19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

1. mál, fjárlög 1982

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Þegar við ræddum hér um réttmæti heimildagreinar til erlendrar lántöku áðan kvaddi hæstv. fjmrh. sér til stuðnings dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóra og Höskuld Jónsson ráðuneytisstjóra, tvo ágæta hagfræðimenntaða menn, en báðir sátum við í skóla hjá hæstv. utanrrh. (FrS: Lengi býr að fyrstu gerð.) Lengi býr að fyrstu gerð, segir hv. 10. þm. Reykv., hann þekkir það. Ég vil þess vegna leyfa mér, áður en þessari atkvgr. lýkur, að vitna til hæstv. utanrrh. í bók hans, Stjórnskipun Íslands, sem kom út 1978, þá eftir að Gunnar G. Schram hafði endurútgefið hana. Þar er sérstaklega fjallað um 40. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Loks eru 6. gr., sem fjallar um heimildir til lántaka, eignasölu, ýmissa ábyrgða o.. fl., og 7. gr., þar sem kveðið er á um skattvísitölu ársins. Framangreindar lántöku- og ábyrgðarheimildir í fjárlögum eru þó strangt tekið óleyfilegar eftir stjórnarskránni. Ábyrgðarskuldbinding er skilyrt skuld, sem setja verður á bekk með lántöku og skuldastofnun. En í 40. gr. stjórnarskrárinnar eru lántökur, sem eiga að skuldbinda ríkið, bannaðar nema samkv. lagaheimild, en þar er vafalaust átt við venjuleg lög en ekki fjárlög. Ábyrgðarheimildir þessar“ — þ. e. sem áður er getið — „í fjárlögum hafa þó tíðkast svo lengi, að sá háttur verður e. t. v. nú orðið talinn venjuhelgaður, a. m. k. er hæpið að frá honum verði horfið“ — þ. e. ábyrgðarheimildunum.