17.02.1982
Neðri deild: 41. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2491 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

27. mál, samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 332 um frv. til laga um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar. Það er meiri hl. menntmn. sem stendur að þessu nál. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson stendur ekki að álitinu.

Eins og heiti frv. gefur til kynna fjallar það um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar. Það gerir ráð fyrir að stofnuð verði samstarfsnefnd og tilgangur hennar sé að vinna að auknum skilningi í löggjafarstarfi á vandamálum og verkefnum kirkjunnar. Nefndin hefur gert örlitla breytingu frá fyrstu gerð frv. og gerir að tillögu sinni að hluti 1. gr. falli út, eins og getið er um í nál. Meiri hl. n. þótti rétt að mæla með frv. þannig breyttu, en tilgangur frv. er, eins og ég hef getið um, að koma á samstarfi milli Alþingis og þjóðkirkjunnar um þau málefni sem þessar hv. stofnanir varða sameiginlega.

Meiri hl. telur að þessi tilhögun geti verið til bóta þar sem þá gæfist þessum aðilum tækifæri til að ræða saman um hin ýmsu málefni, svo sem fyrirhuguð lagafrv. og því um líkt.

Það er ekki ástæða til að hafa langt mál um þetta, heldur vísa til grg. með frv. Þó má e.t.v. geta þess, að mörgum hefur kannske fundist að þegar málefni kirkjunnar bæri á góma hér á Alþingi væru menn ekki fyllilega reiðubúnir til að taka efnislega og hlutlæga afstöðu til málanna. Meiri hl. hefur komist að þeirri niðurstöðu, að það væri fyllsta ástæða til að vinna sem best að þeim málum og kirkjunnar menn og alþm. hefðu tækifæri til að skiptast á skoðunum um þau málefni, sem ættu að koma fyrir Alþingi, áður en þau kæmu hingað í frv.-formi.

Herra forseti. Ég legg til að að umr. lokinni verði málinu vísað til 3. umr.