10.02.1982
Efri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2353 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

188. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. er þetta ekki fyrsta gengisfellingin sem fjalla er um frá því að ríkisstj. ákvað að taka upp stöðugt gengi. Það stöðuga gengi hefur ekki verið stöðugra en svo að stundum hafa ekki liðið nema eins og 30 dagar á milli gengisfellinga. Sú gengisfelling, sem hér er verið að fjalla um, er frá 14. jan. s. l., en hins vegar mun þá hafa verið gefið út loforð um að fella gengið enn frekar á næstu vikum þannig að það er óvíst að bilið milli gengisfellinga nái einu sinni 30 dögum í þetta sinn. Þegar svona er haldið á málum er auðvitað fráleitt að tala um stöðugt gengi, og hefur þar sannast að þær hugmyndir, sem ríkisstj. hafði uppi um stöðugt gengi, hafa reynst algerlega óraunhæfar og reyndar skapað mjög mikil vandamál hér í þjóðfétaginu.

Það væri kannske ástæða til að fjalla mjög ítarlega um stefnu í gengismálum, en ég skal frekar stytta mál mitt. Sú stefna var ríkjandi samkv. Bretton Woods-samkomulaginu, hér á landi eins og annars staðar, að fylgja fastri gengisskráningu og það var ekki nema með miklum undantekningum sem þar urðu breytingar á. Fyrir nokkrum árum, upp undir það áratug sjálfsagt bráðlega, var breytt um vinnubrögð í þessum efnum og farið inn á sveigjanlega gengisskráningu hjá öllum helstu viðskiptaþjóðum heims. Í sjálfu sér má segja að það hafi átt að vera Íslendingum léttir að farið var út af fastgengisstefnunni vegna þess að það þýddi hrikaleg átök í þjóðfélaginu og mikla erfiðleika, sérstaklega þegar menn bjuggu við þá óvissu og sveiflu í útflutningsframleiðslu, sem hér hefur verið ríkjandi, og eins vegna þeirrar kostnaðarþróunar sem hefur verið hérlendis. Ísland fylgdi fordæmi annarra í þessum efnum og var tekin upp sveigjanleg gengisskráning. Hitt verður að viðurkenna, að hin sveigjanlega gengisskráning hafði allt of mikla tilhneigingu til að verða hluti af vélgengiskerfinu sem í gangi er hér á landi með útreikningum og sífelldum hækkunum og víxlverkunum á verðlagi alls konar varnings og þjónustu. Þó að hin sveigjanlega gengisstefna hefði ýmsa ótvíræða kosti í för með sér bjó hún líka yfir nokkrum freistingum, verður að viðurkennast, sem menn féllu allt of gjarnan fyrir.

Hitt er það, að upp á síðkastið hefur það orðið tíðkanlegt, og þó alveg sérstaklega í sambandi við þá gengisbreytingu sem hér er verið að fjalla um, að gengisbreyting væri í raun og sannleika ekki eftir neinni sérstakri ákvörðun ríkisstj. Menn muna kannske hver aðdragandi þessarar gengisbreytingar var. Seðlabankinn, sem er allra banka varkárastur, gerði tillögu um það um áramótin, að gengið yrði fellt um 10%. Þegar Seðlabankinn gerir tillögu af þessu tagi er það venjulega vegna þess að hann telur líklegt eða telur sig hafa vissu fyrir að ríkisstj. sé reiðubúin að samþykkja tillögu af þessu tagi. Svo reyndist ekki í þessu tilviki, heldur sat ríkisstj. á gengismálunum vikum saman þannig að horfði til vandræða hér innanlands. Bankar voru lokaðir vikum saman og rýrði náttúrlega álit Íslands meðal erlendra þjóða stórlega. Erlendir viðskiptaaðilar gátu varla skilið að bankar væru hér lokaðir, ekki í einn eða tvo daga, heldur vikum saman. Þetta er auðvitað stórkostleg aðgerð. Við vorum með þessu í rauninni að loka viðskiptalegum landamærum landsins um langan tíma. Erlendir aðilar spurðu þegar þetta bar á góma: Er stjórnarkreppa á Íslandi eða hvað? Kannske höfðu þeir rétt fyrir sér, að það hafi verið stjórnarkreppa. En það verður að segja eins og er, að þetta var hörmungarástand og sundurlyndi ríkisstj. birtist náttúrlega í því að hún skyldi ekki geta tekið ákvörðun af eða á í þessum efnum. Niðurstaðan varð svo sú, að það voru aðilar úti í bæ sem settu ríkisstj. fyrir hvað gengið ætti að vera. Þeir pöntuðu gengisfellingu. Svo merkileg var þessi saga að þeir aðilar pöntuðu eina gengisfellingu einn daginn, nefnilega þá sem hér á að fjalla um ráðstafanir í sambandi við, en síðan dugði það ekki, menn töluðu nefnilega saman svolítið lengur, og þá varð ríkisstj. að gefa út loforð um viðbótargengisfellingu sem við eigum að fá þessa dagana.

Ég rek þetta vegna þess að það er skoðun mín að stjórnkerfið hafi beðið mjög mikinn hnekki þegar gengisfellingar eru pantaðar, afgreiddar og þeim lofað af ríkisstj. með þessum hætti, — þegar aðilar úti í bæ fara að skipa ríkisstj. fyrir verkum í gengismálum. Hér held ég að hafi átt sér stað endanlegt gjaldþrot þeirrar gengisstefnu sem ríkt hefur hér undanfarin misseri undir núverandi ríkisstj. Sannleikurinn er sá, að það er langtum farsælla að fylgja fastmótaðri gengisstefnu sem menn séu reiðubúnir til að fylgja fram af festu og aðilar vinnumarkaðarins, atvinnurekendur, viti hver sé og lagi sig að. En þá verður sú gengisstefna vitanlega að vera raunhæf og taka mið af því að halda uppi fullri atvinnu í landinu jafnframt því að veita aðhald í verðlagsmálum.

Ég skal ekki á þessu stigi, herra forseti, gera sérstaklega að umræðuefni efnisinnihald þeirra brbl. sem hér er óskað staðfestingar á. En ég verð að lokum að geta þess, að mér kemur efnisinnihald þessara brbl. spánskt fyrir sjónir að því leyti, að ég minnist þess ekki að hafa lesið fréttir um þær ráðstafanir sem hér er gert ráð fyrir, að ráðstafa 6% af gengismun í Verðjöfnunarsjóð. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort það hafi verið gefin út fréttatilkynning af hálfu ríkisstj. um þetta efni þegar þessi ráðstöfun var gerð. Sá háttur hefur venjulega verið hafður á að gefa út fréttatilkynningar um slíkt og verður að teljast bæði sjálfsagt og eðlilegt vegna þess að hér er um lagasetningu að ræða. Hún gerist með venjulegum hætti þannig að um lögin er fjallað hér á Alþingi fyrir opnum tjöldum, þannig að allir geti fylgst með ekki bara afgreiðslu málsins, heldur líka umr. um það, og í samræmi við að þetta sé opinber gerningur, sem allir eigi að vita um, hefur vitaskuld verið fylgt þeirri reglu að gefa út fréttatilkynningar um brbl. sem gefin eru út. Ég minnist þess hins vegar ekki að hafa lesið fréttatilkynningu um þetta efni og vil þess vegna spyrja hæstv. forsrh. að hvort og þá hvenær hún hafi verið gefin út og hvar hún hafi birst.