11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að athuga, hvaða lagaákvæði gilda um birtingu laga, þegar ríkisstj. er gagnrýnd fyrir að hafa ekki birt lög eins og tilskilið er.

Um birtingu laga eru ákvæði, eins og kunnugt er, í lögum sem heita: Lög um birtingu laga og stjórnvaldserinda, nr. 64 frá 16. des. 1943. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í A-deild Stjórnartíðinda skal birta lög öll, tilskipanir, opin bréf, auglýsingar og aðrar tilkynningar almenns efnis, sem út eru gefnar af æðsta handhafa framkvæmdavaldsins, svo og reglur, sem sameinað Alþingi kann að setja um framkvæmd almennra málefna í þingsályktunum.“

Mér er ekki kunnugt um að það séu frekari ákvæði í lögum um birtingu laga. Það kann að vera ástæða til að gera á þessu einhverjar breytingar, en meðan þetta eru lög er ekki hægt að áfellast ríkisstj. fyrir að hún hafi ekki farið að lögum eins og Alþingi mælir fyrir um.

Til viðbótar varðandi gengismálin ætla ég að leyfa mér að lesa hér upp aðra lagagrein, en hún er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Seðlabankinn ákveður að fengnu samþykki ríkisstj. stofngengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldeyri og gulli.“ Það fer heldur ekkert á milli mála hver aðild ríkisstj. er að þessum málum og engin ástæða til þess fyrir ríkisstj. eða ráðh. að skorast undan ábyrgð í sambandi við gengismál. Það hefur engum dottið í hug. Þessi ákvæði eru hvor tveggja svo skýr sem verða má að manni sýnist ekki tilefni til að hreyfa slíku máli utan dagskrár hér á hv. Alþingi.