26.10.1981
Efri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hælir sér af því hér hvað eftir annað í ræðustólnum, að hann sé mikill raunsæismaður og líti á raunveruleikann eins og hann er. Hitt er síðan merkilegt, að í beinu framhaldi af þessum yfirlýsingum fer hv. þm. að lýsa afstöðu Alþb. til atvinnuveganna í landinu og til sjávarútvegsins sérstaklega. Það vill svo einkennilega til eða hitt þó heldur, að þessar lýsingar hv. þm. eru svo fjarri öllum raunveruleika sem mest má. Ég ætta ekki að eyða löngum tíma hér í hv. deild til að rekja þær fjarstæður sem hv. þm. Eyjólfur Konráð hefur farið hér með, en nefna aðeins nokkur dæmi í þeirri von að hv. þm. — næst þegar hann flytur þessa sömu ræðu sem hann er búinn að flytja hér frá því í ársbyrjun 1980 — leiðrétti a. m. k. þennan þátt.

Það er og hefur verið meginstefna Alþb. að uppbygging atvinnulífsins í landinu sé öflug, sérstaklega í sjávarútvegi og fiskiðnaði. Ég vil í þessu sambandi og þessu til staðfestingar minna hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson á það, að þegar viðreisnarstjórnin — sem er ein sú stjórn sem hv. þm. hefur tekið hvað mestu ástfóstri við — fór frá, þá var útgerðin í landinu í rúst, þá var frystiiðnaðurinn í landinu í rúst. Það er fyrst og fremst verk Alþb. að byggja upp innlendan togaraútveg, m. a. með félagslegu framtaki víða um land. (Gripið fram í.) Alþb., já, að byggja upp togaraútgerð 1971—1974. Ég sagði m. a. fyrir tilstuðlan Alþb., en það er alveg rétt og skal koma hér skýrt fram, svo að hv. þm. Stefán Guðmundsson verði ánægður, að Framsfl. átti þar vissan hlut að máli. En forustuna fyrir þeirri uppbyggingu hafði sjútvrh. Alþb., Lúðvík Jósepsson, og þessi uppbygging útgerðar um allt land markaði þáttaskil fyrir byggðarlög í landinu, á Vesturlandi, Norðurlandi, Austurlandi, Vestfjörðum og víðar. Síðan var unnin á vegum þessarar ríkisstj. einnig sérstök áætlun, sem hv. þm. Tómas Árnason — þá sem stjórnandi í Framkvæmdastofnun — átti mikinn hlut að, um uppbyggingu frystihúsanna í landinu. Það er þessi uppbygging innlendra atvinnuvega sem leysti stóriðjustefnu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar af hólmi, þá erlendu stóriðjustefnu sem hann hefur fyrst og fremst verið talsmaður fyrir. Það hefur verið stefna Alþb. að stuðla að því að þessi fyrirtæki gætu náð þeim styrk sem þarf til þess að Íslendingar geti sjálfir haft forræði fyrir atvinnuvegum sínum.

