri fjárveitingar en áður.

Engar umbætur geta orðið á fjárlagagerðinni nema með fullum vilja og einlægum stuðningi stjórnmálamanna. Þeir mega ekki láta sitja við orðin tóm, heldur verða að axla sinn hlut ábyrgðarinnar burt séð frá tímabundnum vinsældamissi.“

Og í lok greinar sinnar segir Kirstín:

Eftir stendur þó sú staðreynd, að fjárlagagerð í dag er gölluð og hagkvæmni og virkni opinbera geirans ábótavant.

Ef bæta ætti úr þessu þyrfti m. a. að:

1) Hafa skýrari stefnumörkun og láta stofnunum og rn. í té betri meginstefnu í sambandi við fjárlagagerð.

2) Endurskoða a. m. k. fastar fjárveitingar og helst allan fjárlagagrunninn reglulega.

3) Einbeita sér meira að verkefnum, eftir því sem kostur er.

4) Fylgjast með afköstum ríkisgeirans og út frá því leitast við að bæta reksturinn hjá hinu opinbera.

Til að ná framanskráðum markmiðum að nokkru eða öllu leyti mætti nota einhverja eða einhverjar eftirtalinna aðferða:

Sólarlagsaðferðina, hefðbundna áætlunargerð og núllgrunnsaðferðina beitt saman og loks verkefnamat. — Hér lýkur litlum kafla úr ritgerð Kirstínar Pálsdóttur Flygenring sem ég tel að eigi fullt erindi til hv. þm. þegar rætt er um fjárlög, því að oftast verða þær umr. fyrst og fremst karp um einstök viðfangsefni, einstök verkefni, en sjaldnar um það sem skiptir kannske mestu máli. Það er sjálft fjárlagakerfið, undirbúningur fjárlaga og vinnubrögð, bæði í rn. og ekki síður í fjvn. og loks í sölum hv. Alþingis.

Varðandi nýjar aðferðir við gerð fjárlaga er rétt að minna jafnframt á nauðsyn þess, að samræmd verði gerð ríkisreiknings og fjárlaga og endurskoðuð verði lög sem fjalla um þessi atriði. Víða erlendis hafa breytingar verið gerðar í þessum efnum, sem full ástæða er til að skoða, einkum og sér í lagi með tillíti til þess, að fjárlög sýni og lýsi betur en nú er þeim viðfangsefnum, sem ríkisvaldið fer með á hverjum tíma, og stöðunni í fjármálum ríkisins, Enn fremur er ástæða til að minnast á ríkisendurskoðun í þessu sambandi og vil ég þá sérstaklega benda á hugmyndir sem fram hafa komið á Alþingi, þ. á m. frv. hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar sem hann síðast lagði fram á þinginu 1978–1979 þegar hann var varaþm. Framsfl., en hefur af einhverjum ástæðum ekki séð sér fært að leggja fram eftir að hann kom inn sem þm. eftir haustkosningarnar 1979. Það er full ástæða til að spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort verið sé að kanna þessi efni hjá fjmrn. og það sé skýringin á aðgerðaleysi hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, sem er öllum þm. betur að sér í þessum málefnum. Þetta mál ræddi hv. þm. Alexander Stefánsson fyrr í kvöld í sinni ræðu, og held ég að full ástæða sé til að kanna til hlítar með beinni fsp. til hæstv. fjmrh. hvort að þessu máli sé unnið. (Fjmrh.: Hvaða máli?) Ef hæstv. fjmrh. hefur ekki hlýtt á mál mitt skal ég gjarnan endurtaka það, enda er tími minn nægur og hans vonandi líka, en það var rætt um það mál, sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson hreyfði hér á þingi fyrir nokkrum árum, reyndar tvisvar fremur en einu sinni, að færa ríkisendurskoðun úr núverandi sessi sínum og undir valdsvið Alþingis og gera þannig ríkisendurskoðunina virkari við eftirlit með fjárveitingum. Ég ætla ekki að segja eins og einn ágætur ræðumaður sagði úr þessum stól, að ég hafi heyrt fjmrh. hæstv. hrista höfuðið til merkis um að hann skildi þetta, en ég sá að hann gerði það.(Fjmrh.: Kinkaði kolli.) Kinkaði kolli, ætlaði ég að segja. Annars hefði það heyrst.

