15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

133. mál, atvinnutækifæri á Suðurlandi

Flm. (Sigurður Óskarsson):

Herra forseti. Í annað sinn legg ég fram hér á Alþingi ásamt hv. 9. landsk. þm., Guðmundi Karlssyni, till. til þál. um atvinnumál á Suðurlandi. Fyrri till. var lögð fram í apríl 1980 og fjallaði um gerð iðnþróunaráætlunar fyrir Suðurland. Var henni að umr. lokinni vísað til atvmn. Sþ. Ekki mun umfjöllun þeirrar nefndar hafa leitt til annarrar niðurstöðu en að málið var svæft. Í stað þess að taka þá á vandamálum atvinnulífs Sunnlendinga með þeim ráðum m. a., sem í þeirri till. voru tilgreind, hefur ekkert raunhæft verið aðhafst. Þörf nýrra atvinnutækifæra er víða mjög mikil, en þar sem saman fer mikill íbúafjöldi í sveitabyggð og hátt hlutfall ungs fólks gætir þessa með meiri þunga en annars staðar.

Á Suðurlandi eru fimm af sjö hafnlausum kauptúnum landsins og einn hafnlaus kaupstaður. Öllum hlýtur að vera ljóst að slíkar aðstæður þéttbýlisstaða veita mun minna svigrúm til atvinnusköpunar en þar sem hafnaraðstöðu nýtur. Hvað Suðurland varðar og sunnlenska þéttbýlisstaði markast vinnumarkaður þessara landssvæða verulega af því, að sveitirnar og landbúnaðurinn megna ekki að búa því fólki, sem á vinnumarkaðinn kemur, atvinnutækifæri. Stór hluti ungs fólks úr sveitum verður því óhjákvæmilega að leita sér atvinnu utan þeirra atvinnugreina sem foreldrarnir stunda.

Nú hefur það sýnt sig á síðustu tveim áratugum, að þetta fólk vill hvergi fremur velja sér búsetu en í nálægum kauptúnum. Allt frá því að hafist var handa um Búrfellsvirkjun þar til nú við lok Hrauneyjafossvirkjunar hefur ungt fólk af Suðurlandi haft þar verulega atvinnu og stofnað heimili og byggt hús og íbúðir í sunnlenskum þéttbýlisstöðum. Jafnframt því, sem þetta fólk hefur haft nær óslitna atvinnu við virkjanastörf, hefur verið látið að því liggja af stjórnvöldum og leiðandi atvinnumálastofnunum að möguleikar sunnlenskra virkjana yrðu nýttir til að skapa því atvinnuöryggi til frambúðar.

Nú þegar virkjunum á Suðurlandi er að ljúka, a. m. k. um sinn, er ljóst að á bak við allar viljayfirlýsingar um uppbyggingu á sunnlensku atvinnulífi liggur ekkert fyrir nema sú staðreynd, að meginþorri þessa fólks hefur að engri atvinnu að hverfa á heimaslóðum. Nýjar skýrslur, sem ég hef undir höndum, sýna ótvírætt að allar vonir Sunnlendinga um iðnþróun og ný atvinnutækifæri hafa brostið. Framkvæmdastofnun ríkisins hefur samið ítarlegar skýrslur um þessi mál með margháttuðum upplýsingum, línuritum, töflum, súlum og tillögum sem bersýnilegt er að stjórnvöld hafa aldrei ætlað að framkvæma. Því til sönnunar get ég lyft hér upp fjórum allveglegum doðröntum sem fjalla um málefni sem gætu orðið til atvinnuuppbyggingar á Suðurlandi. Þrír þeirra eru beinlínis fyrir Suðurland samdir. Manni verður því óneitanlega að spyrja: Til hvers er verið að halda fundi með atvinnumálanefndum, sveitarstjórnum, atvinnurekendum og launþegasamtökum og semja merkar skýrslur og gera góðar tillögur, ef þetta er síðan látið drasla í kompum og kytrum ónothæft vegna þess að viljinn til að fjármagna og skapa rekstrargrundvöll er ekki fyrir hendi?