Hins vegar er eitt land hér í nágrenni okkar þar sem fyrirtæki fara á hausinn, þar sem sú lýsing, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson var að gefa hér, á fyllilega við, þar sem einkafyrirtækin fara á hausinn í hverri viku, nánast á hverjum degi, jafnvel ein verksmiðja á dag. Og hvaða land skyldi það nú vera þar sem atvinnuvegirnir eru að hrynja á þennan hátt? (EgJ: Pólland.) Þar sem einkafyrirtækin eru að gefast upp? Nei, það er ekki Pólland, hv. þm. Egill Jónsson. Það er Bretland undir stjórn Margrétar Thatcher sem framfylgir sömu stefnu og hv. þm. Egill Jónsson bauð sig fram fyrir í síðustu kosningum og fylgir enn hér á Alþingi Íslendinga. Það er landið þar sem leiftursóknarstefna þeirra félaga hv. þm. Egils Jónssonar og Eyjólfs Konráðs Jónssonar er í framkvæmd. Það er eina landið í Evrópu þar sem fyrirtækin eru að fara á hausinn, jafnvel í svo ríkum mæli að það er verksmiðja á dag. (Gripið fram í.) Nei, það var einmitt það sem ég ætlaði að koma að. Þið hafið nefnilega stefnu. Og það er stefna Margrétar Thatcher, það er leiftursóknarstefnan sem hefur þær afleiðingar að atvinnufyrirtækin, einkafyrirtæki sem og önnur fyrirtæki, fara á hausinn. Ég legg til að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson kynni sér hve mörg þau einkafyrirtæki eru sem hafa farið á hausinn síðan leiftursóknarstefnunni var hrundið í framkvæmd í Bretlandi. Þau nema ekki bara tugum, þau nema ekki bara hundruðum, þau nema þúsundum, þau fyrirtæki sem hafa farið á hausinn á þeim tíma. Svo óska ég eftir því, að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson komi hér upp einnig síðar, þegar hann er búinn að kynna sér málið eins og raunsæjum þm. sæmir, og nefni þau fyrirtæki, sérstaklega í sjávarútvegi og fiskvinnslu, sem hafa farið á hausinn þegar Alþb. hefur farið með stjórn í þessu landi. Þá getum við gert samanburð á atvinnuvegastefnu Alþb. annars vegar og atvinnuvegastefnu leiftursóknarinnar hins vegar.

Ég skal að gefnu tilefni lýsa því yfir, að það hefur átt sér stað ákveðin breyting gagnvart einkarekstrinum hér í landinu á síðustu vikum og sú breyting hefur farið mjög fyrir brjóstið á Morgunblaðinu og öðrum þeim sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er nátengdur. Það er sú breyting að samvinnuhreyfingin í landinu — ekki ríkið, heldur samvinnuhreyfingin í landinu hefur tekið að sér að reka nokkur fyrirtæki á Vestfjörðum sem áður voru í einkaeign. Það er ekki ríkisrekstur, það er engin aukning á ríkisrekstri. Það er hins vegar aukning á félagslegu framtaki fólksins sjálfs í þessum byggðarlögum. Við Alþb.-menn erum fylgjandi því, að samvinnuhreyfingin taki að sér í auknum mæli að annast atvinnufyrirtæki fólksins í hinum dreifðu byggðum. Og við erum einnig fylgjandi því, að önnur félagssamtök fólksins sjálfs, sveitarfélög, jafnvel verkalýðshreyfingin komi inn í þann rekstur eða mynduð verða félagssamtök fjölmargra einstaklinga í byggðarlögum, eins og gert hefur verið t. d. í Skagafirði, og stofnað til margþætts félagslegs rekstrar fólksins sjálfs um þau atvinnufyrirtæki. Það er í grófum dráttum sú atvinnustefna gagnvart landsbyggðinni og sjávarútveginum sem við viljum setja okkur.

Við höfum ekki hér á Alþingi á undanförnum árum flutt till. um ríkisútgerð í sjávarútvegi. Það hafa aftur á móti þm. Framsfl. gert. Sá flokkur, sem hér á Alþingi hefur flutt till. um ríkisútgerð í togaraflotanum, er Framsfl., en ekki Alþb. Það var að vísu ágætt frv. og við hefðum sjálfsagt stutt það, en því hefur hins vegar ekki verið fylgt fram af þeirri festu sem kannske væri æskilegt. Það er nauðsynlegt að menn hafi staðreyndirnar á hreinu þegar menn fara að fella slíka sleggjudóma sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gerði hér áðan. (Gripið fram í: Eruð þið komnir til hægri við Framsókn?) Það skal ég ekkert um segja. Ég er aðeins að nefna þá staðreynd, að sá eini flokkur, sem gert hefur till. á Alþingi um ríkisútgerð togara hér á landi á undanförnum árum, er Framsfl. Það er staðreynd. Svo geta menn dregið þá ályktun af því sem þeir vilja. Við höfum hins vegar lagt áherslu á að byggt verði upp félagslegt framtak fólksins sjálfs í byggðarlögunum, í útgerð og fiskverkun, og nefnum þá sem dæmi útgerðarfélög sveitarstjórnanna, samvinnuútgerðarfélög eða blönduð útgerðarfélög af því tagi sem t. d. má finna í Skagafirði.