Það er ein af afleiðingum verðbólgunnar að breyta innbyrðis hlutfalli á milli útgjaldaliða í fjárlögum. Þess vegna er mjög áberandi í þessu frv. hve fjármunamyndun dregst saman, en rekstrarliðir hækka. Rekstrarliðir fjárlaga, a. m. k. laun, hækka með sjálfvirkum hætti í takt við hina raunverulegu verðbólgu, en fjármagn til fjármunamyndunar, bæði á vegum ríkisins sjálfs eða í samstarfi við aðra aðila, rýrnar verulega þar sem hin raunverulega verðbólga er oftast meiri en verðlagsforsendur fjárlaganna. Af þessum ástæðum hefur skuldavandi ríkissjóðs aukist gífurlega og honum tekst engan veginn að standa undir lögbundnum framlögum á móti öðrum aðilum, t. d. sveitarfélögum eða einkaaðilum, og má þar nefna málaflokk eins og fræðslumál, heilbrigðismál, dagvistarmál, hafnamál, íþróttamál o. s. frv. Í raun og veru er núverandi verkaskiptingarkerfi ríkisins og sveitarfélaga úr sér gengið, en ekkert bólar samt á hugmyndum um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og er það furðulegt, m. a. með tilliti til þess, að á þeim tíma, sem núv. hæstv. forsrh. var félmrh., var talsvert unnið að þessum málum í rn. hans.

Þegar horft er til þeirra útgjaldaþátta, sem mynda ríkisútgjöldin, kemur í ljós að u. þ. b. 55–57% hafa á undanförnum árum gengið til aðila utan ríkisgeirans. Helstu útgjaldaþættir þeirra fjármuna, sem ekki eru í umsjá ríkisins, eru rekstrartilfærslur vegna heilbrigðismála. Framlög vegna verðmyndunar í landinu eru há og enn fremur beinir styrkir til einstaklinga og sjóða. Af þessu sést að ríkisfjármálin og fjárlagafrv. eru veigamikill þáttur í tilfærslu fjármuna milli aðila í þjóðfélaginu. Hér hlýtur því að koma til álita, á hvern hátt leysa megi ríkissjóð undan þessu millifærsluhlutverki sem hann gegnir, og jafnframt hvort ekki sé verið með þessum hætti að nota ríkisfjármálin til að byggja upp eða reka starfsemi í landinu sem hvorki er samkeppnishæf né arðsöm.

Á undanförnum árum hafa farið fram víðtækar viðræður milli ríkisvaldsins og sveitarfélaga um verkefnaskiptingu þessara aðila. Hins vegar hafa ákvarðanir og framkvæmdir þeirra hugmynda, sem þar hafa séð dagsins ljós, engar orðið og situr allt við það sama. Telja má líklegt að helsta hindrun þess, að ekki hefur orðið að framkvæmd þessara mála, sé að staða sveitarfélaga er mjög mismunandi og flest þeirra eru ekki það stórar rekstrareiningar að þau hafi bolmagn til að taka að sér viðamikil verkefni. Þá má spyrja hvort forustumenn sveitarfélaga hafi í raun mikinn áhuga á að fá verkefni til sín þar sem þeir margir hverjir telja núverandi skipan besta kostinn til öflunar fjár.

