15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

137. mál, liðsinni við pólsku þjóðina

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér er til umr., er vissulega tímabær, var það einnig þegar hún var flutt, en hefur verið undirstrikuð enn frekar með þeim atburðum sem síðar hafa gerst og aukið hafa á þá neyð sem ríkt hefur í Póllandi á undanförnum mánuðum í vaxandi mæli, en birtist ekki aðeins í skorti á efnislegum gæðum, heldur er nú breytt í nakta valdbeitingu og sviptingu þeirra takmörkuðu lýðréttinda sem pólsk alþýða hafði barist fyrir og tekist að tryggja sér um skamma hríð.

Það hefur verið mikið um þessi mál rætt hérlendis sem erlendis síðustu sólarhringa og samstaða og vilji íslensku þjóðarinnar í þessu máli hefur komið skýrt fram. Það gildir jafnt um ríkisstj. og Alþingi, stjórnmálaflokkana í landinu og íslenska verkalýðshreyfingu. Þessari samstöðu ber sannarlega að fagna og hún ætti að vera trygging fyrir því, að menn láti ekki við orðin ein sitja, enda hygg ég að sú fjársöfnun, sem nú stendur yfir í nafni íslenskra verkalýðssamtaka og kirkjunnar, eigi eftir að sýna hug alþýðu í landinu í þessum málum. Það er ekki óeðlilegt að íslensk stjórnvöld og þing láti einnig að sér kveða.

Ég get fullyrt að Alþb. mun leitast við að taka höndum saman við aðra flokka um að finna skynsamlegar leiðir til þess að greiða úr efnahagslegri neyð pólsku þjóðarinnar með hjálparsendingum og öðrum tiltækum ráðum, eins og vikið er að í þessari þáltill. En hitt skiptir ekki minna máli, að við leitumst við að beita áhrifum okkar svo sem frekast er unnt til þess að því harðræði og þeirri kúgun, sem þar ríkir nú í landi á nýjan leik, verði létt fyrr en síðar.

Atburðir síðustu sólarhringa í Póllandi þurfa ekki að koma okkur sérstaklega á óvart miðað við þá þróun sem við höfum séð framan í þarlendis og í nágrannalöndum Pólverja, svokölluðum bandalagsríkjum þeirra, á meðan vaxandi barátta pólsku þjóðarinnar fyrir auknum lýðréttindum hefur staðið yfir. Við þekkjum það af alllangri sögu hvernig slíkri baráttu hefur verið mætt í löndunum austan járntjalds. Við þekkjum það af dæmum frá síðustu áratugum. Við sjáum líkindin með atburðunum í Tékkóslóvakíu 1968, þegar frelsishreyfing studd af yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar þarlendis var kæfð af vopnuðu utanaðkomandi ofbeldi. Enn er það ofbeldi, sem beitt er á Póllandi, ekki utanaðkomandi með beinum hætti, og við skulum vona að það gerist ekki. En við hljótum samt að vera við því búin að slíkt geti gerst. Einnig það þarf því miður ekki að koma á óvart, að við ættum eftir að sjá framan í slíka atburði. Enginn Íslendingur væntir að svo fari, þvert á móti hljótum við að leggja okkar lóð á vogarskál til að svo verði ekki. Okkur ber skylda til þess að sýna pólsku þjóðinni samhug í verki og einnig siðferðilega séð.

Þegar rætt er um matarsendingar og hjálp við pólsku þjóðina, þá hygg ég að það sé sami andi sem ríki hér og á öðrum Norðurlöndum. En það er því miður ekki alls staðar sem þannig er tekið á málum. Við verðum vitni að því, hvernig atburðirnir í Póllandi fléttast inn í valdatafl risaveldanna og hvernig tekið er á málum í þeim efnum, einnig þegar mannúðarmál eru annars vegar. Sem betur fer er ekki þannig litið á málin hér, og ég vona að svo verði ekki.

Ég vona að um efnisatriði þessarar þáltill. takist góð samstaða eins og í öðrum mótmælaaðgerðum hérlendis og samstöðuyfirlýsingum með pólskri alþýðu innan þings og utan.