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að verja löngu máli í þann þvætting sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson flutti inn í þessar umr., kannske til að breiða yfir þá staðreynd hvað hefur orðið um atvinnulífið í því landi þar sem hans eigin stefna hefur verið framkvæmd. Stjórnarandstöðuarmur Sjálfstfl. gekk til síðustu þingkosninga með leiftursókn og stefnumarkanir Thatcher á oddinum. Ég hef ekki orðið var við það, að einn einasti talsmaður Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu hafi afneitað þeirri stefnu. Hins vegar hafa sjálfstæðismenn í ríkisstj. lýst því yfir, nú síðast frambjóðandi í formannssæti í flokknum, hæstv. landbrh. Pálmi Jónsson, að þetta sé ekki þeirra stefna. En það hefur enginn þm. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu enn sem komið er afneitað leifturslíknarstefnunni. Meðan svo er, þá er hún áfram stefna Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu. Við getum horft á framkvæmd þeirrar stefnu í okkar helsta nágrannalandi, Bretlandseyjum, og framkvæmdin er að það er verksmiðja á dag sem er lokað. Það eru 3 millj. manna sem nú eru atvinnulausir, það eru þúsundir smáatvinnurekenda sem hafa farið á höfuðið, og stærstu fyrirtæki landsins, m. a. í einkaeign, ramba nú á barmi gjaldþrots. Ég held því að rétt sé að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson — ef hann hefur áhyggjur af því, hvers konar stefna leiði til gjaldþrots atvinnuveganna — beiti sér fyrir því, að Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu hafi kjark til að afneita leiftursóknarstefnunni, sem hann hefur ekki gert enn, þvert á móti endurtekið hana hvað eftir annað frá síðustu kosningum.

Ég sagði áðan, herra forseti, að umr. um það frv., sem hér liggur fyrir, gæfu ekki tilefni til að fara lengra út í þessi mál. En þær furðulegu yfirlýsingar, sem hér komu fram frá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, gefa hins vegar tilefni til þess að láta þetta hér í ljós. Ég skora á hv. þm. að bera saman þau ár, 1956–1958, 1971–1974 og nú frá 1978 til þessa dags, sem Alþb. hefur verið í ríkisstj., bera þau ár í sjávarútvegi og fiskvinnslu á Íslandi saman við viðreisnarárin og ræða síðan í fullri hreinskilni hvort stjórnarmynstrið hefur orðið til meiri farsældar fyrir uppbyggingu sjávarútvegs og útgerðar á Íslandi.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson viðurkenndi hér áðan að gengisfellingarstefnan er stefna Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu. Hann kallaði hér hástöfum yfir þingsalinn: Gengið er fallið, gengið er fallið. Það er bara eftir að skrá að það sé fallið. — Hér kom einmitt fram ágreiningur hv. þm. og sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu við okkur hina. Við teljum ekki að gengið sé neitt fallið. Þvert á móti, við teljum að hin trausta gengisstefna, sem hér hefur verið, sé ein meginforsendan fyrir árangrinum sem náðst hefur við stjórn efnahagsmálanna. Það er m. a. fyrir tilstuðlan Alþb. sem þessari aðhaldsstefnu í gengismálum hefur verið fylgt. Okkur tókst ekki að fá þessa aðhaldsstefnu fram þegar við vorum með Alþfl. í ríkisstjórn. Alþfl. var gengisfellingarflokkur og er enn. Og það er ljóst að sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu eru líka gengisfellingarmenn. Stjórnarandstaðan á Íslandi á það eitt sameiginlegt að vera gengisfellingarstjórnarandstaða og sjá það helst til svokallaðrar lausnar á vanda efnahagslífsins að fella gengið. Gengið hefur ekki verið fellt umfram þá áætlun sem sett var í upphafi árs og fól í sér að verðbólgan yrði 40% á þessu ári.