Á síðustu tveimur áratugum hefur sú stefna verið ríkjandi t. d. á hinum Norðurlöndunum að færa verkefni, sem ríkið hafði farið með, til sveitarfélaga eða samtaka þeirra og var með því ætlunin að ná fram ódýrari þjónustu, virkari ákvarðanatöku og dreifingu valdsins. Nú hin síðari ár hafa komið fram raddir um að ekki hafi náðst fram þau atriði sem stefnt var að, stjórnsýsla ríkisvaldsins hafi ekki minnkað, sveitarfélög hafi þurft að sameinast um verkefni og það leitt af sér eitt stjórnsvið til viðbótar og niðurstaðan orðið seinvirkari ákvarðanataka, stærri hluti framlaga hafi farið í stjórnunarþætti, síðar hafi myndast samkeppni milli sveitarfélaga um þjónustumagn og aðstöðu sem leitt hefði til hærri útgjalda en ríkisvaldið hefði reiknað með og áætlað. Þegar staða þessara mála er skoðuð hér á landi og hún borin saman við nálægar þjóðir verða menn að haft í huga fjölmenni þjóðarinnar og dreifða búsetu. Sú sérstaða, sem við búum við, kallar bæði á hagkvæmni í því að einum aðila sé falið verkefni fyrir þjóðina í heild á hinum ýmsu sérsviðum, en jafnframt er vegna dreifðrar byggðar og fámennis nauðsynlegt að staðarþekking sé nýtt. Vegna stærðar landsins er oft og tíðum verið að búa til sömu aðstöðu og þjónustu á mörgum stöðum, sem nýtist illa bæði að því er varðar fastafjármuni og sérþekkingu. Telja verður þó helsta galla á núverandi skipulagi að ekki er fyrir hendi hrein verkefnaskipting milli aðila. Oft og tíðum eru þessir tveir aðilar að vasast í því sama án þess að saman fari fjárhags- og rekstrarábyrgð. Þetta skipulag hefur oft leitt til þess, að meiri fjármunum er varið til viðkomandi málefna en nauðsynlegt er. Þegar takast þarf á við breytingar á jafnveigamiklum verkefnum og ríki og sveitarfélög fara með er nauðsynlegt að feta hvert skref til breytingar með aðgát. Hins vegar er nauðsynlegt að gera breytingar sem fyrst og ganga í þá átt að einum aðila sé falin fjárhagsábyrgð og framkvæmd viðkomandi viðfangsefnis. Því er bent á í þessari ræðu minni að fyrsta skrefið í þá átt að fela sveitarfélögunum aukna hlutdeild í þjónustu þeirra viðfangsefna, sem nú eru í höndum ríkisvaldsins, sé að fela þeim alfarið rekstur og fjárhagsábyrgð er varðar grunnskólakerfið, ríkið taki aftur á móti stærri hlut í heilbrigðismálunum. Þannig væri hægt að fá reynslu í að fela sveitarfélögum verkefni á eigin ábyrgð. ,

Jafnframt þessu er mikilvægt að bætt sé stjórnun hjá ríkinu og að ábyrgð Alþingis, er varðar endanlega ákvörðun og eftirlit með fjármunum sem ganga til einstakra málaflokka, sé efld til muna. Í ræðu, sem ég flutti við sama tækifæri fyrir ári, ræddi ég talsvert um svokallað skilamat sem gert er ráð fyrir að fari fram samkv. lögum um opinberar framkvæmdir. Af þessu tilefni er ástæða til að spyrja hæstv. fjmrh. hvernig það mál standi. Ég hafði á síðasta ári samband við ríkisendurskoðun og framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins og var mér þá tjáð að skilamat yrði tekið upp innan skamms. Þetta er afar mikilvægt stjórntæki fyrir opinbera aðila. Skilamat getur verið fjvn. veigamikið tæki við ákvarðanir um fjárveitingar til einstakra framkvæmda. Það er þess vegna bein spurning mín til hæstv. fjmrh.: Hvernig stendur skilamatið sem framkvæma á samkv. lögum og forstöðumenn tveggja ríkisstofnana hafa lýst yfir að taka ætti upp í byrjun þessa árs? Hvernig hefur það farið fram og hvernig gengur það mál? Ég veit að ef hæstv. fjmrh. kannast ekki við þetta mál getur hann spurt forstöðumenn þeirra ríkisstofnana sem ég nefndi og þá munu þeir kannast við að hafa gefið út slíkar og þvílíkar yfirlýsingar, en ég hef ekki séð að eftir þeim hafi verið farið.

Eins og fram hefur komið í brtt. meiri hluta er gert ráð fyrir að tekjur í áætlun 1. gr. fjárlagafrv. hækki um 149 millj. á milli 1. og 2. umr. Ljóst er að talsverður hluti þessa tekjuauka stafar af auknum innflutningi, en aðflutningsgjöld eru meiri á yfirstandandi ári en ráð var fyrir gert. Ástæðan er m. a. sú, að viðskiptajöfnuðurinn er óhagstæður. Meira er flutt inn til landsins en gert var ráð fyrir, aðallega vegna gengisfellingavæntinga hjá almenningi. Það er athyglisvert, að í frv. er ekki gert ráð fyrir minni aðflutningsgjöldum á næsta ári en í ár vegna niðurfellingar á aðflutningsgjöldum vegna aðfanga iðnaðarins. Þetta á sér stað þrátt fyrir marggefin loforð ráðh. og ríkisstj. um úrbætur í þessum málum fyrir iðnaðinn. Í þessu sambandi má benda á ákvæði í þáltill. hæstv. ríkisstj. um iðnaðarstefnu, þar sem sagt er að nú þegar verði felld niður aðflutningsgjöld aðfanga iðnaðarins. Það er ástæða til að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvað liður þessu máli? Er ætlunin að fella að fullu niður aðflutningsgjöld af aðföngum til iðnaðarins, eins og gert er ráð fyrir í tillögu hæstv. ríkisstj., sem hún hefur þrívegis lagt fyrir Alþingi, þótt hún hafi ekki enn náð fram að ganga?