Duglegir athafnamenn í einni sveit á Suðurlandi stofnuðu fyrr á þessu ári hlutafélag til þess að vinna vinsæla neysluvöru úr undirmálskartöflum sem til þessa hefur orðið að afskrifa og henda. Hlutafé var safnað á örskömmum tíma, vélar keyptar, tækni til framleiðslunnar tryggð og verksmiðjuhús byggt á nokkrum vikum. En hvað kemur þá í ljós? Raforka var ekki fyrir hendi til þess að knýja vélar verksmiðjunnar. Með góðum vilja viðkomandi stofnunar var málinu bjargað til bráðabirgða með því að spenna upp gamla, lélega línu. Kostnaðinn vegna þessa verður að greiða með því að draga úr öðrum raflínuframkvæmdum á svæðinu. Þetta er eitt dæmi um aðstöðu til iðnaðaruppbyggingar í orkuhéraðinu Suðurlandi. Á þessu landssvæði virðast einu nothæfu raforkulínurnar vera þær sem flytja orkuna burt úr héraðinu. Auðvitað er gott og blessað og nauðsynlegt að byggja þrefalt háspennulínukerfi til að flytja orkuna frá Þjórsár- og Tungnaársvæðinu þangað sem hún er notuð til atvinnusköpunar. En það er kaldhæðnislegt að fólkið, sem í orkuhéraðinu býr, getur ekki reist litla verksmiðju til þess að reyna að bjarga sér, nema því fylgi tjasl og bráðabirgðaframkvæmdir á ónýtri 30 ára raflínu sem á að flytja þessa dýrmætu orku. Þetta er eitt dæmi um iðnþróun á Suðurlandi tæknilega séð.

Ef við lítum á málin frá þeirri hlið sem snýr að orkuverði liggur við að hin tæknilegu vandamál gleymist og falli í skuggann. Í ársbyrjun síðasta árs var upphitun iðnaðarhúsnæðis margfalt dýrari, milli 6- og 7-falt dýrari á þeim svæðum sem bjuggu við olíukyndingu en upphitun þeirra sem bjuggu við verðlag Hitaveitu Reykjavíkur. Raforka til iðnaðar og heimilishalds á orkusvæði RARIK býður ekki upp á góða samkeppnisaðstöðu þeirra héraða sem næst eru Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Í skýrslu, sem samin hefur verið að tilhlutan verkalýðssamtaka á Suðurlandi um samanburð kyndingarkostnaðar, kemur m. a. fram að hér er um gífurlega mismunun á aðstöðu að ræða milli landshluta, svo mikla mismunun að engar líkur eru á að iðnþróun nái fram að ganga án sérstakra ráðstafana á þeim landssvæðum þar sem ástandið er lakast hvað þetta varðar. Sem dæmi má nefna að í umræddri skýrslu, sem miðar við verðlag 1. febr. á s. l. ári, var niðurstaða úttektar 420 rúmmetra húsnæðis á ársgrundvelli eftirfarandi:

Með orku á verði Hitaveitu Reykjavíkur 168 965 gkr., með olíu 1 139 600 kr., með olíu að frádregnum olíustyrk, þá miðað við fjögurra manna fjölskyldu, 848 400 kr. og með raforku frá RARIK á taxta 41 682 104 kr. Þessi skýrsla hefur gengið í gegnum mjög nákvæma rannsókn ráðandi manna og hefur enginn reynt að vefengja hana, enda er hún samin af sérfróðum mönnum.

Samkv. þessu varði verkamaður á taxta almennra verkamannalauna 5.3% árslauna sinna í kyndingu heimilis með hitaveitu á þessum tíma, með olíu 26.6% árslauna miðað við sömu orkunotkun og með raforkukyndingu var hlutfallið 24.4%. Hvaða líkur eru á að þessar aðstæður heilli dugandi athafnamenn til að setja fyrirtæki sín og heimili niður á landssvæðum sem þá aðstöðu bjóða sem hér hefur verið lýst, þegar svo í ofanálag vantar margháttaða aðstöðu sem atvinnurekstur þarfnast: iðnaðarhúsnæði, tæknilega þjónustu hvers konar og hagstæðan flutning á markaðssvæðin, svo að eitthvað sé nefnt?

