22.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Að gefnu tilefni vil ég taka fram, að við framsóknarmenn og langflestir Íslendingar treysta Ólafi Jóhannessyni öðrum mönnum betur fyrir meðferð utanríkismála þjóðarinnar.

Stjórnarandstæðingar hafa eytt svo til öllum ræðutíma sínum í að reyna að rífa niður aðgerðir ríkisstj. og skamma hana. Minna hefur farið fyrir úrræðum og tillögum um lausn mála. Ég ætla að þjóðin hafi tekið eftir þessum málflutningi. Á meðan ríkisstj. endurmetur stöðuna og markar stefnu sína liggur stjórnarandstaðan í innbyrðis áflogum og flokkadráttum. Stjórnarandstaðan vill í engu viðurkenna staðreyndir um bata í efnahagsmálum á ýmsum sviðum.

En hvað er fyrst og fremst jákvætt í efnahagsmálum þjóðarinnar á þessu ári? Ég vil nefna nokkur atriði. Atvinnulíf landsmanna hefur verið í fullum gangi, næg atvinna og vinnufriður allt árið, þrátt fyrir staðbundin vandamál og vissa erfiðleika í sumum greinum. Áætlað er að þjóðartekjur á mann aukist um 1%. Tekjur landsmanna hafa verið miklar og kaupmáttur ráðstöfunartekna verður um 1% meiri á mann en var í fyrra og hefur ekki verið hærri a. m. k. s. l. 6 ár.

Spurningin er hvort svigrúm sé fyrir heildarlaunahækkanir í þjóðfélaginu á næsta ári sem ekki brenna upp í einni svipan á báli verðbólgunnar. Þjóðhagsspá fyrir árið 1982 bendir til að þjóðartekjur aukist aðeins um 1/2%. Viðskiptakjör þjóðarinnar hafa versnað um 12–14% síðan 1978. Þola atvinnufyrirtækin meiri innlendan tilkostnað? Ég held ekki. Atvinnulífið stendur höllum fæti í ýmsum greinum vegna verðbólgunnar. Nægir þar að minna á erfiðleika iðnaðarins, t. d. á Akureyri og víðar, svo og erfiðleika margra sjávarútvegsfyrirtækja. Hætt er við að slíkur rekstur dragist saman og atvinna minnki ef innlendur tilkostnaður hækkar.

Á áratugnum 1960–1970 var meðaltal innlána í innlánsstofnunum um 40% af árlegri þjóðarframleiðslu. Þetta hlutfall lækkaði úr 40% niður í 21.5% árið 1978. Það var þá ljóst að sparnaður í hagkerfinu væri að detta niður og þjóðin á hraðleið með að eyðileggja bankakerfið. Með setningu Ólafslaga urðu þáttaskil í þessum málum. Árið 1980 óx þetta hlutfall upp í 23.8%,.á þessu ári verður hlutfallið að líkindum 26.5% og árið 1982 er spáð hlutfallinu 29%.

Seðlabankinn telur að í ágústmánuði hafi því marki verið náð, að raunvextir væru jákvæðir í öllum flokkum bundinna innlána. Hér er því um sýnilegan bata að ræða í peningamálum sem vekur vonir um eðlilegri þróun efnahagsmála. Þróun gengismála hefur verið hagstæð þótt hækkun Bandaríkjadollars hafi valdið verulegum erfiðleikum þeirra atvinnugreina sem búa við útflutning gegn greiðslu í öðrum gjaldmiðli en dollar.

Um s. l. áramót var horfið frá gengissigi krónunnar, en ákveðið að stefna að sem stöðugustu gengi og miða við meðalgengi erlendra gjaldmiðla. Gengi íslensku krónunnar hefur ekki verið jafnstöðugt um langa hríð og á þessu ári. Með hliðsjón af kostnaðarhækkunum við rekstur útflutningsatvinnuveganna álit ég þó að teflt hafi verið á tæpasta vað með skráningu krónunnar. Gengið verður að miða við að tryggja jafnvægi í utanríkisviðskiptum svo og viðunandi rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuveganna og þeirra atvinnugreina sem keppa við innflutning.

Ef litið er á gjaldeyrisstöðuna batnaði hún um 500 millj. kr. á þessu ári, 50 milljarða gkr. Í fyrra var viðskiptajöfnuður óhagstæður um 2.4% af þjóðarframleiðslu, en því er nú spáð, að þetta hlutfall verði aðeins 0.5% á þessu ári. Þessi útkoma er miklu betri hjá okkur Íslendingum en flestum nágrannaþjóðum. Á næsta ári er spáð viðskiptajöfnuði í algjöru jafnvægi og ber að fagna því.