Á sama hátt virðist ekki vera gert ráð fyrir að nýtt tollkrítarfrv. nái fram að ganga og lög um það efni taki gildi á næsta ári. Þetta er athyglisvert í ljósi þess, að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. lýstu því yfir, t. d. haustið 1979 og vorið 1980, að frv. um tollkrít yrði lagt fram árið 1980 um haustið eða í síðasta lagi haustið 1981. Mér er kunnugt um að slíkt frv. er tilbúið og virðist það starf, sem undirbúningsnefnd hefur unnið í þeim efnum, eiga að liggja í skýrslu um sinn eins og mörg önnur þjóðþrifamál. En til þess að þetta komi skýrt og skorinort fram óska ég eftir að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir því í lok þessarar umr., hvað hæstv. ríkisstj. ætlast fyrir í svokölluðum tollkrítarmálum, vegna þess að fyrir liggur beint loforð hæstv. forsrh. um að slíkt frv. verði flutt. Reyndar átti að flytja það fyrir meira en ári. Ekkert kemur fram í fjárlagafrv. sem bendir til að hæstv. ríkisstj. ætli að standa við þetta loforð fremur en mörg önnur.

Þá er athyglisvert, að frv. gerir ráð fyrir að launaskattur og skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði verði áfram þrátt fyrir síendurteknar yfirlýsingar ráðh. Framsfl. um niðurfellingu þessara gjaldstofna ríkisins. Síðast kom þetta fram við 1. umr. fjárlaga sem fram fór fyrr í haust, og mér er kunnugt um að framsóknarmenn höfðu fyrirvara um fjárlagafrv. hvað snertir þessa tvo tekjustofna ríkisins. Það er enn fremur athyglisvert, að launaskatturinn skuli vera í tekjuáætlun frv. þegar tillit er tekið til þess, að svokölluð starfsskilyrðanefnd hefur skilað áfangaskýrslu þar sem rækilega er lögð áhersla á að launaskatturinn sé stór liður í mismunun á milli atvinnuveganna iðnaðinum í óhag. Hérna er kannske komin skýringin á því, hvernig á því stendur, að sú skýrsla fæst ekki send hv. alþm. Það væri fróðlegt að heyra af vörum hæstv. fjmrh. hvað hann segir um síendurteknar yfirlýsingar um fyrirvara framsóknarþingmanna og reyndar hæstv. ráðh. um launaskatt og skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og hvort stefna Alþb. eða stefna Framsfl. hafi sigrað í þeim efnum.

Það hefur komið fram hjá fyrri ræðumönnum og oftsinnis áður á hv. Alþingi, að sífellt er gert ráð fyrir að fjárframlög séu reidd af hendi án þess að það sjáist á fjárlögum, a. m. k. á þeim tíma sem ákvörðun um fjárframlag er tekin. Ég ætla ekki að fara ítarlega út í þessa sálma hér. Mig langar samt til að spyrja hæstv. fjmrh. að því eða hæstv. iðnrh., sem ég sé að er ekki hér í salnum, hvernig á því standi að í 4. gr. lánsfjárlagafrv. sé gert ráð fyrir að Iðnrekstrarsjóður taki 10 millj. kr. lán til að standa undir endurlánum til rannsókna vegna orkunýtingar. Spurningin er þessi: Hver á að fá þessa peninga til ráðstöfunar, hver á að endurgreiða þetta lán? Ástæðan fyrir þessari spurningu er sú, að stjórn Iðnrekstrarsjóðs er alls ókunnugt um hvernig nota skuli þessa fjármuni og látið hefur verið að því liggja að iðnrn. ætli að ráðstafa fjármagninu. Það læðist því að manni sá grunur, að þessa fjármuni eigi að endurgreiða með fjárveitingum á fjárlögum næstu ára. Þannig er í raun takmarkað það fjármagn sem þá hefði annars orðið til ráðstöfunar. Ég óska þess vegna eftir því, að hæstv. fjmrh. gefi í lok þessarar umr. viðhlítandi svör við þessari spurningu.