Hvað sagði formaður Alþfl. þegar efnahagsráðstafanirnar voru kynntar? Hann sagði að sú gengisáætlun, sem ríkisstj. var þá með, væri fölsk. Hvað hefur komið á daginn? Hún hefur reynst hárrétt. En það er formaður Alþfl. sem hefur reynst hafa rangt fyrir sér. Hvað sögðu talsmenn Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu? Þeir sögðu að það væri verið að kyrkja atvinnuvegina með þessari efnahagsáætlun og atvinnulífið mundi ekki ganga, það mundi allt saman stranda eftir fáeinar vikur.

Hvað hefur komið í ljós? Það hefur komið í ljós að hér hefur verið blómlegasta atvinnulíf sem verið hefur í áraraðir. Allar þær yfirlýsingar, sem þeir félagar, hv. þm. Kjartan Jóhannsson og Geir Hallgrímsson, sendu frá sér eftir áramótin um efnahagsaðgerðir ríkisstj., hafa reynst rangar. En allar yfirlýsingar, sem ríkisstj. gaf við upphaf ársins um árangur sem mundi nást af þessum efnahagsaðgerðum, hafa reynst réttar, hver ein og einasta.

Óskandi væri að þessir hv. herramenn tækju sér smátíma til að fletta upp eigin yfirlýsingum frá fyrstu vikum þessa árs og bera þær saman við þann raunveruleika sem orðið hefur síðan. Það er athyglisvert að þetta kall, þetta gengisfellingarkall skuli hafa komið hér frá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni. Gengisfellingarkallið er greinilega stefna Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu. Auðvitað varð hv. þm. að klæða það aðeins í orðanna búning, en hann hafði hins vegar hreinskilni til þess að láta það koma hér fram, að það er hans meginstefna og félaga hans í stjórnarandstöðunni.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, lýsa mig sammála þeirri afstöðu sem kom fram hjá hæstv. sjútvrh. fyrr í þessum umr., að eðlilegt sé að miða við verðbólguþróun milli ára þegar skoðuð er hagnaðarviðmiðun bankakerfisins og þá Seðlabankans sérstaklega. Og það er ánægjulegt að til skuli þó vera a. m. k. einn maður í stjórnarandstöðuarmi Sjálfstfl., hv. þm. Matthías Bjarnason, sem skuli vera sammála því sem hæstv. sjútvrh. hefur sett hér fram og hefur verið stefna okkar Alþb.-manna um langa hríð. Ef aðrir þm. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu gætu nú lært af hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, hvað sé eðlileg gróðaviðmiðun bankakerfisins og Seðlabankans, og tekið höndum saman við sjútvrh. og okkur Alþb.-menn, þá ætti að vera góður grundvöllur til þess að ná hér skynsamlegri lendingu í þeim ákvörðunum í sjávarútvegs- og efnahagsmálum sem þarf að taka á næstunni. Það er þess vegna fróm ósk mín til hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, að áður en hann endurtekur gengisfellingarkall sitt hér í þingsölum gefi hann sér tóm til að ræða við hv. þm. Matthías Bjarnason, sem greinilega hefur áttað sig á því, að það kunni að vera til aðrar leiðir til lausnar efnahagsvanda Íslendinga en gengisfellingarleiðin, enda er líklega Matthías Bjarnason sá þm. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu sem fjærst hefur staðið þeirri leiftursóknarstefnu sem búin var til af hópi manna í kringum núv. formann Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson.