18.12.1981
Neðri deild: 29. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

73. mál, Framkvæmdasjóður aldraðra

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. heilbr.- og trn. sem er að finna á þskj. 226. Nefndin hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 49/1981, um Framkvæmdasjóð aldraðra. Hér er um að ræða framlengingu á álagningu sérstaks skatts sem nota skal til uppbyggingar stofnana fyrir aldraða. Þær breytingar, sem er að finna í hinu nýja frv., eru í fyrsta lagi að nú er skattur þessi 200 kr. í stað 100 kr. á síðasta ári. Þar sem heildarendurskoðun á löggjöf um þjónustu fyrir aldraða hefur ekki verið lögð fram þótti nauðsynlegt að framlengja þennan skatt og jafnframt að hækka hann í 200 kr. Í 1. brtt. á þskj. 227 er breytt tölunni sem áður var 37 500 kr. og er lágmarkstekjuskattsstofn þeirra sem greiða skulu þennan skatt, og er sú tala nú 45 000 kr. Þessi breyting var gerð í samráði við Gest Steinþórsson skattstjóra í Reykjavík og samkvæmt hans ábendingu. Þá er nýmæli einnig í 1. gr. í brtt. n. á þskj. 227, að þetta gjald skal fella niður af þeim elli- og örorkulífeyrisþegum sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

2. brtt. n. er að á eftir 1. gr. komi ný grein sem orðist svo:

„Aftan við 2. gr. laganna bætist ný málsgr. sem orðist svo:

Fjmrn. skal skila Framkvæmdasjóði aldraðra ársfjórðungslega, á innheimtuárinu, 1/4 af áætluðum tekjum sjóðsins samkv. þessari grein.“ Nefndin telur nauðsynlegt að binda þetta í lögum þar sem í ljós hefur komið að tekjur sjóðsins hafa tilhneigingu til að koma inn mjög seint og getur það tafið veitingar úr sjóðnum.

3. brtt. á þskj. 227 er við 3. tölul. 2. gr., en 3. tölul. hljóðar svo, með leyfi forseta: „Að greiða hlutdeild ríkissjóðs, sbr. 34. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 57/1978, í byggingu sveitarfélaga á stofnunum fyrir aldraða, sbr. 3. gr. stafliði a) og b). Aftan við þetta bætist: „enda greiði ríkissjóður framlag beint í Framkvæmdasjóð, sbr. 2. tölul. 2. gr.“ Í þessu er raunverulega fólgið að verið er að tryggja að skattlagningin, sem er uppistaðan í tekjum Framkvæmdasjóðs, markaður tekjustofn, sé ekki notuð til þess að greiða ríkisframlag til byggingar sjúkrastofnana sem hvort sem er hefði átt að greiða að 85%.

Einn nm., hv. þm. Magnús H. Magnússon, skrifaði undir nái. með fyrirvara og hefur lagt fram brtt. ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Karvel Pálmasyni. Mun Magnús gera grein fyrir þeim breytingum. Heilbr.- og trn. fékk til viðtals við sig Pál Sigurðsson ráðuneytisstjóra og — eins og áður er sagt — Gest Steinþórsson skattstjóra og kann þeim þakkir fyrir aðstoðina. Að öðru leyti mæla sex nm. með því að frv. nái fram að ganga.