19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

1. mál, fjárlög 1982

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ræða mín hér var um þingsköp, um afgreiðslu fjárlaga og um lögmæti á erlendum lántökum samkv. fjárlögum. Hafi einhver tekið upp umr. hér utan dagskrár, þá er það hæstv. fjmrh., fulltrúi úr ríkisstj., sem kom hér með fullyrðingar um það, að vegna stjórnarandstöðunnar hefði ekki tekist að afgreiða mál hér á Alþingi. Ég tek undir þau mótmæli sem fram komu hér hjá hv. 10. þm. Reykv. Samráð var við stjórnarandstöðuna sagði hæstv. fjmrh. Það má vel vera að hann hafi rætt við þá menn sem hann taldi hér upp. Ég efast ekkert um að hann hafi gert það. Ég get hins vegar tjáð honum það, að ráðuneytisstjórinn í fjmrn. spurði mig um það, hvort lánsfjárlög mundu ná fram að ganga fyrir þinglok. Ég sagðist ekkert um það vita. Hann sagði þá við mig þessa setningu: Ef það getur ekki gerst, þá verður sennilega að taka heimild inn í fjárlögin til þess að ljúka lánsfjáráætluninni 1981. Ég svaraði honum og sagði: Það tel ég ekki vera með réttum hætti gert.

Við erum að deila hér um hvort rétt er að hlutunum staðið. Ég tel eðlilegt, þegar fjárlög ríkisins eru afgreidd, að menn geri athugasemdir þegar þeir telja að ekki sé rétt að staðið.