Víða úti á landsbyggðinni er ekki fyrir hendi iðnaðarhúsnæði á leigukjörum. Fyrsta skref flestra þeirra bjartsýnu dugnaðarmanna, sem í atvinnurekstur ráðast þar, er því bygging atvinnuhúsnæðis, með vægast sagt vafasömum endursölumöguleikum, ef þörf krefur vegna aðstæðna sem upp kunna að koma. Dýr en jafnframt léleg fjárfesting er því fyrsta skrefið til atvinnurekstrar úti á landsbyggðinni, þar sem ástand orkumálanna byggist á raforku frá RARIK og olíu einvörðungu, eins og reyndar er víða á Suðurlandi.

Því miður hefur stefna í afurðaúrvinnslumálum landbúnaðarins, a. m. k. hvað Suðurland varðar, verið sú síðustu áratugina að staðsetja og þróa úrvinnslu utan framleiðslusvæðanna. Ég hef gagnrýnt þessa stefnu. Ég tel hana ranga og þau rök, sem notuð hafa verið við staðsetningu úrvinnslufyrirtækja, meira en lítið vafasöm. Auðvitað hafa hinir raunverulegu stjórnendur þessara fyrirtækja, þ. e. framkvæmdastjórarnir og forstjórarnir sem flestir eru búsettir á Stór-Reykjavíkursvæðinu, alla aðstöðu og allan áhuga á því að gera staðsetningu og uppbyggingu þessara fyrirtækja sem girnilegasta einmitt þar. Sú aðstaða, sem sköpuð er til atvinnurekstrar víða úti á landsbyggðinni, auðveldar slíka tilreiðslu fyrir þá stjórnarfundi afurðasölufyrirtækjanna sem endanlega ákvörðun taka. Félagsleg hlið þessara mála virðist léttvæg fundin þegar hringlar í pyngjunni.

Þess er ekki að vænta, meðan dreifbýlið býr við óviðunandi samkeppnisaðstöðu nánast á öllum sviðum, að þessari þróun verði snúið við og unga fólkið úr sveitunum hætti að telja brottflutning til fjarlægra vinnumarkaða sjálfsagðan.

Ég minntist á það hér að framan, að Framkvæmdastofnun ríkisins hefði samið ítarlegar skýrslur um atvinnumálefni á Suðurlandi og að stjórnvöld hefðu beinlínis gefið tilefni til þess, að vænta mætti einhverra aðgerða til atvinnusköpunar. Þá vil ég einnig nefna till. til þál., sem samþykkt var 13. maí 1979, um eflingu smáiðnaðar í sveitum. Í framhaldi af þessari ágætu tillögu var Framkvæmdastofnun ríkisins falið af forsrh. að semja áætlun um framkvæmd mála. Í maí 1980, þ. e. fyrir rúmum 18 mánuðum, sendi stofnunin núv. ríkisstj. þessa áætlun til staðfestingar. Var henni ætlað að koma til framkvæmda á því ári sem nú er senn liðið. Það er þessi áætlun sem ég hef hér með mér í ræðustól á hv. Alþingi. Framkvæmdastofnun gaf umrædda áætlun út í takmörkuðu upplagi, en ákvað að framkvæmd hennar yrði komið á almennt framfæri þegar samþykkt ríkisstj. lægi fyrir. Ég endurtek: þessi áætlun var gefin út í takmörkuðu upplagi og henni átti að koma á almennt framfæri, hvað sem þetta nú þýðir, þegar samþykkt ríkisstj. lægi fyrir. Mér er ekki kunnugt um að sú samþykkt hafi verið gerð og hef nú lagt fram hér á hv. Alþingi fsp. um það mál.

