08.02.1982
Neðri deild: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2276 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

172. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. 2. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. frsm. 1. minni hl. sjútvn., formanni n., að það voru ekki mættir nema fjórir nm. á þessum fundi, en rétt þegar fundinum lauk kom fimmti nm., sem málið var þá rifjað upp fyrir, og hann tók undir það að afgreiða málið með sérstöku nál., eins og ég tilkynnti stjórnarsinnum í nefndinni að ég mundi gera. Forföll Sigurlaugar Bjarnadóttur, sem sat á þingi í fjarveru Péturs Sigurðssonar, voru eðlileg. Það er auðvitað ekki rétt í nál. 1. minni hl. að hún hafi verið fjarverandi því að hún fór út af þingi þennan dag, en aðalmaður tók sæti og hann fékk þess vegna ekki fundarboðið. Um það er ekki hægt að sakast við neinn. Það getur alltaf komið fyrir og ekki við því að búast að menn viti um þegar aðalmaður tekur sæti á ný eða varamaður kemur í stað aðalmanns. En þessi var ástæðan fyrir fjarveru Péturs Sigurðssonar á þessum fundi sem tekur einnig þátt í að afgreiða málið með því nál. sem ég mæli fyrir og af sömu ástæðum. Aðeins einn nm. var ekki í bænum, hv. 6. landsk. þm., og gat þar af leiðandi ekki verið á fundi nefndarinnar.

Hv. formaður sjútvn. hefur rakið afstöðu sína og ég hygg þá um leið annarra, sem standa að því nál., og sagt það sem satt er og rétt, að þeir standi frammi fyrir orðnum hlut og sjái sig tilneydda að leggja til að þetta frv. verði samþykkt óbreytt og af þeim ástæðum sem hann áðan nefndi. Við fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni teljum okkur ekki bundna af slíku samkomulagi sem gert er án þess að hafa hið minnsta samráð við okkur í sambandi við meðferð þessa máls. Það var mjög auðvelt að gera, en ekki gert. Því er þetta á ábyrgð stjórnarliðsins. En okkur er fullkomlega ljóst að ef þetta frv. næði ekki fram að ganga mundi það hafa í fór með sér stöðvun fiskveiðiflotans og því viljum við ekki vera valdir að.

Saga þessa olíugjalds til fiskiskipa hefur verið rakin nokkuð af formanni sjútvn. og ég skal ekki fara að endurtaka það, en vil þó minna á að árið 1980 voru þrisvar sinnum sett lög um olíugjald: fyrst af starfsstjórn Alþfl., af þáv. sjútvrh. sem beitti sér fyrir að olíugjaldið var ákveðið 5% miðað við fiskverð eins og það er ákveðið af Verðlagsráði sjávarútvegsins. Þau lög voru sett 24. jan. Í tíð núv. sjútvrh. var þetta gjald tvívegis ákvarðað á árinu 1980. I fyrra var það gert með lögum 10. apríl og þá var gerð sú breytinga á þessum lögum, að gjaldið var lækkað í 2.5% og látið var í veðri vaka að ein af ástæðum þess að lækka þetta gjald um helming á miðri vetrarvertíð væri sú, að skráð gasolíuverð á Rotterdammarkaði hefði þá um nokkurt skeið farið lækkandi. Við sjálfstæðismenn í sjútvn., sem stóðum að nál. þá um þetta mál, vöruðum við að breyting á gjaldinu þann tíma sem eftir var af fiskverðstímabili, því að engin teikn voru á lofti sem bentu til að olíuverð færi lækkandi á því tímabili, enda kom á daginn að breyting varð ekki á olíuverði til lækkunar þetta fiskveiðitímabil. En um haustið, í sambandi við ákvörðun fiskverðs fyrir haustmánuðina, er lagt fram þriðja frv. um olíugjald hér á hv. Alþingi — og það er lögfest hinn 26. nóv. Þá er þetta gjald hvorki meira né minna en þrefaldað. Þar sýndi sig að aðvörun okkar átti fullan rétt á sér, að það var fljótfærni og algert ráðleysi að lækka gjaldið úr 5% í 2.5%, en þrefalda það svo aftur að hausti þess sama árs. síðan hefur þetta gjald verið 7.5%, miðað við fiskverð eins og það er ákveðið af Verðlagsráði sjávarútvegsins, allt árið 1981 og þangað til nú að samningar tókust, í fyrsta lagi kjarasamningar milli útgerðarmanna og sjómanna og í öðru lagi samningar um ákvörðun fiskverðs, en þá er þetta gjald lækkað um 0.5% eða úr 7.5%.

