02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

349. mál, afstaða til atburða í El Salvador

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður með frekari lýsingum á því hörmungarástandi, sem ríkir í El Salvador, og þeirri ógnarstjórn sem þar fer með völd. En svo mikið er ljóst, að þarna eiga sér stað stórkostleg fjöldamorð. Í þessu máli verður rödd Íslendinga að heyrast hátt og skýrt. Bandaríkin hafa þarna stigið mikið víxlspor, og ég legg áherslu á að ríkisstjórn Íslands beiti áhrifum sínum af fremsta megni til þess að endi verði bundinn á þá ógnarstjórn sem þarna á sér stað og stuðning Bandaríkjamanna við hana.

Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýr og glögg svör, en legg enn og aftur áherslu á að rödd Íslands í þessu máli heyrist á alþjóðavettvangi og að við beitum okkur til að stuðla að farsælli lausn. Hernaðarleg lausn á þeim vanda, sem þarna er fyrir hendi, er ekki til. Pólitísk lausn, félagsleg lausn, er eina leiðin.