Það er í hæsta máta undarlegur vilji til góðra verka í atvinnu- og uppbyggingarmálum dreifbýlisins, að látið skuli dragast að samþykkja slíka ályktun sem hér um ræðir þar til liðið er það ár sem framkvæmd hennar átti að gerast á. Formanni atvinnumálanefndar Rangárvallasýslu, þess héraðs landsins sem almennt er viðurkennt að eigi við sérstök atvinnuvandamál að stríða, var ekkert tilkynnt um þessa áætlun og fékk fyrst um hana að vita nú í lok nóvember s. l. og þá af tilviljun. Það var af tilviljun sem formaður atvinnumálanefndar Rangárvallasýslu fékk að vita að Framkvæmdastofnunin samdi fyrir 18 mánuðum áætlun um eflingu smáiðnaðar í sveitum. (Gripið fram í: Er það trúnaðarmál?) Það virðist vera, enda kemur fram í skýrslunni að hún var afhent í takmörkuðu upplagi. Og það er áhugavert að fá upplýst — það kemur vonandi að því þegar fsp. verður svarað hér á hv. Alþingi — hverjir þeir útvöldu voru, sem fengu eintök af þessu takmarkaða upplagi, og af hverju þeir hinir sömu hafa sætt sig við að áætlunin lægi óafgreidd hjá hæstv. ríkisstj. í 18 mánuði, þar af þá 12 mánuði sem nota átti til að framkvæma umrædda ályktun um smáiðnað í sveitum. Mér er alveg óskiljanlegt hvaða tilgangi er þjónað með slíkri áætlanagerð sem læst er niðri í skúffum óafgreidd þann tíma m. a. sem á að framkvæma hana á.

Hinn 11. apríl s. l. héldu atvinnumálanefnd Rangárvallasýslu og sýslunefnd Rangárvallasýslu fund um atvinnumál héraðsins að Hvolsvelli. Þar voru m. a. mættir fulltrúar iðnrn., Framkvæmdastofnunar ríkisins og þm. kjördæmisins. Þar var ekki einu orði minnst á þessa umræddu áætlun um smáiðnað í sveitum, sem felur þó í sér margar merkar tillögur er gætu leyst vandamál í sunnlensku atvinnulífi að vissu marki. Ég endurtek: mér er alveg óskiljanlegt að slík mál skuli beinlínis falin, — ég endurtek: þau eru falin fyrir þeim sem eiga að taka þátt í framkvæmd þeirra og njóta þeirra.

Við nánari athugun kemur ekki á óvart að vonir um eflingu iðnaðar á Suðurlandi hafa brostið. Aðstæður hafa ekki verið skapaðar og viljayfirlýsingar ráðamanna hafa reynst innantómar. Með till. þeirri, sem hér er lögð fram og flm. hafa unnið að í samráði við hv. alþm. Steinþór Gestsson, er ríkisstj. falið að grípa til beinna aðgerða sem tryggt geti ný atvinnutækifæri á Suðurlandi og forðað fólki, sem á Suðurlandi býr, frá atvinnuleysi, því fólki sem undangengin ár hefur verið með störfum sínum við virkjanabyggingar að leggja grunn að atvinnuöryggi í öðrum landshlutum. Hér er gert ráð fyrir að staðsetning orkufreks iðnaðar á Suðurlandi verði ákveðin. Ekkert er eðlilegra en að orka sunnlenskra fallvatna sé nýtt til atvinnusköpunar á Suðurlandi þar sem fátt er um kosti við hafnlausa strönd. Jafnframt gerir till. ráð fyrir að hlutast verði til um gerð iðnþróunaráætlunar fyrir Suðurland sem tryggi eðlilega þróun vinnumarkaðar á þessu landssvæði í framtíðinni.

Þá gerir till. ráð fyrir ítarlegri könnun á möguleikum hefðbundinna atvinnuvega þessa landssvæðis til vinnumarkaðsuppbyggingar. Ljóst er að tvö síðast nefndu atriðin eru yfirgripsmikil og tímafrek og forða ekki sunnlensku atvinnulífi frá áföllum, einfaldlega vegna þess að árangur vegna þeirra er ekki að vænta fyrr en eftir nokkurn tíma. Ákvörðunartaka um staðsetningu orkufreks iðnaðar á Suðurlandi mundi aftur á móti þegar skapa ný viðhorf og glæða vonir íbúa þessa landshluta um tryggari framtíð.

Herra forseti. Ég legg til, að till. þessari verði að umr. lokinni vísað til atvmn., og vænti þess, að hennar bíði annað hlutskipti en hafna óafgreidd í bréfageymslum. Skýrslu- og áætlanagerð er löngu hafin. Það er mál að framkvæmdir hefjist.