Í verðlagsmálum hefur mikils aðhalds verið gætt, enda nauðsynlegur þáttur í efnahagsstefnunni til hjöðnunar verðbólgu. Eftir myntbreytinguna fól ég Verðlagsstofnun að fylgjast sérstaklega með verðlagi vegna hennar. Ég hef á þessu ári undirbúið að færa verðlagskerfið í frjálsræðisátt, sem felur í sér hvatningu til hagstæðari innkaupa til landsins.

Seðlabankinn telur að í ágústmánuði hafi verðbólgustigið verið 40.2% . Það er einnig ástæða til að ætla að verðbólga hækki ekki meira en um 40% frá upphafi til loka ársins.

Með afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1979 var lagður grundvöllur að traustari fjárhag ríkisins. Bendir allt til þess, að afkoma ríkissjóðs verði í jafnvægi á þessu ári. Útgjöld af þjóðarframleiðslu verða 28.2%, en voru 30.4 um miðjan seinasta áratug. Þetta gefur glögga mynd af þróun heildarskattlagningar seinustu ára.

Stefnan í fjárfestingarmálum er á réttri leið. Heildarfjárfesting á þessu ári verður rúm 25% af þjóðartekjum, en hefur lækkað og stefnir í tæp 24% á næsta ári. Með þessu er stefnt að samræmingu fjárfestingar og sparnaðar þjóðarbúsins og því að draga úr viðskiptahalla.

Af þessu stutta yfirliti liggur ljóst fyrir að verulegur árangur hefur náðst í efnahagsmálunum á yfirstandandi ári. Hagkerfið hefur verið að styrkjast í ýmsum efnum. Þetta þýðir vissulega ekki að allur vandi sé leystur, öðru nær. Þrátt fyrir verulegan árangur í baráttunni við verðbólguna er enn þá allt of mikil verðbólga á Íslandi. Verðbólgan í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku er yfirleitt í kringum 10%. Á sama tíma er hún 40% hjá okkur. Fjármálamenn og stjórnmálamenn hafa miklar áhyggjur af 10% verðbólgu og eru sannfærðir um að slík verðbólga valdi stöðnun og samdrætti í atvinnulífi og kaupmætti launa.

Um þessar mundir eru barátta gegn verðbólgu aðalmál ríkisstjórnar í hverju einasta iðnvæddu ríki. Aðferðirnar, sem beitt er gegn henni, eru þó mjög misjafnar. Verðbólga hægir á hagvexti og veldur atvinnuleysi þegar til lengdar lætur. Samkeppnisstaða útflutningsatvinnuveganna og alls innlends iðnaðar versnar til muna. Verðbólgan kemur þyngst niður á eignalitlu fólki og lágtekjumönnum og alveg sérstaklega unga fólkinu sem er að hefja búskap. Meiri verðbólga veltir vandanum yfir á herðar þess fólks sem síst getur mætt henni. Þetta ætti sannarlega að stugga við okkur Íslendingum. Verðbólgan hefur m. a. valdið því, að sparnaðurinn í íslenska hagkerfinu hefur minnkað um helming á 10 árum. Með Ólafslögum var lagður grunnur að auknum sparnaði og hann mun fara vaxandi.

En hvernig höfum við farið að því að halda uppi fullri atvinnu og mikilli uppbyggingu með svona litlum sparnaði? Við höfum gert það með því að auka erlendar lántökur. Það er sá þáttur hagkerfisins sem við í Framsfl. höfum hvað mestar áhyggjur af eins og sakir standa. Verðtrygging inn- og útlána leggst með ofurþunga á atvinnulífið og húsbyggjendur. Sú tíð er horfin að hægt sé að gera út með halla og jafna síðan hallann með sölum og kaupum fiskiskipa. Verðbólgan er hætt að byggja fyrir menn húsin. Menn verða nú að borga þau lán sem þeir taka. En sparnaðurinn fer vaxandi. Það þýðir aftur á móti að unnt verður að fjármagna uppbygginguna með innlendu fjármagni og draga úr erlendum lántökum. En hvaða val eigum við þá? Jú, við getum fallið frá verðtryggingu inn- og útlána. Það þýðir hins vegar minni sparnað og meiri erlendar lántökur þar til allt okkar lánstraust er þorrið og við sitjum uppi með gífurlega greiðslubyrði vaxta og afborgana af erlendum lánum. Hvað verður þá um sjálfstæði þjóðarinnar?

