18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2506 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

27. mál, samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var til 2. umr. og afgreiðslu í gær í þessari hv. deild greiddu nokkrir hv. þm. atkvæði gegn því, en ég held á misskildum forsendum. Ég vil því koma litilli leiðréttingu á framfæri.

Í menntmn. Nd. varð samkomulag um að fella niður úr 1. gr. frv., þar sem fjallað er um tilgang samstarfsnefndar Alþingis og þjóðkirkjunnar, orðin „svo og eflingu kristni og auknum trúar- og menningaráhrifum þjóðkirkjunnar“, eins og það var orðað.

Þetta er auðvitað ekki gert til þess að draga úr starfi þessarar nefndar, heldur var það skoðun nm. að setning sem þessi ætti varla heima í lagatexta. Ef nefndin hefði t.d. starfað í eitt ár eða tvö og ekki lagt fram neinar beinar tillögur í þeim efnum væri hún í bókstaflegum skilningi orðin brotleg við þessa grein laganna. Af þessum og öðrum ástæðum verður þessi setningarhluti óþarfur. En samt skal rækilega undirstrikað að auðvitað er ekki verið að draga úr því, hvað þessi nefnd skuli gera, enda er það alveg ljóst af 1. gr. frv. þar sem segir:

„Starfa skal samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar.“

Að öðru leyti hygg ég að hér sé um ágæta skipan mála að ræða, og það er verulega til umhugsunar hvort á fleiri sviðum væri ekki skynsamlegt að koma á samstarfsnefndum Alþingis og aðila vítt og breitt um samfélagið, eins og t.d. kennarasamtaka.

Ég er viss um að þau mótatkvæði, sem hér féllu í gær, voru byggð á misskilningi. Það var á engan hátt verið að draga úr því sem fyrir flm. vakir í þessum efnum. Ég vildi koma þessari leiðréttingu á framfæri.