18.12.1981
Neðri deild: 29. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

73. mál, Framkvæmdasjóður aldraðra

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég skal stytta mál mitt. Ég er vissulega samþykkur því hlutverki sem þessi sjóður hefur, en ég er óánægður með álagningu skattsins. Nefskattar eru bæði ranglátir og dýrir og erfiðir í álagningu og reyndar ekki síður í innheimtu. Hátekjumenn eiga að greiða meira en þeir sem lægstar hafa tekjurnar eða lágar tekjur hafa. Á þessu ári var þetta gjald lagt á þúsundir gamalmenna og unglinga sem engan annan skatt höfðu, og skattstjórar höfðu ekki heimild til að fella þetta gjald niður, hversu bág sem kjörin voru. Út af þessu urðu því mjög mikil leiðindi í mörgum tilvikum og ástæðulaust með öllu að vera að stofna til þess. Þetta hefur talsvert mikið verið lagfært í heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar þannig að þetta er ekki eins slæmt og verður vonandi ekki eins slæmt og það var á þessu ári. Eftir sem áður er skatturinn ranglátur og miklu ranglátari en ef hann kæmi sem viðbót við tekjuskatt, hlutfallsleg uppbót við tekjuskatt, eins og ég hef leyft mér að leggja til á sérstöku þskj. ásamt hv. þm. Karvel Pálmasyni og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.

Auk þess finnst mér satt að segja fáránlegt að við skulum núna vera að fjölga nefsköttum á sama tíma og til stendur að taka upp staðgreiðslukerfi skatta. Staðgreiðslukerfi skatta getur ekki náð til nefskatta, en á afskaplega auðvelt með að taka til skatta eins og við leggjum til í brtt. á þskj. 236.

Ég er sem sagt mjög samþykkur hlutverki sjóðsins en ósammála því, hvernig gjaldið er lagt á.