Hin leiðin er rétta leiðin og raunar eina leiðin út úr vandanum. Það er að skapa viðtæka samstöðu um áframhaldandi niðurtalningu verðbólgunnar. Þá lækka vextirnir, auðveldara verður að reka atvinnulífið og þróa það og húsbyggjendur geta þá staðið undir lánum. Ef verðbólga lækkar t. d. úr 40% í 25% á næsta ári lækkar vaxtakostnaður um 15%, enn fremur minnka erlendar lántökur og sjálfstæði þjóðarinnar styrkist.

Ég vara alvarlega við því, ef nú á að reisa nýja verðbólguöldu ofan á það sem fyrir er. Það er hættulegt fyrir þjóðina. Slík stefna torveldar uppbyggingu og framfarir og lækkar rauntekjur manna.

Íslendingar lifa við tiltölulega góð lífskjör og hafa öll skilyrði til að bæta þau. Það er óumdeilt, að verbólga hefur lækkað verulega á þessu ári. Það væri sorglegt ef gullið tækifæri til nýrrar sóknar gegn verðbólgunni færi forgörðum vegna skammsýni og kröfuhörku sem ekki er hægt að verða við nema með aukinni verðbólgu og upplausn í efnahagslífinu.

Á fyrsta starfsári núv. ríkisstj. var aðeins veitt viðnám gegn verðbólgu, m. a. vegna mjög versnandi viðskiptakjara árin 1979 og 1980. Ef ekkert hefði verið gert í efnahagsmálum um seinustu áramót hefði verðbólga vaxið upp í 70–80% á þessu ári, en vegna efnahagsráðstafana ríkisstj. og hagstæðra ytri skilyrða hefur verðbólga lækkað um þriðjung frá í fyrra. Í stað 70–80% verðbólgu búum við nú við um 40% verðbólgu.

Aðgerðir ríkisstj. hafa einkum verið fólgnar í niðurtalningu verðlags á vörum og þjónustu, verðbótum launa, sköttum á lágtekjur, vöxtum og aðhaldi í ákvörðunum um fiskverð og landbúnaðarvöruverð og gengismálum. Þá hefur og verið gætt aðhalds í peningamálum, ríkisfjármálum og fjárfestingu. Þetta eru fyrstu skrefin á erfiðri göngu. Það er eðlilegt, að það hrikti nokkuð í, og ljóst, að leiðin að settu marki er torsótt. Nú þarf að halda áfram að undirbúa ráðstafanir fyrir næstu árin. Þegar hefur verið lagt fram á Alþingi fjárlagafrv., fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og þjóðhagsáætlun, en Ólafslög gera ráð fyrir þessari málsmeðferð. Þessi gögn hafa að geyma stöðu hagkerfisins og horfur fram undan. Allir þeir, sem taka þýðingarmiklar ákvarðanir sem varða framvindu efnahagsmála, verða að kynna sér þessi gögn og taka tillit til staðreynda efnahagslífsins. Annað er óráð og leiðir til ófarnaðar.

Í þjóðhagsáætlun segir að á komandi ári mun ríkisstj. leggja höfuðáherslu á að þrýsta verðbólgunni enn verulega niður í samræmi við það meginmarkmið að koma henni svo fljótt sem kostur er niður á svipað stig og er í helstu viðskiptalöndum okkar. Ríkisstj. telur æskilegt að ná hlutfallslega svipuðum árangri á árinu 1982 og á þessu ári. Árangri í baráttunni við verðbólguna verður að ná með samstilltu átaki í þjóðfélaginu og aðhaldssamri og sterkri efnahagsstjórn, án þess að til atvinnuleysis komi eða gengið verði á kaupmátt ráðstöfunartekna.

Framsfl. telur mjög nauðsynlegt að þessi markmið ríkisstj. gangi fram, enda eru fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun byggð upp á þessum verðlagsgrunni. En hlutfallslega svipaður árangur í verðbólgumálum á næsta ári og náðst hefur á þessu ári verður eftir atvikum að teljast viðunandi.

Að lokum verður að leggja ríka áherslu á að sem flestir leggist á eitt um að samræma aðgerðir að þessu marki. — Góða nótt.