Það er ekki ætlun mín að ræða í þessari ræðu um einstök atriði frv. umfram það sem aðrir hafa gert og koma til með að gera því að umr. verður ekki slitið í nótt, heldur á morgun, og má þá gera ráð fyrir að fleiri taki til máls. Ég vil þó drepa á örfá atriði.

Ég vil benda á að enn einu sinni skerðist það fjármagn, sem átti að renna til húsnæðismála, með því að launaskattur, sem samkv. lögum á að renna til þessara mála, er notaður til allt annars. Þarna er í raun gengið á viðkvæma samninga milli aðila vinnumarkaðarins. Um þetta mál hefur verið rætt fyrr í umr. og skal ég ekki hafa fleiri orð um það.

Í öðru lagi vil ég minnast á Lánasjóð ísl. námsmanna. Hæstv. ríkisstj. hefur legið á frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna í heilt ár og hefur nú fyrir tveimur eða þremur dögum lagt það frv. fram þannig breytt að námsmenn geta ekki sætt sig við, enda höfðu þeir gert samning við hæstv. menntmrh. um að taka á sig hertari og þyngri endurgreiðslureglur ef frv. gerði ráð fyrir að hækka lánshlutfall upp í 100% fjárþarfarinnar. Þessu hefur verið harðlega mótmælt af námsmannasamtökunum og því lýst yfir, að þau séu óbundin af samkomulagi sínu við hæstv. menntmrh. Þetta er þeim mun furðulegra þegar tillit er tekið til þess, að með þessu nýja frv. er í raun og veru verið að styrkja stöðu ríkissjóðs eða lánasjóðsins þegar fram í sækir. Ég ætla ekki, herra forseti, að taka tíma í að lesa ályktanir frá stúdentum og námsmönnum um þetta efni, en leyfa mér þess í stað að lesa upp ummæli ágæts hv. þm. frá árinu 1978 úr Stúdentablaðinu þar sem hann sagði svo, með leyfi forseta:

„Við töldum og teljum enn að löngu sé orðið tímabært að umframfjárþörf námsmanna sé mætt að fullu, og miðað við þetta markmið og aðrar breytingar, sem við teljum nauðsynlegt að gerðar verði á úthlutunarreglum sjóðsins, er ljóst að óhjákvæmilegt er að veita auknu fjármagni til sjóðsins“.

Í þessari tilvitnun kemur skýrt og skorinort fram hvert álit þessa hv. þm. er á þessu máli. Hver skyldi nú þessi hv. þm. vera? Hver skyldi hafa skrifað í 1. tölublað Stúdentablaðsins 1978 um þetta mál? Það skal ég upplýsa hv. þingheim um. Það var þm. í stjórnarandstöðunni, hv. þm. sem síðar varð menntmrh. og svo hæstv. fjmrh. Hann er það enn og situr í hæstv. ríkisstj. sem ekkert hefur gert í þessu máli fyrr en nú og þá með því sem stúdentar kalla að svíkjast að námsmönnum. Hvernig fer þetta heim og saman? Það er ástæða til að spyrja þennan hv. þm. og núv. hæstv. fjmrh. hvernig hann komi þessum viðhorfum heim og saman. Vænti ég þess og hlakka mikið til að heyra skýringar hans við lok umræðunnar.

Það er ástæðulaust til að fara mörgum orðum um starfsemi sem skyld er lánasjóðnum, þ. e. Háskóla Íslands. Ég geri ráð fyrir að það mál verði tekið til frekari skoðunar í hv. fjvn. á milli 2. og 3. umr. Sömu sögu má örugglega segja um svokallaða K-byggingu á Landspítalalóð, sem mikið hefur verið rætt um og sýnt fram á að bráðnauðsynleg er við spítalann. Um þessi mál tel ég ekki ástæðu að fara mörgum orðum að sinni vegna þess að þau eru og verða væntanlega áfram til umfjöllunar í hv. fjvn.