Við höfum, fulltrúar Sjálfstfl. í sjútv.-nefndum, lýst því yfir oftar en einu sinni hér í umr. og meira að segja í nái., að við værum reiðubúnir til samstarfs við sjútvrh. og ríkisstj. um aðra tilhögun þessa gjalds en þá sem verið hefur, og við höfum líka látið að því liggja alveg ótvírætt, að við teldum ekki sanngjarnt að sjómenn og útvegsmenn einir ættu að standa undir þessu gjaldi með þessum hætti, og þó sérstaklega sjómenn í lækkandi tekjum sem þessu nemur, heldur væri hér um samfélagsvanda að ræða sem mætti leysa með öðrum hætti. Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar okkar hefur hæstv. ráðh. aldrei svo mikið sem nefnt það einu orði að endurskoða álagningu þessa gjalds og athuga aðrar leiðir í sambandi við að standa undir þeim miklu verðhækkunum sem orðið hafa á þessum vörum. Í stað þess að hafa náið samstarf við Alþingi er alltaf í vaxandi mæli verið að fara fram hjá Alþingi í einu og öllu.

Það er ráðsmennskast við að setja lög eins og frsm., sem var að ljúka máli sínu, sagði: Fyrst verða þau til í hagsmunasamtökum og í fjölmiðlum. Síðan neyðast stjórnvöld til að leggja málin fyrir til samþykktar á Alþingi og þá standa þm. oft frammi fyrir orðnum hlut og nauðugir viljugir greiða þeir þá atkv. með slíkum málum á meðan þeir drattast til þess að fylgja þeirri ríkisstj. sem situr að völdum. Þetta er talin heilög skylda. Þeir þm., sem enn þá halda af einhverri tryggð eða vana áfram að styðja þessa ríkisstj., þó að allir séu orðnir hundleiðir á henni og það þarf engan það að undra, koma þessu máli fram til að þjóna þeim aðgerðum sem eru gerðar fram hjá Alþingi um áramót. Það hefði þó verið létt verk fyrir hæstv. sjútvrh. og ríkisstj. að hafa samráð við sjútv. nefndir þingsins um þessi mál. Það stóð þó allt öðruvísi á. Þarna er um 14 þm. að ræða, sem eru fulltrúar allra þingflokka, í þessum nefndum, og ég hygg að það hefði ekki orðið til þess að tefja fyrir framgangi málsins ef samráð hefði verið haft. En það er orðið áberandi að vilja troða á rétti sjálfs löggjafans, og þá á ég ekki við þetta eina mál, þau eru mörg önnur, og líka má þar ásaka fleiri ráðh. en þennan eina. Sjá allir að virðingu Alþingis er misboðið með þessum vinnubrögðum. Hinu neita ég ekki, að ég vil ekki bera ábyrgð á því, að mál þetta falli hér í þingi vegna þess að ég veit hve geigvænlegar afleiðingar það hefði. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning hjá fyrri ræðumanni sagði ég einmitt að ég vildi ekki taka ábyrgð á því að þetta mál félli, en hins vegar vildi ég sem stjórnarandstæðingur standa að sérstöku nál. og mundi ekki bregða fæti fyrir afgreiðslu málsins og því síður að tefja að málið næði fram að ganga. — Þetta er í stuttu máli það helsta sem hefur gerst í þessu máli og það sem við teljum vera ámælisvert.

Það væri ekki úr vegi að spyrja að því í leiðinni, hvers sé að vænta um verð á olíu á næstu vikum og mánuðum. Nú fer olíuverð lækkandi í heiminum og bensínverð sömuleiðis. Að vísu minnkar gildi okkar krónu þannig að hluti af verðlækkuninni fer vegna verðrýrnunar krónunnar. Allir skilja að þessar lækkanir geta því ekki náð til þess. En ósköp þykir mönnum orðið leiðinlegt að horfa upp á og hlusta á að t. d. hækki bensínverð tvisvar sinnum á tveimur vikum og það verulega á sama tíma og þau gleðitíðindi heyrast að olíur og bensín séu að lækka á heimsmarkaðinum. Önnur hækkunin nú var vegna framlags til vegagerðar. Stendur Alþingi að þeirri ákvörðun og þar af leiðandi höfum við ekkert við það að athuga. En hitt er annað mál. Nú segir forstjóri eins olíufélagsins í samtali, ég held að það hafi verið við Morgunblaðið fyrir örfáum dögum, að hann telji að olíuverð fari lækkandi, en hins vegar séu olíubirgðir til þriggja mánaða. Hann gefur í skyn að það muni eitthvað hægja á olíuverðshækkunum þess vegna. Mér finnst þetta vera nokkurt áhyggjuefni — og þó að olíuverðið skipti ekki að öllu leyti olíugjaldið gerir það það óbeint því að olíugjaldið er til vegna olíuverðs. Allir þeir, sem olíu kaupa og þurfa að nota, sem eru margir, og ég tala nú ekki um alla þá sem bensínið kaupa, telja ástæðu til þess, að hæstv. ríkisstj. gefi einhverjar skýringar og segi frá því, hvers sé að vænta í þessum efnum. Nú er mér ljóst að þetta mál heyrir ekki undir hæstv. sjútvrh., en þar sem stutt er á milli þeirra sjútvrh. og viðskrh. kæmi mér það ekkert á óvart að þeir hefðu rætt um þessi mál sín á milli. Því væri fróðlegt að fá um þetta upplýsingar við afgreiðslu þessa máls.