17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér finnst þetta ekki nægjanleg svör frá hæstv. iðnrh., og ég fagna því að hæstv. forsrh. er genginn í salinn, því að það, sem hér er verið um að tala, heyrir ekki síður undir hann og hans rn. Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. iðnrh að RARIK hefur fengið nokkur undanfarin ár fjármagn úr ríkissjóði vegna hins svokallaða félagslega þáttar sem RARIK sinnir vissulega. En engu slíku er til að dreifa varðandi Orkubú Vestfjarða. Það hefur ekki á nokkurn hátt mér vitanlega fengið neitt sambærilegt til að sinna félagslegum þætti á því svæði þar sem það sér um þessi mál. Og að því er varðar framlengingu lána sem hæstv. iðnrh. vék að áðan, er það ekki styrkur eða fjárveiting af ríkisins hálfu til þess að létta byrði eða taka þátt í félagslegum þáttum á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða. Þeim áföllum, sem Orkubú Vestfjarða hefur orðið fyrir, hefur í raun og veru verið velt yfir á orkunotendur á þessu svæði með hærra orkuverði. Eykur það því enn mismuninn milli orkunotenda á því svæði og t. d. hér á þessu landshorni.

Ég hef vikið að því hér margoft áður, að jöfnun orkuverðs er meginkrafa þess fólks sem býr við þetta háa orkuverð. Mesta kjarabótin, sem hægt er að veita þessu fólki, er að jafna orkuverð á þessum svæðum. Það er ein meginkrafa af hálfu Alþýðusambands Vestfjarða og af hálfu Vinnuveitendasambands Vestfjarða. Um það hefur verið rætt við hæstv. forsrh. en ekkert úr þeim viðræðum komið annað en nei, og vísað á þá nefnd sem hæstv. iðnrh. gerði hér að umtalsefni og sagði að væri að vinna í málinu. Sú nefnd hefur til þessa, að ég best veit, einvörðungu fjallað um olíukostnaðinn sem er aðeins einn þáttur þessa stóra vandamáls. Ég spyr því hæstv. forsrh.: Er virkilega ekki hægt að fá fyrirheit um það af hálfu hæstv. ríkisstj., að hraði verði settur á endurskoðun þessara mála og að jöfnun orkuverðs verði stefnt á einhverjum tilteknum tíma?

Það er staðreynd, sem ég held að menn verði að horfast í augu við, og því fyrr því betra, að verði þetta ekki gert — og það nú þegar — er hér verið að stefna að mestu byggðaröskun sem átt hefur sér stað í landinu. Og það verður enginn hægðarleikur að stöðva þá skriðu eftir að hún er komin á stað. Þess vegna er þetta brennandi mál þess fólks sem við þetta þarf að búa. Ég spyr enn, og vænti þess að hæstv. forsrh. gefi hér haldbetri svör eða yfirlýsingar en hæstv. iðnrh. Ég trúi því að hæstv. forsrh. sé ljóst þetta vandamál, hann hefur um það gögn, og ríkisstj. raunar öll, hver þessi munur er, svo að menn hljóta að hafa gert sér grein fyrir því, að það verður ekki undan því vikist að gera ráðstafanir til þess að leiðrétta þetta.

Hæstv. iðnrh. sagði að það væri ekki einfalt mál að jafna þetta. Það má vel vera að það sé ekki einfalt mál. En til þess eru stjórnmálamenn — ég tala nú ekki um hæstv. ráðherrar — einu sinni settir, að fást við hin ýmsu og jafnvel flóknustu vandamál. Hér liggur fyrir frv. núna í hv. deild sem bendir á eina leið til lausnar á þessu máli, að ég held afskaplega einfalda, sem er hreinlega að heimila fólki að draga frá skatti þann kostnað sem það þarf að borga vegna upphitunar á húsnæði. Ég held að þetta sé afskaplega einföld leið og ætti að vera hægt að fara hana ef vilji væri fyrir hendi. En ég ítreka: Ég vænti þess að fá einhver viðbrögð eða svör frá hæstv. forsrh., því að það getur oltið á því hvort svör fást og þá hvaða svör við þessum þætti mála, hvort heill landshluti verður í verkfalli nú strax upp úr áramótum eða ekki. Ég er viss um að það er hægt nú þegar og það var hægt fyrr, að veita þau svör sem tryggðu það, að við eygðum lausn á þessu mikla vandamáli innan tiltölulega stutts tíma.