02.02.1982
Sameinað þing: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2181 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

171. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það getur ekki leikið nokkur vafi á því, að það eru lögmætir kjörnir fulltrúar þjóðþingsins á Spáni sem hafa sett fram beiðni um að gerast aðili að Atlantshafsbandalaginu. Að sjálfsögðu getur verið einhver minni hluti þar sem er andvígur því. Slíkt hefur gerst, kannske í nær öllum löndum sem hafa gerst aðilar að Atlantshafsbandalaginu. En ég býst við að við hér séum sammála þeirri grundvallarreglu, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson drap á og undirstrikaði, að auðvitað verður að hlíta því sem lögmætir forsjármenn ríkis ákveða, annað ríki, t. d. við Íslendingar í þessu tilfelli getum ekki farið að gerast forsjármenn Spánar. Það, sem er meginatriði, er að Spánn hefur á löglegan hátt óskað eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Ég held að það væri mjög óeðlilegt og óheppilegt ef Ísland snerist gegn slíkri beiðni af hálfu Spánar. Spánn er gamalt vinaríki Íslands, gamalt rótgróið viðskiptaland Íslands, eitt af þýðingarmestu viðskiptalöndum Íslands. Það þykir kannske goðgá að nefna í þessu sambandi viðskiptahagsmuni. Samt sem áður verðum við Íslendingar að hafa það í huga, að við erum ekki einir í heiminum og við verðum — eða það er a. m. k. æskilegt fyrir okkur að við eigum sem víðast vinum að mæta. Það er ákaflega óvarlegt af okkar hálfu að vera með móðganir í garð annarra ríkja þegar ástæðulaust er. En það mundi vissulega vera tekið þannig ef við snerumst gegn inntökubeiðni Spánar. Eins og ég sagði er Spánn ekki lítið viðskiptaland okkar. Það eru ekkert litlir hagsmunir okkar í húfi í sambandi við Spán.

Á s. l. ári voru flutt héðan til Spánar milli 10 þús. og 11 þús. tonn af saltfiski. Þá voru flutt til Spánar af saltfiski nær 20 þús. tonn alls frá Íslandi og öðrum löndum. Og Spánverjar sjálfir veiða fisk sem nemur um 20 þús. tonnum af saltfiski. Ísland flytur því til Spánar fjórðung þess saltfisks sem þar er á boðstólum. Það þykir kannske, eins og ég sagði áðan, goðgá að nefna svona atriði í sambandi við þetta mál. En þetta eru samt staðreyndir sem hollt er að hafa í huga.

En hitt er sjálfsagt, að utanrmn. fái þau gögn sem varða þetta mál, þannig að menn fái þær upplýsingar sem fyrir hendi eru. Ég vænti þess, þó að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson verði á móti þessari beiðni, að hann athugi málið með skynsemi. Og kannske mundu renna á hann tvær grímur ef það ylti á hans atkvæði.