18.12.1981
Neðri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara fsp. hv. þm. Það hafa farið fram umræður milli mín og sjútvrh. um fjármagnskostnað á útgerðinni vegna lántöku og þau mál eru í athugun. Ég skal ekkert um það fullyrða á þessari stundu, hvaða niðurstaða verður að lokum. En þau mál eru sem sagt í athugun.

Varðandi skattamálin var ég spurður þessarar sömu spurningar í Ed. Ég var þeirrar skoðunar að endurskoða þurfi skattaálögur á atvinnuvegina, það þurfi að gera það. Hvort það verður gert í jólaleyfi þm. eða í sambandi við efnahagsráðstafanir, sem væntanlega verða gerðar, um það skal ég ekki segja og enn síður hver niðurstaðan kann að verða. En ég get gjarnan svarað spurningu hv. þm. á þá leið, að ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að endurskoða skattaálögur á atvinnuvegina.