23.02.1982
Neðri deild: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2616 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Þær brtt., sem minni hl. fjh.- og viðskn. hefur lagt hér fram, eru mjög til bóta.

Í umræðum um þetta frv. við 1. umr. gerði ég sérstaklega athugasemdir við tvö atriði. Annars vegar gerði ég athugasemdir við þau viðurlög sem frv. gerði ráð fyrir að lögð yrðu á ef ekki væri staðið í skilum með launaskatt. Ég lýsti því þá yfir, að ég mundi með engu móti geta stutt 5. gr. frv. eins og hún lægi fyrir, þar sem bæði væri um að ræða 25% viðurlög og auk þess dráttarvexti eða refsivexti. Í brtt. minni hl. fjh.- og viðskn. er gert ráð fyrir að viðurlög falli niður, en dráttarvextir verði greiddir — refsivextir, ef ekki er staðið í skilum með launaskatt. Þar er fyllilega komið til móts við þá kröfu sem ég setti fram í umræðum um þetta mál við 1. umr., að annaðhvort ákvæðið gilti, en ekki bæði. Ég lýsi þess vegna ánægju minni yfir að þetta hefur fengist fram.

Í öðru lagi gerði ég athugasemd við það, að í þessu frv. væri eingöngu um að ræða lækkun á launaskatti um 1% á fiskverkun og iðnaði, þ.e. útflutnings- og samkeppnisiðnaði, samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð. Ég flutti þess vegna brtt. þess efnis, að launaskattslækkunin næði til fiskverkunar og iðnaðar í sama mæli sem skýrsla ríkisstj. hafði gert ráð fyrir. Nú hefur minni hl. fjh.- og viðskn. lagt fram þá brtt. að lækkun á launaskatti um 1% nái til alls iðnaðar. Hvað eiga menn þá við með iðnaði?

Hvernig á að skilgreina orðið iðnaður? Jú, það er lagt til að lækkun á launaskatti nái til alls iðnaðar samkvæmt atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, opinberrar stofnunar sem hefur tekið að sér að skipta atvinnuvegunum eftir starfsheitum, en Hagstofa Íslands notast þar við alþjóðlega flokkun á starfsheitum og skilgreinir iðnað samkv. International Standard for Industrial Classification, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa komið sér saman um að nota. Það hefur orðið samkomulag um það, og hér liggja fyrir till. minni hl. fjh.- og viðskn. um að fella niður launaskatt um 1% af öllum iðnaði samkv. þeirri skilgreiningu sem Hagstofan hefur á iðnaði, samkv. þeirri alþjóðlegu skilgreiningu sem notuð er um iðnað, samkv. þeirri skilgreiningu sem almennt er notuð í öllum milliríkjaviðskiptum á orðinu iðnaður og notuð er og skilgreind í öllum milliríkjatollasamningum um iðnað.

Ég heyri á ræðum sumra manna, sem hér hafa talað á undan, að þeir eru ekki sammála um hvernig skilgreina eigi orðið iðnað. Ég get að ýmsu leyti tekið undir að það þyrftum við kannske að skoða betur. En í brtt. minni lagði ég fyrst og fremst til að þessi lækkun á launaskatti næði til alls iðnaðar. Nú hefur verið gengið fyllilega til móts við þá brtt. mína og þá kröfu mína, að launaskattslækkunin nái til alls iðnaðar, og hún er skilgreind þannig, að um sé að ræða alla þá starfsemi, sem Hagstofa Íslands, telur iðnað, alla þá starfsemi, sem alþjóðlegar samþykktir og staðlar telja iðnað, og alla þá starfsemi sem skilgreind er sem iðnaður samkv. alþjóðlegum viðskiptasamningum.

Meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur lagt hér fram brtt. þess efnis, að launaskattur verði lækkaður í 2.5% af öllum greiddum vinnulaunum. Í upphaflegum umr. um þessi mál ræddu menn þann möguleika mikið. Þegar ljóst var að eftir að fjárlög höfðu verið ákveðin var ekki unnt að ná samstöðu um svo mikinn niðurskurð á ríkisframkvæmdum og ríkisútgjöldum að unnt væri að fella launaskatt niður um 1% af öllum launatekjum, þá var það tillaga mín að launaskattur yrði lækkaður um 1% af fiskvinnslu og iðnaði. Ég stend því fyllilega að því og ég mótmæli þeim sem telja að hér sé eitthvert vandræðakerfi komið á. Ég tel að skref sé stigið í rétta átt með lækkun launaskatts um 1% fyrst og fremst af þessum greinum sem eiga í verulegri samkeppni við innflutning. Ég hygg að menn verði að skilja að ekki er unnt að stíga þetta skref allt í einum áfanga. Ég geri mér hins vegar vonir um að þetta sé aðeins fyrsta skref og unnt verði að ná samstöðu um að lækka launaskatt af fiskvinnslu og iðnaði enn frekar á starfstíma þessarar ríkisstj.

Ég sé í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. að þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Verði sú till. ekki samþykkt,“ — þ.e. till. um að lækka launaskatt í 2.5% alfarið af öllum launatekjum „er varatill. okkar að launaskattur lækki á fiskverkun og hvers konar iðnaði úr 3.5% í 2.5%, þ.e. till. Guðmundar G. Þórarinssonar á þskj. 356 verði samþykkt. Dragi þm. till. til baka við 2. umr. munum við taka hana upp og flytja og er þá miðað við að launaskattur verði 2.5% hjá öllum iðnaði, sem greiðir iðnlánasjóðsgjald, svo og kjöt- og mjólkuriðnaði.“

Ég skil það svo, að það sé búið að koma til móts við þetta mál. Með þessari till. minni hl. er verið að lækka launaskatt um 1% af öllum iðnaði sem greiðir gjald í Iðnlánasjóð, vegna þess að þeir aðrir, sem greiða gjald í Iðnlánasjóð og ekki falla undir þessa till., flokkast ekki sem iðnaður samkv. þeirri almennu og alþjóðlegu skilgreiningu sem uppi er á iðnaði. Það eru alveg hreinar linur. Í till. minni óskaði ég eftir að launaskattur yrði lækkaður um 1% af öllum iðnaði og fiskverkun. Þessu markmiði hefur verið náð fyllilega með till. minni hl. fjh.- og viðskn. þar sem nú er lækkaður launaskattur um 1% af allri starfsemi í landinu sem telst iðnaður samkv. atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, samkv. alþjóðlegu mati á hvað iðnaður sé, samkv. þeirri skilgreiningu um iðnað sem gildir í öllum milliríkjasamningum og tollasamningum varðandi þessi mál. Þess vegna hefur með nál. minni hl. verið gengið fyllilega og algjörlega að kröfum mínum um lækkun launaskatts. Það hefur algjörlega verið gengið að því markmiði sem ætlað var að ná fram með brtt. minni um lækkun launaskatts á hvers konar iðnaði eins og sú starfsemi er skilgreind. Þess vegna dreg ég till. mína til baka og tel að fullum sigri hafi verið náð í þessu máli og þessum áfanga. Allar raddir um annað eru ekkert annað en hræsni, vegna þess að skilgreining á orðinu iðnaður liggur alveg ljós fyrir.

Hitt er annað mál, og því lýsi ég yfir hér og endurtek enn, að auðvitað geri ég mér vonir um að síðar á starfstíma þessarar ríkisstj. náist samkomulag um að stíga þessi skref enn þá lengra fram á við til hagsbóta fyrir iðnaðinn í landinu.