02.02.1982
Neðri deild: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2133 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

182. mál, tollskrá o.fl.

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég verð að segja að ræða hæstv. fjmrh. olli mér miklum vonbrigðum, einkanlega vegna þess að ég sé að hin vondu áhrif samráðh. hans virðast vera býsna mikil úr því að hann fæst ekki einu sinni til að koma í litlu til móts við þær till. sem ég lagði hér fram í sambandi við bæði hljómplötur og hljóðfæri. Nú hygg ég að það sé rétt, og ég bið hæstv. fjmrh. að leiðrétta ef það er rangt hjá mér, að hér innanlands séu bæði framleiddar hljómplötur til útflutnings með erlendu efni og einnig hljómplötur með innlendu efni. Ég hygg þess vegna að það sé meint brot á samningunum við EFTA-löndin að tollar séu ekki algjörlega afnumdir af hljómplötum frá EFTA-löndunum. Nú tek ég það fram, að ég er ekki jafnvel að mér í þessum milliríkjasamningum og sérfræðingar hæstv. fjmrh. sem mættu á fundi hjá fjh.- og viðskn. En ég vil spyrja hv. 3. þm. Austurl., ef hann er hér inni, — hann virðist ekki vera hér, formaður nefndarinnar, — eða hæstv. viðskrh., ef hann væri hér í húsinu, hvort þetta sé ekki rétt með farið hjá mér. Fyrst þeir eru ekki hér skal ég láta mér nægja að spyrja um hvort einhver af þeim mönnum, sem sátu í fjh.- og viðskn., geti upplýst hvort sérstök athugun hafi farið fram á því varðandi hljómplötur hvort milliríkjasamningar okkar beinlínis ætlist ekki til þess að tollur sé afnuminn á innflutningi á hljómplötum frá EFTA-löndunum. Ég held, að það sé algjörlega nauðsynlegt að þetta liggi fyrir, og óska eftir að þetta verði kannað sérstaklega milli 2. og 3. umr. til þess að enginn misskilningur geti orðið í þessum efnum. En ég geri ráð fyrir að hæstv. fjmrh. svari mér varðandi þetta atriði nú við umr.

Vegna þeirra ummæla, sem hér hafa komið fram frá ýmsum þm. og síðast frá hæstv. fjmrh., virðist gert ráð fyrir að leggja á sérstakt 1% tollafgreiðslugjald til að vega upp á móti lækkun á stimpilgjaldi og upp á móti lækkun launaskatts. Nú vitum við ofur vel að lækkun launaskattsins og lækkun stimpilgjaldsins hafa ekki áhrif á verðlag hér heima hjá launþegum, verðlag á hinum almenna markaði. Á hinn bóginn hækkar tollvörugjaldið almennt verðlag. Þetta sagði hv..3. þm. Vestf. að Alþb. kallaði „slétt skipti“. Þetta kalla Snæfellingar hnífakaup í myrkri. (Gripið fram í: Að óséðu.) Að óséðu. Nú vil ég beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh., og ég vænti þess, að hann svari þingheimi því skýrt og skorinort, hvenær hann hugsi sér að tollvörugjaldið verð lagt á. Hvenær á tollvörugjaldið að verða lagt á? Ég sé að hér er staðgengill hæstv. forsrh., kurteis maður og prúður. Ég vænti þess, að ef hæstv. fjmrh. fæst ekki til að svara fsp. muni hæstv. varaforsrh. gera það. Það er náttúrlega algjörlega útilokað fyrir virðingu þessarar stofnunar, sem við erum öll kosin til af fólkinu í landinu, að hér sé hæstv. fjmrh. að tala um að í dag fyrir kl. 2 verði að samþykkja einhverja ákveðna tollalækkun til þess svo eftir helgi að leggja á nýja skatta, sem aftur hækka verðlagið. Þetta getur auðvitað ekki gengið og það þarf að liggja fyrir hér í dag, áður en þessari umr. lýkur, frá þessari ríkisstj., frá þessum hæstv. ráðh., hvenær tollvörugjaldið verður lagt á. Þó að ég geti hrópað hátt hrópa ég ekki jafnhátt og allir launþegarnir í landinu þegar þeir biðja um eitthvert lágmarksréttlæti hjá þessari hæstv. ríkisstj. Þetta þarf að liggja fyrir.

Ég vil vekja athygli á að ríkisstj. sá ekki ástæðu til þess núna fyrstu dagana í janúar, eins og í fyrra, að láta fara fram sérstaka verðkönnun í landinu til þess að það kæmi í ljós hvað verðbólgan var mikil frá upphafi til loka árs. Allt á það að vera opið í annan endann og laust í reipunum núna varðandi þetta ár. Í fyrra voru vörurnar mældar um miðjan janúarmánuð. Allt er það því falskt og lygin tóm sem sagt er um verðbólgu frá upphafi til loka árs, enda ekki annars að vænta frá þessum mönnum.

Nú skilst mér á hæstv. fjmrh. og ýmsum öðrum að Hagstofan hafi verið beðin um að láta fara fram verðkönnun í öllum þeim verslunum í dag og í gær þar sem ekki eru seld heimilistæki. Hvað mundi gerast ef hv. 3. þm. Reykv. lokaði tollvörugeymslunni fram á föstudag og hleypti ekki út neinum heimilistækjum þannig að enginn maður gæti keypt heimilistæki á nýja lága verðinu fyrr en eftir helgi? Hvað mundi verðkönnunin þá segja? Er einhver trygging fyrir því, að menn taki út heimilistæki á lága verðinu fyrir föstudag? Eða skiptir það bókstaflega engu máli? Er það bara þessi reiknaða verðbólga sem skiptir máli? Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur hann einhverja tryggingu fyrir því, að verðkönnun á heimilistækjunum hafi ekki þegar farið fram? Eftir hverju er þá farið? Hvað byrjar Hagstofan sína verðkönnun?

Ég sé að formaður fjh.- og viðskn. hefur aftur horfið úr deildinni svo ég geri ekki ráð fyrir að hann svari spurningu minni. Ég vil þá beina henni aftur til fjmrh. og spyrja hann hvort sérstök athugun eða könnun hafi farið fram á því, hvort ekki sé nauðsynlegt vegna milliríkjasamninga okkar að tollar af hljómplötum verði þegar í stað afnumdir frá EFTA-löndum. Þeir eru núna 20% á innlendu efni, en 75% á erlendu.