04.02.1982
Sameinað þing: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2227 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

345. mál, leiguskip Skipaútgerðar ríkisins

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fyrsta spurning er í þremur liðum.

Spurt er: Hvaða skip er Skipaútgerð ríkisins nú með á leigu? Er fyrirhuguð fjölgun þeirra?

Skipaútgerð ríkisins hefur verið með eða var í desember með tvö skip á leigu, annað norskt og hitt íslenskt, sem var reyndar á leigu tímabundið. Þessi skip eru m/s Vela og síðan íslenska skipið til stutts tíma, m/s Helgey. Ég vil taka það fram, að ekki er fyrirhugað að fjölga leiguskipum útgerðarinnar. Skipaútgerðin hefur alllengi verið með eitt erlent skip á leigu. Það stafar einfaldlega af því að ekki hefur fengist fjárveiting til þess fyrr en nú nýlega að endurnýja skipakost Skipaútgerðarinnar. Eins og hv. þm. vita hefur Skipaútgerðin rekið tvö skip sem eru orðin gömul og mjög úrelt miðað við þær kröfur sem gerðar eru í dag. Til að koma rekstri Skipaútgerðarinnar í betra horf var horfið að því ráði að leigja eitt erlent skip sem er miklu fullkomnara í öllum tækniútbúnaði en þau gömlu íslensku, en fleiri verða þau ekki.

Þá er spurt í b-lið: Undir hvaða flaggi sigla þau? Íslenska skipið m/s Helgey siglir að sjálfsögðu undir íslensku flaggi, en m/s Vela undir norskum fána.

Þá er spurt í c-lið: Samkv. hvaða samningum er lögskráð á þau?

Svar við þessu er þannig: Skipin eru leigð með áhöfn og eru því samningar og lögskráning í höndum eigenda þeirra. Einn maður er þó um borð í norska skipinu frá Ríkisskip og er sá skráður samkv. norskum reglum, en greidd laun samkv. íslenskum samningum. Þetta er viðkvæmt mál og ég hef átt viðræður við fulltrúa farmanna og fiskimanna um þetta mál. Mér er fyllilega ljóst að þarna stangast reglur á. Hins vegar hafa þessir fulltrúar, með tilliti til þess, hve mikilvægt hefur verið að bæta skipakostinn, ekki gert alvarlegan ágreining við það að eitt skip yrði á leigu, en hins vegar lagt á það ríka áherslu, að skipin yrðu ekki fleiri, og hafa tjáð mér að þeir muni ekki una því, enda er engin hugmynd uppi um það. Ef þeirri hugmynd hefur einhvern tíma verið hreyft hef ég ekki fallist á hana og mun ekki fallast á hana.

Þá er spurning 2: Er farið að ákvæðum íslenskra laga og samningum við innlend stéttarfélög um fjölda áhafnarmanna?

M/s Helgey er í eigu Reykhólaskips h/f og heyrir að sjálfsögðu undir íslensk lög. Fyrir m/s Vela hef ég svarað með því sem ég sagði áðan. Farið er að norskum lögum, enda siglir skipið undir norskum fána og í samningum um norsk leiguskip er það sett að skilyrði að norsk áhöfn sé á skipunum.

Almennt skal ég ekki fara ítarlega út í það sem hv. fyrirspyrjandi sagði áðan. Hv. fyrirspyrjandi taldi Ríkisskip ekki alvöruskipafélag. Ég vil andmæla því. Á Ríkisskip hvílir sú kvöð umfram önnur félög að koma varningi til ýmissa hafna og staða sem tvímælalaust er mjög óarðbært að sigla á. Þetta viðurkenna allir. Reynt hefur verið að hagræða þessu nú þannig að fækka þessum viðkomustöðum, en flytja hins vegar á milli með bifreiðum og fullnægja þannig þeirri þjónustu sem Ríkisskip er ætlað að sinna. Engu að síður gæti ég upplýst hér um viðkomu á fjölmörgum stöðum á landinu og leyfi mér að fullyrða að fáum af þeim skipafélögum, sem hann kallar alvöruskipafélög, dytti í hug að koma við á stöðum eins og Norðfirði, Kópaskeri og mörgum fleiri. Ég held að menn megi ekki gera lítið úr þessari þjónustu, og ég trúi því varla að hv. fyrirspyrjandi hafi hugsað sér það.

Nú hefur hv. Alþingi fallist á hugmyndir um að endurnýja skipakostinn og gera Skipaútgerð ríkisins betur úr garði til að sinna þessum mikilvægu verkefnum. Þetta kemur þegar fram í lánsfjáráætlun ársins 1981, og hefur á grundvelli þeirrar samþykktar verið gerður samningur um nýtt skip og gert jafnframt ráð fyrir að kaupa systurskip m/s Vela, enda verði þá gömlu skipin bæði seld.

Ég get jafnframt upplýst, að á síðasta ári varð kostnaður ríkissjóðs sem hlutfall af rekstri Skipaútgerðarinnar töluvert minni en hann hefur verið áður. Ég held að ég megi segja að aðild ríkissjóðs hafi orðið um 40% rekstrarkostnaðar, en hefur áður verið um helming.

Ég get loks upplýst að hafnar eru núna viðræður á milli Skipaútgerðarinnar og „alvöruskipafélaganna“ um samvinnu um strandferðir. Ég skipaði þá nefnd að ósk eins skipafélagsins. Tel ég það vera mjög virðingarverða ábendingu, og ég geri mér vonir um að þá geti orðið samvinna og samstarf sem verði öllum skipafélögunum til góðs.