17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Við tillöguflutning sem þennan hljóta menn að hafa rétt til að ræða þá till., fyrr var það ekki hægt en hún kemur fram.

Ég vil lýsa því yfir bæði fyrir mig, Matthías Á. Mathiesen og Sighvat Björgvinsson, að við teljum þessa till., eins og hún er hér orðuð, tvímælalaust vera til bóta og skýrari en ákvæði 3. gr. frv. Hins vegar lítum við svo á, að hér sé um skuldbindingu að ræða sem ríkisstj. hafði gefið og hafði þau áhrif á aðila í Verðlagsráði að þeir voru fáanlegir til að samþykkja loðnuverðið á s. l. hausti.

Síðan er samið hið margumtalaða skuldabréf. Það er sent fjmrh. Það er bókað á fundi 1. des. í stjórn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnarmenn lýstu sig allir samþykka öllum efnisatriðum skuldabréfsins og sögðust fulltrúar veiða og vinnslu vilja árétta þann skilning sinn, að ekki komi til endurgreiðslu skuldarinnar nema því aðeins að markaðsverðið nái þeim viðmiðunarmörkum“ — það er 9.25 dollarar í mjöli og 4.80 dollarar í lýsi- „sem greind eru í skuldabréfinu og þá innan þeirra tímamarka sem tekin eru fram í bréfinu.“

Eftir nokkrar umr. var ákveðið að senda fjmrh. skuldabréfið til undirritunar og með því skyldi fylgja svohljóðandi bókun, sem allir stjórnarmenn stóðu að, bæði fulltrúar vinnslu og veiða og fulltrúar stjórnvalda:

„Það er skilningur sjóðsstjórnar, að endurgreiðslukvöð sjóðsins falli endanlega niður 1. des. 1983, eins og kveðið er á um í skuldabréfinu. Þetta er forsenda ákvörðunar loðnuverðs og verðjöfnunar í okt. s. l.

Þetta vildi ég að kæmi fram við umr. — Eins og ég sagði áðan teljum við að þessi till. sé til bóta, en við gátum ekki stutt hana eða flutt hana vegna þess að við vildum hafa skýr ákvæði um að hér væri um sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs að ræða fyrir þessu láni vegna þeirrar skuldbindingar sem ríkisstj. gaf mönnum í sambandi við verðákvörðunina. Annað mál er afstaða okkar til frv. í heild, en ég endurtek að við teljum þessa till. til bóta þó við getum ekki greitt henni atkvæði af þessari ástæðu.