26.01.1982
Sameinað þing: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

86. mál, fjölgun presta

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að setja fram svohljóðandi fsp. til kirkjumálaráðh.:

„1. Auglýst hefur verið ný staða prests á Akureyri með umsóknarfresti til 15. nóv. Er lagaheimild fyrir þessari stöðu?

2. Hvers vegna situr ekki í fyrirrúmi að fjölga prestum í Kópavogi, sem hefur töluvert fleiri íbúa en Akureyri?“ Það er, eins og sést á fsp., farið að slá í hana og dregist hefur að svara henni. Nú er búið að kjósa prest þarna og ganga frá öllu væntanlega. Ástæðan fyrir þessari seinkun er fjarvera mín og einnig kirkjumálaráðh., en tilefnið til þessara fsp. er það sem fram kemur í fsp. og jafnframt hvort ekki þarf að breyta lögum um skipan prestakalla til að mögulegt sé að fjölga um leið. Er ekki þörfin fyrir nýja presta brýnni þar sem íbúafjöldi er meiri, eins og t. d. í Kópavogi? Er ekki eðlilegt að auka þjónustu presta við þá er dvelja á sjúkrahúsum og þá sem lokaðir eru inni í fangelsum? Og þá kemur annað í hugann: Er ekki ástæða til að minnka geysilegt vinnuálag presta í Reykjavík sem í raun eiga aldrei frjálsa stund?