Ekki mun ég heldur, þótt full ástæða sé til, enda hefur hv. þm. Lárus Jónsson gert glögga grein fyrir því, fjalla hér um skerðingarákvæði lánsfjárlaga og hvernig það gerist hjá hæstv. núv. ríkisstj. að heimtir eru inn skattar í nafni hins og þessa mannúðarmálefnis og síðan er fjármununum varið til allt annarra og ólíkra og óskyldra málefna.

Ég vil hins vegar, herra forseti, ræða örstutt um málefni Reykjavíkur og fyrst segja frá því, að í 6. gr. frv., sem jafnframt verður tekin til umfjöllunar á síðari stigum, er áfram gert ráð fyrir að samið verði á milli Reykjavíkur og ríkisins um skuldagreiðslur ríkisins. Um þetta mál ætla ég ekki að fjalla hér að sinni, enda standa samningar yfir, þeir eru á viðkvæmu stigi og nauðsynlegt að tillögugreinin standi áfram í 6. gr. eða heimildargrein fjárlaganna.

Það er jafnframt ljóst að B-álma Borgarspítalans fær ekkert fé af fjárlögum með venjubundnum hætti, enda er gert ráð fyrir að fjármagn fáist til B-álmunnar úr Framkvæmdasjóði aldraðra, og ég hef vissu fyrir því, að fjvn. fær það mál til meðferðar á milli 2. og 3. umr. G-álman svokallaða fær ekkert, en hins vegar er gert ráð fyrir að 900 þús. renni til heilsugæslustöðva í Reykjavík.

En það, sem ég vil sérstaklega gera hér að umtalsefni, er hin sérkennilega brtt. nokkurra hv. þm., þeirra Guðmundar J. Guðmundssonar, Guðrúnar Helgadóttur og Ólafs Ragnar Grímssonar, á þsk j. 195 þar sem gert er ráð fyrir að nýr liður bætist við upp á 2.5 millj. um skipaverkarstöð í Reykjavík. Það er athyglisvert og í raun og veru stórkostlega fréttnæmt að hv. þm. úr sama flokki og hv. formaður fjvn. skuli þurfa að flytja till. eins og þessa, og vil ég fara nokkrum orðum um hana til að gefa viðhlítandi skýringar á því, hvernig á þessu stendur. Ástæðan er þessi: Hæstv. félmrh. sagði fyrir u. þ. b. mánuði í hópi þingmanna og borgarfulltrúa Reykjavíkur að hann hefði gert samning við hæstv. samgrh. um að málefni skipaverkstöðvar í Reykjavík fengi framgang í fjárlagafrv. ríkisstj. og yrði sett í endanlega gerð fjárlagafrv. Málinu hefur hins vegar verið klúðrað í ríkisstj. og nú reyna flokkssystkin hæstv. félmrh. að hysja upp um hann buxurnar með þessum hætti. Ég legg til að hv. fjvn. skoði þetta mál á milli 2. og 3. umr. og komi þannig í veg fyrir að hæstv. félmrh. verði gerður ómerkur orða sinna eða að það verði sagt, að hæstv. samgrh., þegar hann kemur til landsins (Gripið fram í: Ef hann kemur.) — ef hann kemur, hafi brugðist samráðh. Mér skilst að hann komi. Ég held að það sé aðalfundur hjá skíðadeild Framsfl. innan tíðar svo að hann hlýtur að koma. — Til þess að ekki verði sagt að hann hafi brugðist samráðherra sínum og hér sé um mikla svikamyllu að ræða treysti ég því, að formaður fjvn., sem er sáttfús maður og mikill sáttamaður, taki þetta mál og finni út hvernig hæstv. ráðh. og þeir menn, sem vinna fyrir þá, gátu klúðrað jafneinföldu máli og því sem hér er á ferðinni.

Herra forseti. Ég hef farið örfáum orðum um nokkur atriði er varða fjárlög, forsendur fjárlagafrv., nýjar aðferðir við gerð fjárlaga, hlutfallslegar breytingar á milli útgjaldaliða, verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég hef fjallað um tekjuáætlun fjárlaga og rætt um einstök atriði sem koma fram í fjárlagafrv. Full ástæða hefði verið til að ræða þetta mál ítarlegar, en þar sem ég kýs heldur að þingheimur fái notið svara hæstv. fjmrh. það sem eftir lifir nætur lýk ég hér með máli mínu.